Nýir og nýlegir þættir til að hámhorfa í desember

Arnór Bogason
2 min readDec 6, 2018

Ég tók saman lista yfir þætti sem ég mæli með og henta prýðisvel til að horfa á um aðventuna og hátíðarnar.

Homecoming

Amazon keypti kvikmyndaréttinn að samnefndum hlaðvarpsþáttum úr smiðju Gimlet Media og fékk Sam Esmail (heilinn á bak við Mr. Robot) til að leikstýra. Julia Roberts er hér í fyrsta skipti að leika í sjónvarpsþáttum og slær ekkert af. Stórkostlega framsett mystería þar sem sannleikurinn kemur smátt og smátt í ljós.

Streymi: Amazon Prime

Bodyguard

Nei, þetta er ekki myndin með Whitney Houston. Brjálæðislegur sex þátta spennutryllir úr smiðju BBC með Rob Stark úr Game of Thrones í aðalhlutverki.

Streymi: Netflix

Ófærð

Ef þú varst ekki búin(n) að horfa á fyrstu þáttaröðina af Ófærð þá er tilvalið að demba sér í það núna enda verður Ófærð 2 á RÚV á annan í jólum. Góð tilbreyting frá Flateyjargátunni sem hefði alveg getað verið betri.

Streymi: RÚV

1983

Ég er sjálfur ekki nema rétt byrjaður á þessu en þættirnir lofa góðu þótt þeir fari hægt af stað. Sögusviðið er Pólland árið 2003 í hliðstæðum heimi þar sem járntjaldið féll aldrei og Pólland er ennþá kommúnistaríki. Ungt fólk sviptir hulunni af samsæri sem var hannað til að halda Póllandi rauðu. Agnieszka Holland er meðframleiðandi og leikstjóri eins af þáttunum en úrval pólskra leikstjóra kemur að þeim ásamt úrvalsleikaraliði frá Póllandi.

Streymi: Netflix

Kidding

Jim Carrey sýnir á sér nýja hlið í dökkum þáttum úr smiðju Michel Gondry. Þarf að segja eitthvað meira? Fyrsti þátturinn er allur á YouTube, gjöriði svo vel.

Það er kominn nýr listi með fleiri þáttum og hann er hér.

--

--