Ég veit ekki af hverju en á andartökum sem þessum verð ég bara að springa fram í áþreifanlega tilveru. Þið afsakið kannski kæru lesendur, þetta er ekki sanngjarnt, ég veit það vel. Með því að brjótast svona fram einsog ég geri nú; búklaus rödd á blaði, er ég vissulega að — hvað skulum við segja? — æxla sjálft mig.

Mér þykir það að vísu ekki leitt að þurfa að athafna mig svona, en ég bið ykkur þó afsökunar. Afsökunin hefur líka alltaf verið vinkona mín, einn af betri bakhjörlunum. Við auðgumst hvort á öðru, sjáið til. Ég er yfirleitt undirstaðan fyrir komu hennar og ef ég er ekki þegar á staðnum áður en hún birtist, getið þið treyst því að ég renni um í sandi orðanna á meðan þau eru sögð.

Ég geri mér grein fyrir torræðnishjalinu í mér. Ég get rétt ímyndað mér að núna séu þið orðin frekar eirðarlaus í sætum; athyglin hálfloðir líklega við orð mín og nennir ekki alveg að botna í mér. Það er gott og blessað. Ég sagði ykkur það, ég er búið að biðjast afsökunar — en á þessum andartökum er eins og oflæti mitt þoli ekki meiri íveru.

Tilvist mín er nefninlega ívera. Ég hámarka ekki mitt eigið frelsi, þið gerið það fyrir mig. Þið fæðið mig þegar þið fæðið afkvæmin ykkar. Ég er í ykkur, ég er á milli ykkar. Ég drýp af hugsun ykkar og eðli. Þess vegna hef ég kannski lengi ímyndað mér að ég sé efst allra hugtaka. Ég geng ekki svo langt og segi að hin hugtökin lúti mér. En flest öll, á einn og annan hátt, styrkja mig. Beint eða á ská.

Nú reyndar spyr einhver rómantíker: „Bíddu við hágöfuga hugtak! Hvernig getur ástin leikið á taflborði þínu?“

Og ég svara háttvirtum ástarsjúkling: Hún er ekki vinkona mín. Hún er hreint fyrirbæri og ég tala aldrei við hana. Ég bið ykkur samt að misskilja mig ekki! Ég ber ekki illan hug til hennar, þvert á móti! Ég einfaldlega þekki hana ekki. En nú er það svo að ástin elur af sér marga vini sem eru bakhjarlar mínir líkt og afsökunin. Hún ávaxtar þá og þeir ávaxta mig. Stolt, öfund, virðing, biturð, sorg, dramb, ofbeldi, stríðni, óöryggi — ég gæti talið upp allt fjölskyldutréð ef ég væri ekki hrætt um að athygli ykkar þryti enn frekar.

Kannski ég sýni ykkur smá dæmi um hvernig við ástin teflum. Svona rétt til að þið náið andanum.

Bíðið við.

Já! Hérna! Hér er par sem er fullkomið fyrir okkur. Einmitt núna gæla þau hvort við annað í morgunsárinu. Þau eru greinilega ást fangin. Þau liggja uppi í rúmi og hún strýkur á honum kinnarnar með framanverðum fingrum. Hann horfir niður, kannski á bringuna á sér, kannski ekki á neitt sérstakt; ef til vill hugsar hann bara um heppnina sem honum áskotnaðist fyrir einhverjum mánuðum.

Eftir daga og nætur og daga af einsemd og einmanaleika.

Ef hann vissi það sem þið vitið — að heppnin var bókstaflega ekki með honum — lægi hann kannski núna með spenntar greipar og bæði til hugtakanna.

Víkjum aftur að parinu. Hún kyssir hann milli nefs og kinnar, snýr sér við og fikrar sig fram á rúmbríkina. Rótar í gegnum fatahrúgu á gólfinu. Dregur upp bol en finnur ekki nærbuxur. Skimar kringum rúmið og sér þær undir sófa.

Hún stendur upp og skýst inn í eldhús, kveikir á katli, tiplar inn á klósett, pissar, gaumgæfir sjálfa sig í speglinum, þvær hendur, fer útaf klósettinu og inn í svefnherbergi. Kærastinn er sofnaður. Sængurnar tvær vöðlast um hann þvers og kruss. Hún brosir og skríður upp í til hans, tekur utan um hann að aftanverðu.

„Æ, hvað ég er eitthvað ástfangin af þér.“

Það gerðist ekkert marktækt síðustu tuttugu mínúturnar, kæru lesendur, ég ákvað að hlífa ykkur við óþarfa lýsingum af geispum og kossum. En núna er eitthvað í vændum. Ég finn fyrir sjálfu mér krauma hérna niðri fyrir.

Þau eru komin á stjá og týna saman í skólatöskur fyrir daginn. Þau tala um barnaafmæli sem er á morgun.

„… já, en af hverju getum við ekki stoppað við í smá stund? Bara smástund.“ Hún er vonsvikin og hálfleið. Hana langar að fjölskyldan kynnist honum betur.

„Ástin mín, ég verð að læra.“

„Ég þarf líka að læra! En við erum bara að tala um hálftíma. Bara kíkja við, segja hæ, fá okkur smá að borða og fara síðan.“

„Af hverju þarf ég endilega að koma með?“

„Af því að mig langar að hafa þig með mér.“

„En ég þoli ekki barnaafmæli.“

Hún horfir á hann enn vonsviknari og gefst upp. „Ókei. Allt í lagi. Ég ætla ekki að neyða þig.“

Þau gera sig til, klæða sig í yfirhafnir og skó, slökkva ljós og ganga út í strætóskýli. Þau leiðast í þögn.

Hann getur ekki svona þagnir. Hann reynir að kæta hana; kreistir aðeins lófa hennar nokkrum sinnum og beygir sig svo brosandi fram. Hún neyðist til að mæta augnaráðinu en svarar með stuttu og köldu brosi og lítur svo undan.

Strætóinn tekur þau uppí og þau finna sæti aftarlega í vagninum.

„Ertu reið út í mig?“ spyr hann niðurlútur.

Hún andvarpar. „Nei, ég er ekki reið út í þig.“

Hann horfir fram fyrir sig og kyngir. „Á ég ekki bara að koma með þér í afmælið á morgun?“

„Nei.“

„Jú, ég skal koma með þér.“ Hann rekur öxl í öxl í von um að hressa hana við.

„Mig langar ekki að þú komir með mér.“

„En þú sagðir áðan að þú vildir fá mig með.“

„Þú þolir ekki barnaafmæli.“

„Æ, ástin mín. Má maður ekki grínast aðeins? Auðvitað þoli ég barnaafmæli. Gerðu það, má ég koma með þér? Ég vil koma með.“

„Þú ert alveg ótrúlegur.“

„Er ég alveg ótrúlegur?“

Sáuð þið hvað hún gerði? Hvað hann gerði? Þetta sýnir skákina svo vel! Kóngar geta ekki mátað hvorn annan, en peðin gera allt sem þarf. Þegar tveir einstaklingar gefa sig hvor öðrum þarf gjöfin að vera hnífjöfn. Ef annar aðilinn gefur aðeins meira af sér en hinn skapast ójafnvægi. Og af ójafnvæginu skapast barátta. Skiljið þið núna? Nei, þið skiljið kannski ekki.

Ástin leiðir óneitanlega af sér ójafnvægi á einhverjum tímapunkti sambands. Og ójafnvægi milli tveggja einstaklinga getur ekki annað en leitt af sér baráttu, þangað til þeir sjá að sér og sættast. En ég er þetta ójafnvægi! Ég er þessi barátta! Svona máta ég ástina! Ástfangarnir gefa sig hvor öðrum á vald! Gefa sig mér!

Ég ætlaði ekki að segja hvað ég væri.

Eftir dálitla umhugsun sé ég samt að ég tapaði svosem engu á því. Ég æxlast hvernig sem er. Ég hef sjálft mig yfir ykkur. Jafnvel þó að þið vitið — getið þið ekkert gert. Þið komist ekki burt frá mér, tilvist mín er í-vera. Ég er í ykkur og á milli ykkar. Þið getið ekki valdað valdið. Þið getið haft vald eða veitt vald, þið gerið ekkert án þess að mata mig í leiðinni.

Þið eruð umkringd (snúllurnar mínar!).

Gefist upp og ég vinn. Gefist ekki upp og ég vinn. Gefist upp eða gefist ekki upp, ég mun vinna hvort sem er. Annaðhvort gefist þið upp eða gefist ekki upp.

One clap, two clap, three clap, forty?

By clapping more or less, you can signal to us which stories really stand out.