Hvar á að kaupa bjórinn?

Svo það sé bara sagt strax; þá er mér innilega sama hvort leyft verður að selja áfengi í öðrum búðum en Vínbúðunum. Ég hef ekkert undan þjónustu og aðgengi að áfengi að kvarta. Ég man ekki eftir því að hafa ekki getað keypt vín á þessu árþúsundi en skil alveg að einhverjum finnist þetta fornfálegt fyrirkomulag. Ég hrífst samt með í dægurþrasinu og eftir að hafa hlustað á karpið og “umræðuna” þá sýnist mér málið vera einhvern veginn svona.

Ég vil frelsi

Fylgjendur frumvarpsins halda því fram að það sé mikil frelsisskerðing fólgin í núverandi fyrirkomulagi. Frelsisaukningin felst í tvennu; áfengi mun fást í fleiri búðum sem hafa lengri opnunartíma. Þannig verður auðveldara að nálgast áfengi við þessa breytingu. Og fleiri geta selt, og þannig haft tekjur og atvinnu af því að sýsla með þessa vöru. Það er rétt að takmörkun á aðgengi er í eðli sínu mildara form á banni og því eru það gild rök. En um áfengi mun ennþá gilda gífurlega miklar takmarkanir, miklu meiri og heftandi á frelsi neytenda. Helstu frelsisskerðingar eru hátt verð og aldurstakmark kaupenda við 20 ár.

Hafi þingmenn áhuga á að auka frelsi væri miklu nær að breyta lögum um skatta og aldurstakmark. Nú þegar eru áfengisverslanir á höfuðborgarsvæðinu opnar sex daga vikunnar frá kl. 10–20 á virkum dögum og 11–18 á laugardögum. Útsölustaðir þrettán talsins, en 50 á landinu öllu. Deila má um hvort það sé nóg eða gott aðgengi, en það er óumdeilt að aðgengi hefur aukist gífurlega á síðstu áratugum. Opnunartími hefur lengst mikið og vínbúðum fjölgað á síðustu 30 árum. Þegar Kringlan opnaði árið 1986 var það fyrsta búðin þar sem ekki var afgreitt yfir borðið! Þar var lokað í mörg ár á laugardögum þótt allar aðrar verslanir væru opnar.

Aðgengi á landsbyggðinni er vissulega ekki nærri eins gott og á höfuðborgarsvæðinu og því eiga þessi rök frekar við þar en í borginni. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir að einungis megi selja bjór og léttvín í matvöruverslunum. Nú er það svo að þessar tegundir eru um 80% áfengisneyslunnar í landinu. Með því að færa sölu á þeim úr vínbúðunum bresta forsendur fyrir rekstri þeirra, a.m.k. í því mæli sem nú er. Aðgengi að áfengi sem ekki fellur undir bjór og léttvín mun því snarminnka. Landsbyggðin mun væntanlega finna mest fyrir því enda verða varla forsendur til að reka vínbúðir nema í stærstu þéttbýliskjörnum. Allar líkur eru á að ríkisreknum vínbúðum muni fækka mjög mikið og skerða þannig frelsi þeirra sem kjósa koníak í stað hvítvíns, sérstaklega á landsbyggðinni. Af þessum sökum finnst mér frelsisrökin ekki sérlega sannfærandi. Kannski má segja að frumvarpið sé ekki sérlega líklegt til að ná markmiðum um aukið frelsi.

Fylgjendur hafa einnig bent á að úrvalið muni aukast og verðið lækka, vegna samkeppninnar. Það gæti sannarlega gerst. En hafi þingmenn áhuga á lægra útsöluverði væri töluvert einfaldara að lækka skattinn, enda fáar vörur sem bera viðlíka ofurtolla og áfengi.

Drykkjarvörumarkaðurinn á Íslandi gefur ekki beinlínis tilefni til bjartsýni fyrir áhugamenn um aukið úrval og fjölbreyttara framboð. Hann einkennist af tveimur stórum framleiðendum og innflytjendum sem skipta honum á mili sín; Ölgerðin og Vífilfell. Það vill svo til að þessi fyrirtæki eru líka risarnir á bjórmarkaðnum. Í íslenskum matvöruverslunum er nánast eingöngu hægt að kaupa vörur frá þessum tveimur fyrirtækjum. Þau eiga kælana og sjá um áfyllinguna. Aðrar vörur fá lítið eða ekkert pláss. Ég er ekki viss um að íslensk micro brewery sjái hag sínum best borgið í samkeppni við Ölgerðina og Vífilfell um hillupláss í verslunum. Fylgjendur þurfa að sýna fram á hvers vegna bjórmarkaðurinn ætti ekki að þróast eins og gosið. Hugsanlega opnað sérverslanir með bjór og léttvín með meira úrvali. Þær munu væntanlega ekki breyta stóru myndinni á markaðnum og ég sé ekki alveg hvernig það fyrirkomulag væri miklu betra og öðruvísi en það sem við höfum núna. Þá er ekki líklegt að verð í slíkum búðum muni lækka núverandi útsöluverð, einfaldlega vegna þess að slíkar verslanir geta ekki keppt í verði þegar stórmarkaðirnir taka langstærstu sneiðina af markaðnum.

Komum í veg fyrir samfélagslegt slys

Andstæðingar frumvarpsins hafa miklar áhyggjur af heilsu og félagslegum afleiðingum. Helstu röksemdir þeirra eru að aukið aðgengi kalli á aukna neyslu. Aukin neysla leiðir til fleiri glæpa og félagslegra vandamála, fleiri verða alkóhólistar. Þessu til stuðnings vísa þeir í allskonar rannsóknir.

Nú er það svo að aðgengi að áfengi hefur aukist gríðarlega á síðustu áratugum, sbr. umfjöllunina um frelsisaukninguna hér á undan. Áfengisneysla Íslendinga hefur aukist síðan bjórinn var leyfður árið 1989. Hins vegar ber svo við að glæpum hefur ekkert fjölgað, hvorki í heild, né glæpum sem tengjast áfengi beint, t.d. ölvunarakstur. Unglingadrykkja hefur dregist stórkostlega saman og ekki er að sjá að alkóhólistum fjölgi að neinu ráði.

Fullyrðingar um stókostlegar ofneyslu og samfélagsvanda eru, miðað við reynslu síðustu 30 ára, stórkostlega hæpnar. Svo skiptir máli hvernig er neytt, ekki bara hversu mikið. Raunar er áhugavert að skoða neysluaukninga frá 1980 en síðan þá hefur neysla á alkóhóllítrum næstum því tvöfaldast, en seldir lítrar hafa meira en sjöfaldast. Munurinn skýrist fyrst og fremst af því að fólk hætti að drekka sterkt og fór að drekka bjór. Ég er ekki viss um að margir Íslendingar vilji snúa til baka til vínmenningar 9. áratugarins þótt neyslan hafi verið tvöfalt minni í alkóhóllítrum talið. Tilraunin heppnaðist og mér finnst raunar einkennilegt að íslenskir fjölmiðlar skuli ekki hafa slengt þessum staðreyndum framan í t.d. Landlækni þegar hann fabúleraði um allt af 40% aukningu á neyslu áfengis verði frumvarpið samþykkt.

Það er erfitt að spá

Eftir þessar hugleiðingar held ég að það skipti sáralitlu máli hvort bjór og léttvín sé selt í matvörubúðum eða ekki. Líklega mun slíkur gjörningur auka tilboðin, styrkja Ölgerðina og Vífilfell og fækka útsölustöðum á sterku áfengi. Vonandi verða til skemmtilegar sérverslanir með flottu úrvali. Neysla per mann mun væntanlega aukast lítillega. Stærsta breytingin verður samt örugglega í veltutölum matvöruverslana. Gæti það verið stóra málið?

One clap, two clap, three clap, forty?

By clapping more or less, you can signal to us which stories really stand out.