Bílaþvottastöð ríkisins

Ríkisvaldið vs. frumkvöðlar

Ég hef gaman af fólki sem skapar sér tækifæri, stór eða smá. Ætti ég barn fengi það góða húfu. Ég las grein um tvo unga menn sem sáu tækifærið í að þjónusta bíla ferðafólks út frá Keflavíkurvelli. Þeir keyra bílinn þinn á þeirra eigin bílastæði og rukka fyrir það lægra verð heldur en ISAVIA. Einnig ætla þeir að bjóða upp á virðisaukandi þjónustu á borð við bílaþvott.

ISAVIA ohf. er í fullri eigu ríkisins og hlutverk þess er að þjónusta flugvallastarfsemi og flugleiðsögu og leggja grunn að flugsamgöngum á Íslandi. Flestir flugvellir landsins eru ósjálfbærir í rekstri og framlag ríkisins nemur 70% af tekjum þeirra. Einn þeirra er þó ,,að fullu rekinn á viðskiptalegum forsendum” og ekki fer það framhjá neinum að sá flugvöllur er í Keflavík. Ég hef ekki kynnt mér hvort ríkisvaldið eigi að halda úti alþjóðlegum flugvelli en ég er opinn fyrir umræðunni. Mig langar öllu heldur að einbeita mér að vægu atriði í greininni. Haft var samband við, að mig minnir, upplýsingafulltrúa ISAVIA sem upplýsti blaðamanni að opinbera hlutafélagið hyggðist einnig bjóða upp á virðisaukandi þjónustu á borð við bílaþvott.

Samkeppni er uppáhaldsfyrirbærið mitt. Samkeppni knýr allar ákvarðanatökur. Hvern á ég að skipta við? Hverjum á ég að sofa hjá? Hvern á ég að kjósa? Sem allra flestir ættu að hafa frjálsan aðgang að samkeppnismörkuðum og opna blómabúðir, hugbúnaðarsmiðjur eða bílaþvottastöðvar. Aðeins þá batna lífsskilyrði fyrir okkur öll. Einn aðili ætti ekki að keppa og það er ríkið. Ég veit ekkert hvort þetta gangi upp hjá strákunum, ég óska þeim velfarnaðar en hvort þetta fari í þrot eða á hlutabréfamarkað hefur lítil áhrif á mig. Ríkið í krafti yfirburðarstöðu sinnar að sinna tilteknu verkefni er annað mál. Stækkun umsvifa opinbers hlutafélags eykur áhættu skattgreiðenda og ruðningur ríkisvaldsins á samkeppnismarkaði dregur úr nýsköpun.

Lesendur kunna að hugsa nú með sér:

Stófi, Stófi, Stófi… ISAVIA er ekki ríkisstofnun, það er sjálfstætt fyrirtæki í eigu ríkisins, það er allt annað.

Við því segi ég: ,,kommon.’’