100 km hjólahraðbraut

Er það ekki draumur allra hjólreiðarmanna að geta hjólað öruggir frá bílaumferð, fjarri mengun frá bílum og án þess að þurfa að stoppa á rauðu ljósi, bara þeytast áfram með vindinn í hárinu?

Teikning af því hvernig hjólreiða-autobahn gæti litið út.

Þýskaland hefur lokið við fyrsta 5 km hlutann af 100 km hjólahraðbraut. Hraðbrautin mun að mestu verða lögð meðfram lestarteinum sem ekki eru lengur í notkun og tengja saman 10 borgir í iðnaðarhéraðinu Ruhr í vestur Þýskalandi. Brautin er sérstaklega hönnuð með þá sem nota reiðhjólið sem samgöngutæki í huga og mun verða alveg aðskilin frá allri bílaumferð. Næstum tvær miljónir manna munu búa innan tveggja kílómetra radíus frá hjólahraðbrautinni og talið er að brautin muni fækka bílum á götunni um 50.000 á degi hverjum.

Þjóðverjar eru ekki einir um að vilja auðvelda fólki að nýta reiðhjól sem alvöru samgöngutæki, því dæmi eru um hjólahraðbrautir í Danmörku og Hollandi og í London er unnið að hjólahraðbraut frá austur til norðurhluta borgarinnar til að draga úr umferðateppum. Hjólahraðbrautir eru oftast um fjórir metrar á breidd, með pláss fyrir framúrakstur og miðlæg gatnamót.

Hugmyndin um hjólahraðbrautir er þó alls ekki ný af nálinni, því árið 1897 lagði maður að nafni Horace Dobbins til að byggð yrði sérstök braut fyrir hjól frá Passadena og niður í miðbæ Los Angeles. Hafist var handa við byggingu brautarinnar, en með aukinni bílavæðingu dró verulega úr notkun reiðhjóla í Los Angeles og þar með þörfinni og áhuganum á sérstökum hjólabrautum.

Related

You may also like


Originally published at eko.is on January 4, 2016.