Aukafréttatími: Maður ræður stelpu í vinnu

Í vor tók ég við um fimmtíu manna starfsmannahópi hjá Deloitte þar sem yfir 80% eru karlar. Það er erfitt að finna gott fólk en síðan í vor höfum við náð að ráða nokkra flotta starfsmenn, allt karla. Kynjaskiptingin var ekki að mér að skapi, fjölbreytnin skiptir máli. Ég trúi því, og hef reynsluna af því, að hópar þar sem bæði kynin fá að njóta sín eru betri en einsleitari hópar. Að því vil ég stefna hjá okkur.

Ég var því voðalega ánægður með mig í dag. Ég kláraði að ráða stelpu í hópinn sem ég hef verið að tala við undanfarið. Mér fannst því voða gaman að á starfsmannafundi á kvennafrídaginn gat ég kynnt eina nýja stelpu og jafnframt nefnt að önnur myndi bætast við á næstu dögum. Þetta fannst mér jákvætt og ég gaspraði glaður um þetta á Twitter.

Ég skrifa oft á Twitter um vinnuna og hef gert lengi. Ég hef hvatt aðra stjórnendur til að gera það án mikils árangurs. Ég hef hrósað starfsfólkinu mínu, fagnað sigrum og lagt áherslu á atriði sem mér finnast skipta máli — eins og þetta.

Viðbrögðin sem ég fékk við tístinu í dag voru hressandi en ekki fallin til þess að hvetja aðra stjórnendur til að skrifa um þjóðfélagsmál á samfélagsmiðlum, nema þeir hafi þeir gaman að því að fá smá vind í andlitið.

Besta svarið átti Bergþóra Jónsdóttir og hún bætti um betur og svaraði ekki bara heldur skellti í “meme” þar sem hún endurtók gleðina mína með hástöfum og mynd.

Vandamálið

Ég vann við stjórnendaráðgjöf í Bandaríkjunum. Þar var algjör undantekning ef kúnninn var kona. Ég man eftir einni konu sem ég var að vinna fyrir og var hún millistjórnandi hjá viðskiptavininum, ekki “aðalkúnninn”. Á þremur árum voru allir aðrir kúnnar sem ég man eftir karlar.

Ég funda núna stundum með erlendum stjórnendum hjá Deloitte. Það er algjör undantekning ef konur utan Norðurlandanna eru í lykilhlutverkum á þessum fundum.

Mér finnast jafnréttismál áhugaverð og það er ömurlegt að þau eru almennt í algjöru rugli. Þess vegna tísti ég um þau, skrifa um þau og held ræður um þau.

Ræðan mín byrjar á 9:40 og panell sem ég tek þátt í fylgir í kjölfarið

Ég er ekki að biðja um orðu fyrir það eða sérstakt hrós og finnst fyndið að fólk gefi það til kynna að slíkt sé ástæða fyrir því að ég tísti, skrifi eða tali um þetta.

Ég trúi því að það að hafa þessi mál í huga geri mig að betri stjórnanda. Ég trúi því að karlstjórnendur eins og ég sem eru að reyna með virkum hætti að búa til vinnustaði þar sem kynin geti bæði notið sín séu frekar hluti af lausninni en vandamálinu. Bergþóra og nokkrir aðrir á Twitter virðast vera ósammála og fannst tístið mitt bara mjög heimskulegt eða pirrandi. Það er allt í lagi en mér fannst það alveg smá fúlt.

Jafnréttismál eru á allt öðrum stað á Íslandi og á Norðurlöndunum en nánast öllum öðrum stöðum í heiminum. Mér finnst það frábært. Ég geri mér alveg grein fyrir að þessi mál hér eru ekki á þeim stað sem þau þurfa að vera. Ég verð samt að viðurkenna að mér finnst að reiði vegna þessa megi alveg beina annað en til mín — þó ég leyfi mér þann munað að vera rosalega ánægður þegar mér tekst að sannfæra snjallar ungar stelpur að koma til mín í vinnu, og ganga í hóp þar sem 80%+ eru kallar, sem hefur stundum reynst þrautin þyngri.


***Smá viðbót 25/10***

Þetta hefur verið áhugavert. Sumum finnst ég á rangri leið og aðrir hafa sent mér skilaboð og verið á öndverðum meiði. Það er stundum svoleiðis og það er allt í lagi.

Ég er sáttur í sinninu og finnst ég hugsa málin rétt og trúi að ég sé að leggja lóð á vogarskálarnar í rétta átt í miklvægu máli. Það er þó alltaf hægt að læra af öllu.

Ég vissi að þessi umræða er viðkvæm og sérstaklega hvernig karlar taka þátt í henni. Þetta er þó aðeins viðkvæmara en ég áttaði mig á. Sé t.d. að orðið stelpa hefur viðkvæmari merkingu í huga margra en í mínum og því hefði ég ekki átt að nota það orð því það var hluti þess sem stuðaði. Ég tala reglulega um stelpur og stráka í þessu samhengi og það er viðkvæmt — sé það betur núna og mun ekki gera það í framtíðinni. Lærdómur í því.

Ef ég hefði skrifað eithvað aðeins lengra en efnislega það sama og ég vildi sagt hafa, en tónað öðruvísi, hefði það getað hljómað….

„Það er rosa gaman á kvennafrídaginn að geta styrkt hópinn okkar með öflugri ungri konu. Reynsla mín er að það er erfiðara að finna öflugar konur og sannfæra þær um að koma til okkar en karla. Þar sem ég vil auka fjölbreytnina í hópnum þá fagna ég sérstaklega þegar öflugar konur ákveða að bætast í hópinn. Einsleitar hópar ná verri árangri en fjölbreyttir. Fleiri öflugar konur í hópnum okkar styrkja hann og líka okkur sem fyrir eru. Áfram við öll!“

..þá hefði það örugglega ekki stuðað eins og það er bara ágætur lærdómur í að passa smá varfærni því þetta er hitamál, eðlilega. Ég meinti ekkert nema gott, var ánægður með þróunina og vildi fagna öllum litlu sigrunum.

Ég tek þessi jafnréttismál alvarlega og hef sýnt það í verki og ætla að gera það áfram. Ég ætla samt að vera extra var í orðavali.