Tryggðarskattur og önnur froða
Flest veltum við lítið fyrir okkur hvaða hlutverki VERÐ gegna í okkar daglega lífi. Í sinni einföldustu mynd eru VERÐ ekkert annað en upplýsingar. Í því nútímasamfélagi sem við búum í hjálpa þessar upplýsingar okkur að taka ákvarðanir um hvaða mat við leggjum okkur til munns, hvaða föt eða afþreyingu við kaupum, hvert við fljúgum, o.s.frv. Þannig eru VERÐ í raun ganghjólin sem láta samfélagið okkar virka í stað þess að miðlægur alvitur aðili komi að skipulagi þess og ákvarði hvernig tilteknum verðmætum sé varði eða úthlutað. Gagnsæi og samanburðarhæfni VERÐS skipta því miklu máli fyrir okkur persónulega og í raun virkni samfélagsins í heild sinni.
Þegar kemur að verðlagningu trygginga þá flækist málið af því að við sjálf erum að hluta til varan sem verið er að verðleggja[1]. Tryggingar þjóna í grunninn góðum samfélagslegu hlutverki sem er að gera ótengdum aðilum mögulegt að taka höndum saman til að verja hvorn annan fyrir verstu afleiðingum áfalla. Við gerum hins vegar þá kröfu á tryggingarfélögin að þau verðmeti áhættuna sem hver einstaklingur skapar fyrir hópinn. Það er t.d. ekki sanngjarnt að eigandi glænýs Range Rover jeppa borgi sömu iðgjöld og eigandi sjö ára gamallar Suzuki Swift bifreiðar. Einstaklingar á landsbyggðinni eiga líka að njóta góðs af því að lenda mun sjaldnar í tjónum en íbúar sem keyra daglega um þröngar götur í miðbæ Reykjavíkur. Við eigum samt að geta gengið út frá því að einstaklingar sem falla í sambærilega áhættuflokka borgi sambærileg iðgjöld af bílatryggingunum sínum.
Vandinn er að við getum ekki treyst því.
Flestir þekkja dæmi þess að vina- og viðskiptatengsl geti hjálpað til við að redda betri verðum, en þeim sem birtast á netinu. Samanburður á verðtilboðum tryggingafélaga eru flóknir vegna mismunandi samsetningar tryggingapakka og afslátta sem bjóðast ef fleiri en ein vara er keypt. Í þessari stöðu er ekki furða að fjölmargir neytendur finni til vanmáttar og óvissu um hvort þeir séu að borga fyrir réttu tryggingaverndina.
Aðeins 10–15% skipta árlega um tryggingafélag
Verðskrá og þjónusta íslensku tryggingafélaganna er mjög miðuð að því að binda viðskiptavinina inni í heildar tryggingapakka sem eiga að veita þeim hærri afslætti í takt við fjölda trygginga sem eru keyptar. Þetta veldur því að tilfærsla viðskiptavina frá einu tryggingafélagi til annars er afar lítil hér á landi en talið er að eingöngu um 10–15% Íslendinga skipti um tryggingafélag á hverju ári. Ástæðan er sú að ef þú kippir einni vöru út úr heildarpakkanum að þá er hætt við að þú missir afslætti á hinum vörunum. Þannig er ákvörðunin um kaup á tryggingu frá nýjum þjónustuveitanda stækkuð til muna sem aftur kemur í veg fyrir að stór hluti viðskiptavina þori eða hafi yfirleitt tíma til að fara í gegnum það ferli að leita tilboða í tryggingar hjá öðrum þjónustuveitendum.
Tryggðarskattar og verðteymun
Þessi staða er ekki einskorðuð við Ísland. Fjármálaeftirlit Breta (FCA) hefur á síðastliðnum árum ítarlega rannsaka skort á gagnsæi í verðskrám breskra tryggingafélaga og mögulegar samkeppnishindranir sem verðstefna einstakra félaga kanna að skapa (sjá innskot). Í rannsóknum FCA kom í ljós að tryggir viðskiptavinir, sem ekki hafa skipt um tryggingafélag í fimm ár, voru að jafnaði að greiða 70% hærri iðgjöld en nýir viðskiptavinir. Með öðrum orðum eru tryggir viðskiptavinir að greiða háa „ tryggðarskatta” með því að óska ekki árlega eftir tilboðum í sínar tryggingar. Önnur niðurstaða rannsókna FCA er að tilboðsverðin sem viðskiptavinir greiða fyrsta árið séu ekki sjálfbær í þeim skilningi að verðin myndu til langs tíma ekki standa undir væntum tjón- og rekstrarkostnaði. Félögin veðja hins vegar á að geta „verðteymt” viðskiptavinina upp á við þegar kemur að endurnýjun trygginga með árlegum hækkunum iðgjalda án þess að þeir hverfi annað.
Við hjá Verna höfum á undanförnu ári séð sambærilega hegðun hér á landi í tilfelli ökutækjatrygginga þótt tölurnar séu ekki jafn ýktar og í Bretlandi. Þannig eru dæmi þess að tryggingafélag hafi boðið nýjum viðskiptavinum 15.000 kr afslátt fyrsta árið af bílatryggingum. Við höfum líka séð dæmi þess að viðskiptavinir, sem hafa verið tryggir til fjölda ára hafi lækkað iðgjöldin sín um 25–30% með því að færa sig til annars félags. Varfærnislega teljum við að tryggir viðskiptavinir íslensku félaganna séu að greiða 15% hærra verð en nýir viðskiptavinir.
Í ljósi þess að eingöngu 10–15% viðskiptavina skiptir árlega um þjónustuveitendur má búast við því að mikill meirihluti viðskiptavina íslensku tryggingafélaganna séu að jafnaði að borga talsvert hærri iðgjöld fyrir sínar tryggingar en nýir viðskiptavinir. Einnig er nær öruggt að tilboðsverðin sem nýjum viðskiptavinum bjóðast séu ekki sjálfbær, því að grunnrekstur ökutækjatrygginga flestra félaganna er nær alltaf neikvæður. Þetta veldur því að erfiðara er fyrir nýja leikendur að hasla sér völl á íslenskum tryggingamarkaði og fyrir vikið er samkeppnin um viðskiptavini minni.
Átthagafjötrar tilboðspakkanna og brenglun samkeppnismarkaða
Einnig er ljóst að pakkatilboð sumra íslensku tryggingafélaganna geta skapað kröftuga átthagafjötra sem koma í veg fyrir að viðskiptavinir færi sig auðveldlega annað. Þannig fékk ég tilboð hjá einu tryggingafélagi í bílinn minn upp á ca 230þ. kr fyrir kaskó-, rúðu- og skyldutryggingu en kostnaðurinn lækkaði í undir 175þ. kr. ef innbús- og fjölskyldutryggingum og líf- og heilsutryggingum var bætt við pakkann. Þetta er sérstaklega áhugavert í ljósi lélegrar afkoma tryggingafélaganna af ökutækjatryggingum. Þetta litla dæmi bendir til þess að sum tryggingafélögin gætu verið að nota hagnaðinn af annarri tryggingagrein til að niðurgreiða tapið af ökutækjatryggingum. Sé slík óbein niðurgreiðsla að eiga sér stað gæti það varðað við samkeppnislög eins og sjá má í úrskurðum Samkeppniseftirlitsins gegn fjarskiptafélögum vegna samtvinnunar á þjónustu í gegnum afsláttarpakka og gegn færsluhirðum vegna frírrar leigu á posum gegn samningum um færsluhirðingu.
En hvað er hægt að gera til að sporna við þessari stöðu? Svar FCA, breska fjármálaeftirlitsins, var m.a. að innleiða nýjar reglur í janúar 2022 sem einfaldlega banna verðmismun á milli nýrra og eldri viðskiptavina.[2] Með þessu móti er tryggt að nýir og gamlir viðskiptavinir, sem falla í sama áhættuflokk, greiði algerlega sambærileg verð. Einnig gerir FCA kröfu á tryggingafélögin að þau skili sér árlegum gögnum sem staðfesti að ekki sé mismunur á milli viðskiptavina sem falli í sama áhættuflokkinn. FCA telur að þessi breyting geti skilað breskum neytendum árlega £3,7 milljarða lækkun á iðgjöldum fyrir heimilis- og ökutækjatryggingar. FCA er með til skoðunar að gera frekari breytingar vegna samtvinnun þjónustu á grundvelli tryggingapakka[3].
Það er komið nóg af þessari froðu — hugsum tyrggingar upp á nýtt![4]
Þurfum við þá að bíða í 2–3 ár eftir því að yfirvöld hér á landi rannsaki virkni íslenska tryggingamarkaðirins og breyti svo lögum og reglum? Svarið við því er nei, þótt að það sé nokkuð öruggt að breyta þurfi laga- og regluumhverfi tryggingafélaganna. Tryggingafélögin gætu sjálf haft frumkvæði að breytingum en það þarf þor og dirfsku til þess.
Verna er tryggingatæknifélag sem nýlega setti á markað nýja tegund ökutækjatrygginga í samvinnu við TM tryggingar sem er vátryggjandinn. Nálgun okkar á verðlagningu ökutækjatrygginga er í grundvallar atriðum frábrugðin því sem gengur og gerist, þ.e.a.s:
1. Nýir og gamlir viðskiptavinir borga sömu verðin. Verðtilboðin sem viðskiptavinir fá í gegnum Verna appið eru bestu verðin sem eru í boði. Því er engin þörf fyrir viðskiptavini að hringja og fá tilboð eða kanna hvort að mamma, pabbi eða “Böddi frændi” geti reddað betra verði.
2. Viðskiptavinir stýra iðgjöldunum sínum. Verna appið nýtir nema sem eru í öllum snjallsímum í dag til að búa til ökuskor sem leiðbeinir viðskiptavinum hvernig þeir geta bætt aksturinn og þannig lækkað verðið í hverjum mánuði. Bestu ökumennirnir geta lækkað verðið sitt um allt að 40% miðað við markaðsverð.
3. Mánaðarleg iðgjöld í stað árgjalda. Hefðbundið þurfa viðskiptavinir tryggingafélaga að greiða árgjöld fyrir þær tryggingar sem þeir kaupa. Í raun eru viðskiptavinir að greiða 12 mánuði fyrirfram fyrir þá áhættu sem tryggingafélagið er að taka á sig. Ef viðskiptavinur hins vegar óskar eftir að greiða mánaðarlega þá þarftu að greiða tryggingarfélaginu ca 6–8% vexti fyrir greiðsludreifinguna. Hjá Verna greiða viðskiptavinir mánaðarlegar greiðslur á grunni ökuskorsins án alls vaxtakostnaðar.
Rannsóknir erlendis sýna að þegar viðskiptavinir fá tól í hendurnar til að skilja hvaða áhættu þeir taka við stýrið lækkar tíðni tjóna og meðal tjónakostnaður per tjón einnig því fólk lendir í minna alvarlegum atvikum. Það er þessi lækkun á tjónakostnaði sem Verna er að afhenda viðskiptavinum í formi lægri iðgjalda. Annar ávinningur af ökuskorinu er að áhættumatið verður persónubundnara. Þegar ökuskorið er lagt ofan á hið hefðbundna áhættumat eru vísbendingar um að 70–80% af viðskiptavinum séu að greiða of mikið í iðgjöld og í raun að niðurgreiða iðgjöld þeirra sem taka meiri áhættu í umferðinni. Viðskiptavinir greiða því réttlátari iðgjöld hjá Verna.
Markmið Verna með ökuskorinu og Verna appinu er að koma á fót samfélagi ábyrgra ökumanna. Með því að fá reiknað ökuskor hvetjum við viðskiptavini til að vera betri ökumenn. Við verðlaunum þá sem keyra betur, minnum á að sjá vel um bílinn sinn og að halda fókus við aksturinn. Allt þetta skilar minni mengun til umhverfisins, þökk sé jafnari og mýkri aksturs, og fækkar slysum. Færri slys lækka tjónakostnað og verð fyrir alla.
Dugar ökuskor Verna til að iðgjöld hér á landi verða sambærilega því sem gerist á Norðurlöndunum? Því miður er svo ekki, en lausnir af þessum toga og aukin samkeppni munu skila umtalsverðri heildarlækkun iðgjalda til neytenda. Í komandi pistlum verður fjallað um hvaða viðbótar skref þurfi að taka til að iðgjöld hér á landi lækki enn frekar og verði samanburðarhæf við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.
[1] Það má vera að ég móðgi einhverja með því að fullyrða að við séum varan sem er verið að verðleggja. Þetta er sett fram hér með þessum hætti til einföldunar sem gengur ágætlega upp þegar fjallað er um skaðatryggingar, sbr. bílatryggingar, en það er viðkvæmara að tala um tryggingar á þennan hátt þegar kemur að líf- og heilsutryggingum. Verðlagning líf- og heilsutrygginga er tilefni í annan blogg póst síðar meir.
[2] https://www.icsr.co.uk/fca-new-rules-against-general-insurance-price-walking/
[3] https://riskheads.org/what-is-the-ban-on-price-walking-all-about/
[4] Já orðið „tryggingar” er hér viljandi stafað vitlaust! Ef þú ert að spá í af hverju við skrifum ‘tryggingar’ oft vitlaust, þá erum við vísvitandi að leika okkur með orðið ‘tryggingar’ því stundum þarf aðeins að hrista upp í hlutunum til að ná í gegn.
Originally published at https://www.linkedin.com.