Hverjir kepptu um kjósendur 2016?

Agnar Freyr Helgason
4 min readSep 21, 2017

--

Í íslensku kosningarannsókninni (ÍSKOS) er að finna ýmislegt fróðlegt um viðhorf kjósenda til flokka og málefna. Ein af þeim spurningum sem lögð var fyrir kjósendur í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga sneri að því hvaða flokk eða flokka viðkomandi væri að íhuga að kjósa. Svarendur svöruðu fyrir hvern flokk á skalanum 0 til 10, þar sem 0 merkir að viðkomandi hafi alls ekki íhugað að kjósa viðkomandi flokk og 10 að viðkomandi muni örugglega kjósa viðkomandi flokk. Með því að greina svörin fyrir ólíka flokka saman er hægt að varpa ljósi á hvaða flokkar kepptu um fylgi óákveðinni 2016.

Hér að neðan takmarka ég greininguna við þá átta flokka sem hlutu yfir 2,5% fylgi í kosningunum og takmarka úrtakið við þá svarendur sem tóku afstöðu til spurningarinnar fyrir alla átta flokkana. Þá standa eftir 2451 svarendur. Af þeim höfðu 946 (ca. 39%) þegar ákveðið sig (gáfu einum flokki 10, sem gefur til kynna að viðkomandi hafi þegar gert upp hug sinn) og fjarlægi ég þann hóp sömuleiðis, en þá standa eftir 1505 svarendur.

Taflan hér að neðan sýnir fylgnina (Pearsons r) á milli hverra tveggja flokka meðal þessara 1505 svarenda. Háar jákvæðar tölur og sterkari blár litur gefa til kynna jákvæða fylgni (einstaklingar sem eru líklegir til að kjósa flokk 1 eru líka líklegir til að kjósa flokk 2), en háar neikvæðar tölur og sterkari rauður litur gefa til kynna neikvæða fylgni (einstaklingar sem eru líklegir til að kjósa flokk 1 eru ólíklegir til að kjósa flokk 2). Svartar tölur gefa til kynna tölfræðilega marktæka fylgni, rauðar tölur ómarktæka fylgni.

Heimild: Panelkönnun ÍSKOS 2016. n=1505. Fylgnistuðullinn er margfaldaður með 100. Gögnin eru vigtuð með tilliti til aldurs, kyns, búsetu, menntunar og kosningahegðunar. Marktæknipróf miðast við 95% öryggismörk með Bonferroni leiðréttingu.

Þegar rýnt er í fylgnitöfluna má sjá eitt og annað áhugavert.

Þeir svarendur sem gátu hugsað sér að kjósa Framsóknarflokkinn (B) — sjá fyrstu línuna og/eða fyrsta dálkinn í töflunni — horfðu fyrst og fremst til Sjálfstæðisflokksins (D) sem annars valmöguleika og í minna mæli til Flokks fólksins (F). Svarendur sem gáfu Sjálfstæðisflokknum háa einkunn gáfu Framsóknarflokknum að jafnaði einnig háa einkunn, en þeir virtust einnig horfða til Viðreisnar (C) að einhverju marki. Það má í raun segja að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur myndi nokkuð skýra miðju-hægri “blokk” í gögnunum, sem ætti ekki að koma á óvart í ljósi þess að flokkarnir sátu saman í ríkisstjórn á þessum tíma, sem naut umtalsverðs stuðnings meðal kjósenda beggja flokka.

Samfylking (S), Vinstri-græn (V), Björt Framtíð (A) og Píratar (P) mynda svo nokkuð greinilega miðju-vinstri “blokk” meðal kjósenda enda er fylgni hvers pars af flokkum yfir 30% í öllum tilvikum. Að sama skapi ætti það ekki að koma á óvart enda mynduðu flokkarnir nokkuð samhenta stjórnarandstöðu á þessum tíma.

Á milli þessara tveggja blokka eru Flokkur fólksins og Viðreisn. Stuðningur við Flokk fólksins hefur ekki mikla fylgni við stuðning við önnur framboð, nema þá helst Framsóknarflokkinn. Viðreisn er hins vegar í nokkuð athyglisverðri stöðu, sem nokkurs konar brú á milli blokkanna. Þannig er nokkuð sterk fylgni á milli þess að styðja Viðreisn og annars vegar Bjarta Framtíð (og Samfylkingu og Pírata í minna mæli) og hins vegar Sjálfstæðisflokkinn. Þetta endurspeglar ágætlega þá oddastöðu sem Viðreisn var í eftir síðustu kosningar, en að sama skapi er greinilegt að Björt Framtíð var ekki í viðlíka stöðu. Enda kom það á daginn að bakland Bjartrar framtíðar undi sér illa í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Það sem er einna athyglisverðast við töfluna er hve takmarkaður samgangur virðist vera á milli blokkanna á meðal svarenda, sem sést á hárri neikvæðri fylgni á milli flokka í sitthvorri blokkinni. Almennt má því segja að kjósendur sem gátu vel hugsað sér að kjósa Sjálfstæðisflokk eða Framsóknarflokk gátu illa hugsað sér að kjósa Samfylkingu, Vinstri-græn, Bjarta Framtíð eða Pírata og öfugt. Meginþorri kjósenda virðist því fyrst og fremst hafa verið að velja á milli flokka innan blokkar, en síður að ferðast á milli blokka. Mér segir svo hugur að slík skautun (e. polarization) meðal kjósenda í tvær afgerandi andstæðar fylkingar sé nokkuð ný af nálinni í íslenskum stjórnmálum.

Segja þessi gögn okkur eitthvað um kosningabaráttuna sem er framundan?Það er ólíklegt að miklar sviptingar verði á slíkri skautun frá einu ári til annars. Væntanlega hafa Viðreisn og sérstaklega Björt framtíð hliðrast frá miðju-vinstri blokkinni í hugum kjósenda í kjölfar ríkisstjórnarsetu með Sjálfstæðisflokknum. Flokkur fólksins er sömuleiðis orðin þekktari stærð en fyrir ári síðan og því gögnin kannski ekki að öllu leyti marktæk fyrir þann flokk. En stóra myndin mun sennilega ekki breytast mikið í kosningabaráttunni sem er framundan.

Það má því búast við að áfram muni Sjálfstæðisflokkur og Framsókn mynda miðju-hægri blokk í hugum kjósenda og Samfylking, Vinstri græn og Píratar mynda miðju-vinstri blokk. Barátta þessara tveggja blokka við miðjuflokkana tvo, Viðreisn og Bjarta framtíð, og Flokk fólksins, um óákveðna kjósendur mun setja svip sinn á kosningabaráttuna og ráða miklu um hvaða ríkisstjórnarmynstur verði möguleg í kjölfar kosninganna.

--

--