Ég bjó til lítið tól til að fletta auðveldlega upp íslenskum orðum (Málið.is „bookmarklet“)
Mér finnst málið.is algjör snilld. Loksins er aðgengileg (ókeypis) orðabók til að m.a. fletta upp stafsetningu á íslenskum orðum.
Ég nota oft „Look Up“ möguleikann í macOS og iOS til að fletta upp enskum orðum – yfirleitt til að kanna stafsetninguna. Mér datt í hug hvort það væri hægt að nota malid.is til að hafa eitthvað sambærilegt fyrir íslensk orð.
Ég nota alls konar „bookmarklets“ til að framkvæma ýmsar aðgerðir (og spara mér tíma) – bókamerkja vefsíður, skrifa kvikmyndagagnrýni, pósta á Tumblr o.s.frv.
„A bookmarklet is a bookmark stored in a web browser that contains JavaScript commands that add new features to the browser.“ — Wikipedia
Þannig að ég bjó til Málið.is „bookmarklet“ ⬅ Á þessari síðu getur þú sett upp þessa orðabókarflýtileið (e. bookmarklet).
Ég held að það sé ekki komið íslenskt orð fyrir „bookmarklet“. Flýtileið er ein hugmynd, þótt það útskýri ekki alveg virknina né eðli hugtaksins. Bókamerkissmáforrit er ekki alveg nógu þjált ;) Bókamerkistól kæmi til greina, en kannski ekki allir sem tengja við það (átta sig á hvað það er).
Kreditlisti
Þessi grein var hugsuð sem smá „colophon“/kreditlisti, þannig að ég ætla að gefa nokkrum síðum viðurkenningu (e. shout-out).
Ég fékk hluta af kóðanum lánaðan úr grein hjá TechRadar (sem ég þurfti að uppfæra og aðlaga) og annan hluta frá annarri flýtileið (e. bookmarklet) sem ég bjó til.
Ég notaði Skeleton sem grunn að lendingarsíðunni og ég fékk bakgrunnsmyndina frá Freepik.
Teymið bak við malid.is á vissulega mikið hrós skilið. Vefurinn er skalanlegur (e. responsive) sem kemur sér vel fyrir þessa flýtileið — birtist mjög vel í 500px breidd.
Eitt í viðbót
Ef ekkert orð er valið þegar þú smellir á Leita á Málið.is þá kemur upp gluggi þar sem þú getur slegið inn orð.