Stafræn Reykjavík

Þann 1. júní síðastliðinn tóku skipulagsbreytingar gildi hjá Reykjavíkurborg í kjölfar úttektar frá Strategíu á miðlægri stjórnsýslu. Því fylgdu breytingar á skipuriti og hlutverkum, ný kjarnasvið og fleira hressandi. Megintilgangurinn með þessum breytingum er að einfalda, skýra og skerpa stjórnsýsluna.

Áður starfaði ég hjá einingu í miðlægri stjórnsýslu sem hét Skrifstofa þjónustu og reksturs og hjá deild þar undir sem hét Rafræn þjónustumiðstöð, þær einingar voru lagðar niður 1. júní.

Nú hefur verið stofnað nýtt svið, Þjónustu- og nýsköpunarsvið, sem líklegast verður alltaf kallað ÞON innan borgarkerfisins…sem hljómar eins og eitthvað úr Marvel heiminum en það er nú annað mál.

Allar skrifstofurnar á sviðinu munu vinna þétt saman og mynda ásýnd borgarinnar í nýsköpun, þjónustuhönnun, stafrænum miðlum, gagnastjórnun, upplýsingatækniþjónustu og rekstri á stjórnsýsluhúsum og farartækjaflota meðal annars.

Ég er svo heppinn að fá að stýra skrifstofu á sviðinu sem heitir Stafræn Reykjavík.

Megintilgangur okkar er að gera borgina snjallari, gera meira stafrænt, vefþróun, rafvæða ferla, fjárfesta í nýskapandi tækniverkefnum innan borgarinnar, beita aðferðarfræði faglegrar verkefnastjórnunar í stýringu tækniverkefna, innleiða tækninýjungar, setja fram stafrænan hönnunarstaðal, koma á samstarfi við frumkvöðla og háskólasamfélagið, peppa starfsfólk til notendamiðaðrar hugsunar og einfalda aðgengi allra 9.600 starfsmanna borgarinnar að stafrænni ráðgjöf.

Hjá okkur starfar hópur sem samanstendur af sérfræðingum og verkefnastjórum sem öll hafa það sameiginlegt að geta alltaf hugsað út fyrir boxið og leitað skapandi og jákvæðra lausna á jafnvel flóknustu viðfangsefnum.

Við erum á leiðinni.

Reykjavík verður mjög smart!

--

--