Sitemap

Heimar verða til

6 min readMay 30, 2024

Síðla vetrar 2022 fengum við á Brandenburg þá skemmtilegu áskorun að búa til markaðsstefnu og nýja ásýnd fyrir fasteignafélagið Reginn.

Reginn er leiðandi fasteignafélag á íslenskum markaði og með eignasafn upp á nærri 400.000 fermetra.

Reginn var ekki með langa sögu sem markaðsdrifið fyrirtæki og lítil áhersla hafði verið á að marka stefnu fyrir markaðsmál og byggja upp ímynd vörumerkisins.

Stjórnendur Regins vildu setja saman stefnu sem hægt væri að byggja markaðsstarf vörumerkisins á og búa til öfluga ásýnd fyrir félagið til framtíðar. Fara frá vörumerki sem væri hefðbundið fasteignafélag og byggja upp fyrirtæki sem væri áhugavert og spennandi og stæði fyrir eitthvað meira en byggingar og atvinnuhúsnæði. Eitthvað sem skipti starfsfólk og samfélagið raunverulegu máli.

Mælingar sýndu að viðskiptavinir voru ánægðir með þjónustu fyrirtækisins og bera mikið traust til vörumerkisins. Reginn var hins vegar veikara í öðrum mælingum en þau vörumerki sem stjórnendur báru sig saman við. Vörumerkið var undir meðallagi í mælingum á ímynd, samfélagslegri ábyrgð og sjálfbærni og var talið hafa litla sérstöðu á markaði.

Þessu vildu stjórnendur breyta.

Reginn er nú Heimar

„Við verðum að þora að breyta okkur til að markaðurinn geti séð okkur í réttu ljósi.“
Pétur Rúnar Heimisson — Markaðsstjóri Heima

Nýtt nafn fyrir nýja tíma

Ný hugsun kallaði á nýtt nafn. Nafnið átti að vera íslenskt en með alþjóðlega skírskotun. Jákvætt og eftirminnilegt nafn sem gæti rammað inn starfsemi vörumerkisins og framtíðarsýn. Nafn sem býður upp á ný tækifæri og ný markmið.

Við völdum stórt nafn. Heiti sem hjálpar okkur að vaxa og hugsa lengra. Nafn sem veitir okkur innblástur og stækkar okkur.

Heimar geta verið ólíkir og margslungnir. Draumheimar jafnt sem raunheimar, mannheimar, undirheimar og uppheimar. Heimar geta verið heilar vetrarbrautir og allt niður í smæstu sandkorn. Innan þeirra rúmast ólík samfélög, hugmyndir og menning.

„Að finna rétta nafnið er bara fyrsta skrefið. Það sem skiptir öllu máli er hvað við gerum við nafnið. Björk er kannski stærsta poppstjarna Íslands — en hún er líka bara tóbaksbúð í Bankastrætinu“
Jón Ari Helgason Creative Director Brandenburg

Dyr sem opnast að nýjum heimum

Heimar þurftu sterkt tákn. Merki sem væri í senn nútímalegt og tímalaust og umfram allt hreyfanlegt. Niðurstaðan var einfalt geómetrískt merki með margþætta vísun í fjölbreytta starfsemi félagsins.

Merkið þurfti að standa sterkt eitt og sér en jafnframt virka með vörumerkjum Heima. Þannig getum við aukið sýnileika vörumerkisins og byggt upp vitund þess.

Þar sem merkið stendur með undirvörumerkjum notum við negatívt myndmerki Heima

Litapallettan

Náttúran notar liti til að fela sig. Ekki ólíkt íslenskum fasteignafélögum. Stjórnendur Heima voru með skýra sýn á að öfugt við samkeppnina ættu Heimar að vera áberandi vörumerki. Eftirminnilegt og óhrætt við sviðsljósið.

Litaskema íslenskra fasteignafélaga er bundin að mestu við dökka jarðliti

Litapallettu Heima sóttum við í íslenskt umhverfi, íslenska birtu, heim andstæðna, heim ljóss og skugga. Dökki liturinn sem traust undirstaða vísar í stutt dægri og bláma næturhiminsins en björtu litirnir í endalausa birtu sumarsins.

Leturgerðin

Letur Heima heitir Geograph og er stílhreint sans serif letur í sex þykktum. Letrið er skýrt og læsilegt en með afgerandi hornum og köntum sem tóna vel við allt útlit Heima.

„Geograph is a contemporary, geometric sans serif. We visited the historic wellsprings of geometric and grotesk typefaces, drawing upon idealism of Futura and the pragmatism of Super Grotesk.“
Af vef Klim Type

Formheimurinn

Grunnur að útliti Heima á rætur að rekja til merkisins. Merkið er teiknað með lóðréttum og láréttum línum brotnum upp með 45° skálínum. Útlitið notar þessa grind sem teiknast öll út frá merkinu. Þannig verður til eins konar borgarmynd sem minnir á götur, byggingar og lituð húsþök íslenskrar byggingarlistar. Útlitið getum við útfært eftir því sem á við hverju sinni og auðvelt er að einfalda það eða brjóta upp með því að fækka eða bæta við litum og formum.

Útlit Heima er auðskalanlegt í einfaldleika og þannig hægt að aðlaga að birtingarmynd og textamagni hverju sinni

Fegurð í smáatriðum

Myndstíll Heima einkennist af hreinum formum og sterkum línum, leik ljóss við skugga. Þegar myndir eru teknar af eignum Heima leitum við að myndbyggingu falinni í arkitektúr og umhverfi eignanna og horfum minna í eignirnar í sinni heildarmynd.

Ljósmyndir blandast formheimi þar sem teiknaðar línur og form í arkítektúr kallast á

Leikur með einföld form

Teiknistíll Heima byggir á einföldum geómetrískum formum úr formheimi vörumerkisins. Form með beinum línum og 45° halla eru notuð til að teikna allt frá einföldum táknmyndum yfir í flóknar myndskreytingar.

Reginn er nú Heimar

Heimar eru fasteignafélag fyrir nýja framtíð. Framtíð sem byggir á meira en bara steypu og gleri. Heimar byggja upp sjálfbæra borgarkjarna, drifnum áfram af hugviti, nýsköpun og samvinnu. Við á Brandenburg óskum Heimum til hamingju með nýja ásýnd og hlökkum til að fylgja þessu vörumerki úr vör og inn í nýja og spennandi tíma.

--

--

No responses yet