Samskiptafélagið fimm ára!
Fyrir fimm árum, undir lok ágúst 2019, sameinuðust almannatengslafyrirtækið Aton og auglýsingastofan Jónsson & Le’macks (J&L), og var það að mínu viti í fyrsta sinn sem tvö slík fyrirtæki sameinuðust á Íslandi. Eigendur beggja fyrirtækja voru sammála um að breytt starfsumhverfi og þarfir viðskiptavina þeirra kölluðu á þjónustu og utanumhald sem þau gætu betur veitt sameinuð en í sitt hvoru lagi.
Það var hins vegar engan veginn sjálfsagt að þessi tilraun gengi upp, þótt við eigendurnir værum sannfærðir um ágæti hugmyndarinnar. Samruni sem þessi hafði ekki verið reyndur áður, þótt mörkin milli almannatengsla og markaðsmála hafi þá verið farin að verða óskýrari.
Samskipti fyrirtækja og stofnana voru þá að taka algerum stakkaskiptum — og þær breytingar eru alls ekki yfirstaðnar. Beggja vegna borðsins, þ.e. hjá Aton og J&L gerði fólk sér grein fyrir því að þessi breytti veruleiki kallaði á samhæfðari nálgun og þjónustu en áður. Orðspor og ásýnd fyrirtækja voru bæði að verða verðmætari og einnig viðkvæmari en áður. Nýja sýn þurfti því til að byggja upp og varðveita þessi verðmæti.
Aton og J&L höfðu unnið saman fyrir nokkra stóra viðskiptavini og við áttum auðvelt með að vinna saman, höfðum svipaða sýn á hlutverk okkar og markmið og deildum sömu gildum. Aton og J&L urðu því Aton.JL, sem síðar var einfaldað í Aton.
Starfsfólk okkar tók vel í þessa vegferð enda höfðu þau fundið í gegnum verkefni sín hvernig stöðugt var erfiðara að ná í gegn með hefðbundnum leiðum. Næsta skref var svo að upplýsa markaðinn um hugmyndafræði okkar og nálgun við verkefni og ávinninginn sem hlýst af því að forgangsraða stefnumiðuðum samskiptum.
Ég ætla hins vegar ekki að gera lítið úr þeirri vinnu sem fór í að búa til nýjan vinnustað úr tveimur eldri. Mikil vinna fór í stefnumótun og uppbyggingu og tók starfsfólkið virkan þátt í þeirri vinnu og gerir enn. Í þessum geira er virði fyrirtækja allt falið í starfsfólkinu og því afar mikilvægt að fá þau með í vegferðina. Við vinnum alla okkar vinnu í teymum og skipuritið okkar er eins flatt og hægt er að hafa það. Það er því afskaplega mikilvægt að allir starfsmenn skilji stefnu og starfsaðferðir okkar og hafi getu til að starfa sjálfstætt innan þess ramma. Að sama skapi er mikilvægt að hjá okkur starfar afar fjölbreyttur hópur fólks sem hefur ólíka menntun og reynslu úr öllum geirum atvinnulífsins.
Eitt verkefni, sem reyndist snúnara en við gerðum okkur e.t.v. grein fyrir í upphafi, var það hvernig lýsa ætti hinu nýja fyrirtæki. Við vorum ekki lengur almannatengslafyrirtæki eða auglýsingastofa og sinntum í síauknum mæli verkefnum sem hvorki heyra undir almannatengsl né markaðssetningu — t.d. stjórnendaráðgjöf, skýrslugerð og heimildamyndvinnslu svo dæmi séu tekin.
Lengi vel leystum við úr þessu með því að segja fólki stuttu söguna af sameiningunni og létum fylgja með að nú sinntum við öllu því sem sneri að samskiptum fyrirtækja og stofnana, inn á við og út við. Við höfum kallað okkur samskiptafélag og samskiptaráðgjafa. En kannski er raunin sú að umfang og fjölbreytileiki verkefnanna komist ekki fyrir í einu orði, því raunin er sú að hjá Aton veitum við ráðgjöf og þjónustu um allt sem snýr að samskiptum fyrirtækja og stofnana.
Við höfum lagt mikla vinnu í að þróa það starf sem skilar sýninni sem við lögðum upp með við sameiningu: Að orðspor og ímynd fyrirtækja og stofnana væri ein verðmætasta eign þeirra og að samskiptaiðnaðurinn þyrfti nýja tegund fyrirtækis sem gæti sinnt fjölbreyttum þörfum í síbreytilegu samskiptalandslagi. Þessi framtíðarsýn lagði áherslu á aukna þörf fyrir stefnumótandi langtímahugsun til að ná árangri, og því hefur okkar starf skilað. Eftir mikla vinnu stöndum við sem ný og öflug eining undir nafninu Aton, þar sem greining, strategía og sköpun eru í forgrunni í þverfaglegri teymisvinnu.
Tilraunin sem við ákváðum að gera fyrir fimm árum gekk upp og ég gæti ekki verið stoltari af starfsfólkinu og fyrirtækinu okkar.
Höfundur: Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri Aton