1. sept

Fyrsti september, þegar maður vill ekkert annað gera en að reykja sígarettur allan daginn og drekka kaffi, það er sólheiður himinn og of heitt fyrir vetrarúlpu, of kalt fyrir sumarjakka. Laufin eru flest enn hangandi á trjánum og það er eitthvað nýtt í loftinu, hvort það er árstíð eða rútína, göturnar anga af því. Fólk gengur hratt framhjá manni, eins og það sé að verða of seint eitthvert, eins og það sé á leiðinni eitthvert.

Ég sé í gegnum uppteknu svipina þeirra, þau eru ekki pirruð yfir því að vera á hlaupum — þau elska þetta, þau eru fullorðin, hlaupa hnakkreist um háskólalóðina, horfa einbeitt fram fyrir sig, næstum því fýld á svip.

Áherslur í skrefunum eins og til að sanna að þau eigi heima þarna, passa að láta göngulag eða augntillit ekki koma upp um nýnemahjartað sem slær og slær brjóstholið að innan.

Í fjarska heyrist í flugvél, á götu einhverstaðar þarna fyrir aftan stöðvar strætó, það ískrar í bremsunum. Heyrir maður sérstaklega í flugvélunum af því að það er heiðskýrt eða eru flugvélarnar fleiri af því að það er heiðskýrt? Á himninum liggja hvítar rákir þvers og kruss og dofna.

En þessi nýi andblær er að gera okkur öll brjáluð, og það er fyrsti september, þegar maður vill bara reykja allan daginn, líkaminn orðinn skilyrtur þegar hann finnur lyktina af haustblænum, ný stundaskrá kallar á sígarettuhlé, kúpling á milli gíra — en ég reyki ekki lengur. Ég kíki bara út á milli tíma með hendur í vösum og horfi upp í sólina.

Ég heyri í hæ og bæum, gaman að sjá þig, sjáumst, göngulagið hjá sumum þeirra er glaðlegt, næstum brosandi. Ég tel hversu margir hjóla framhjá mér og ég tel hversu margir eru með stór heyrnartól. Ég reyni að sjá frá hvaða framleiðanda heyrnartólin eru, en það tekst ekki alltaf.

Ef fólk finnur skjól eins og ég getur það læðst úr jakkanum, í skjóli er steikjandi hiti. Mig langar samt að færa mig um set en fresta því þegar ég hugsa um heilu kaffihúsin af þessum sömu nemendum sem sitja með heyrnartólin og bækur og fyrsta september metnaðinn.

Ef það hefði verið eitthvað vit í fólki — ef þau hefðu aðeins hugsað — þá hefði árið byrjað fyrsta september. Einhversstaðar þarna fyrir aftan heyrist í öðrum strætó, pústhljóðið frá honum minnir á tappa skrúfaðan frá gosflösku. Ég heyri í vagnshurðinni opnast og lokast og ég sé fyrir mér skólatöskur raðast inn í vagninn og hverfa á brott.

Ef ég ímynda mér hlið til helvítis lýtur það nákvæmlega út eins og hurðir á strætisvögnum, nákvæmlega sama hljóð kæmi þegar hliðin víkju fyrir mér — ég hlypi hnakkreist inn fyrir þau, eins og ég væri of sein eitthvert og kveikti mér í sígarettu.

One clap, two clap, three clap, forty?

By clapping more or less, you can signal to us which stories really stand out.