Flokkarnir á Facebook: Hvað kveikir í kjósendum?

Agnar Freyr Helgason
4 min readOct 4, 2017

--

Samfélagsmiðlar eru magnað fyrirbæri. Fyrir félagsvísindafólk eru þeir ekki síst áhugaverðir þar sem þeir eru mikil uppspretta gagna sem hægt er að nota til að lýsa og greina mannlega hegðun. Á mínu sviði, stjórnmálafræðinni, rekst maður til dæmis á sífellt fleiri fræðigreinar sem nota gögn af Facebook- eða Twitter á hugvitsamlegan hátt til að varpa ljósi á ýmis viðfangsefni, svo sem viðhorf almennings til málefna, frammistöðu frambjóðenda í kosningaþáttum og áhrifum jafningja á kosningahegðun. Auðvitað er það takmörkunum háð hvaða ályktanir er hægt að draga af slíkum gögnum, en í það minnsta gefa þau okkur annað sjónarhorn á ýmis áhugaverð viðfangsefni félagsvísindanna.

Mér datt í hug að það gæti verið áhugavert að skoða sérstaklega hvernig íslensku stjórnmálaflokkunum gengur á vinsælasta samfélagsmiðlinum, Facebook. Facebook gerir það nokkuð auðvelt að nálgast gögn um opnar síður á miðlinum og greina til dæmis fjölda notenda sem lækar, deilir og gerir athugasemdir við færslur sem birtast á síðunum (NB. þessi gögn eru ekki persónugreinanleg). Það má vel ímynda sér að hægt sé að nota þessi gögn til að greina málefnaáherslur flokkanna, upplegg þeirra í kosningabaráttu, strategísk viðbrögð við utanaðkomandi atburðum og svo framvegis, en ég ætla hins vegar að fókusa á frekar einfalda spurningu: Hvað kveikir í fylgjendum flokkanna á Facebook?

Til að svara spurningunni sótti ég allar færslur sem birst hafa á aðalsíðum stærstu stjórnmálaflokkanna níu (miðað við nýlegar kannanir) frá upphafi árs 2013 til dagsins í gær. Gögn fyrir Bjarta framtíð (A), Framsóknarflokkinn (B), Sjálfstæðisflokkinn (D), Pírata (P), Samfylkinguna (S) og Vinstri-græn (V) eru til fyrir allt tímabilið, en Viðreisn (C), Flokkur fólksins (F) og hinn splúnkunýji Miðflokkur (M) eru einungis með virkar Facebook síður hluta af tímabilinu.

Fyrsta myndin hér að neðan sýnir þann fjölda notenda á Facebook sem hefur líkað við hverja færslu flokkanna undanfarin fjögur ár. Hver punktur á grafinu er ein færsla, á x-ásnum má sjá hvenær færslan var sett á Facebook og á y-ásnum fjöldann sem hefur líkað við færsluna.

Hver punktur stendur fyrir eina færslu. Færslur sem fleiri en 500 hafa lækað eru rauðmerktar. Gögnin ná frá 1. janúar 2013 til 3. október 2017 og eru sótt af vef Facebook síðasta dag tímabilsins.

Það kom mér verulega á óvart hversu fáir notendur læka almennt við færslur flokkanna. Meðalfærslan fær einungis 34 læk og á rúmlega fjórum árum hafa flokkarnir sameiginlega einungis 36 sinnum sett inn færslur sem fá meira en 500 læk. Notendum Facebook virðast því ekki vera neitt sérstaklega í mun að sýna velþóknun sína á því sem flokkarnir bjóða upp á á miðlinum (til samanburðar má nefna að á einungis fimm mánuðum hafa tæplega 60 færslur í hópnum ,,Keypt í Costco Ísl.- Myndir og verð.” fengið yfir 500 læk).

Ef litið er til færslnanna með flest læk, þá á Sjálfstæðisflokkurinn dyggasta stuðningsfólkið á Facebook, en 22 af þeim 36 færslum sem náð hafa 500 lækum birtust á síðu flokksins. Framsókn kemur þar næst á eftir með 5 færslur, Björt framtíð og Píratar með 3 færslur, en Flokkur fólksins, Samfylking og Vinstri græn eru með eina færslu hver. Viðreisn kemst ekki á blað.

En hvaða færslur hafa fengið flest læk? Eitthvað tengt Icesave-dómnum 2013, Panama-skjölunum 2016 eða ríkisstjórnarslitum 2017?

Nei, myndbandið ,,Bjarni Benediktsson bakar köku” trónir á toppnum með 1354 læk.

Næstu tvær færslur á listanum eru einnig frá Sjálfstæðisflokknum (og nokkuð almenns eðlis), en í fjórða sæti er færsla Flokks fólksins um málaferli forsvarsmanna flokksins vegna afturvirkrar skerðingar stjórnvalda á ellilífeyrisgreiðslum, með 856 læk.

Þetta er afar athyglisvert og endurspeglar mögulega að eldra fólk er frekar virkt pólitískt á Facebook. Næstu færslur á listanum eru nokkuð almenns eðlis — snúa ýmist að frambjóðendum flokkanna, fylgiskönnunum eða hvatningu til að mæta á kjörstað.

Læk eru eftirsóknarverð, en væntanlega eru deilingar heilagur kaleikur flokkanna á Facebook. Það er því ekki úr vegi að líta á hvaða færslum flokkanna hefur verið deilt oftast.

Hver punktur stendur fyrir eina færslu. Færslur sem fleiri en 300 hafa deilt eru rauðmerktar. Gögnin ná frá 1. janúar 2013 til 3. október 2017 og eru sótt af vef Facebook síðasta dag tímabilsins.

Það er eitthvað minna að frétta af deilingum af síðum flokkanna. Að meðaltali er hverri færslu deilt um 5 sinnum og einungis 12 færslur hafa fengið fleiri en 300 deilingar.

Nokkrar færslur hafa þó náð talsverðri útbreiðslu og þar af tvær yfir 1000 deilingum. Annars vegar vantraustsyfirlýsing stjórnarandstöðunnar þann 4. apríl 2016, sem fékk 1326 deilingar:

Hins vegar færsla Samfylkingarinnar fyrir tæpum tveim árum síðan sem birtir myndir af þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem höfnuðu tillögu stjórnarandstöðunnar um afturvirkar kjarabætur til aldraðra og öryrkja, sem fékk 1268 deilingar:

Í þriðja sæti er fyrrnefnt kökumyndband Bjarna Benediktssonar með 922 deilingar, en í fjórða sæti er myndband Viðreisnar um myntráð, með 616 deilingar.

Átta færslur til viðbótar hafa fengið yfir 300 deilingar. Sex þeirra eru nokkuð almenns eðlis — snúa að frambjóðendum flokkanna eða hvatningu til að mæta á kjörstað, en tvær færslur snúa að tilteknu málefni. Eftirfarandi færsla Samfylkingarinnar, frá því fyrir tveim árum, með 471 deilingu:

Og þessi færsla Sjálfstæðisflokksins frá síðustu kosningum, með 352 deilingar:

Báðar færslur fjalla um kjaramál eldri borgara.

Áhugaverðast finnst mér hversu mörg læk/deilingar kjaramál eldri borgara fá samanborið við önnur málefni. Það hversu sterk viðbrögð málefnið vekur endurspeglar væntanlega að einhverju leyti mikilvægi þess í hugum Facebook-fylgjendum flokkanna og að einhverju leyti hvaða notendur eru pólitískt virkir á Facebook.

Nánast engin önnur málefni fá sérstaklega mikinn fjölda læka eða deilinga. Færslur sem fókusa á frambjóðendur eða almennt um stuðning við ákveðinn flokk virðast mun líklegri til að kveikja á fylgjendum flokkanna. Maður er manns gaman á ágætlega við á Facebook eins og annars staðar.

Svo það sé nú sagt, þá gramsaði ég í þessum gögnum meira til gamans en af alvöru. Þau benda þó til eins og annars sem kann að vera áhugavert að skoða nánar.

--

--