Rúm, rými.

Fyrirgefðu ástin mín, ég er alveg búinn á því, umlar þú og snýrð þér á hliðina svo að núna kyssi ég öxlina þína eins og til að malda í móinn, ég hvíli varirnar við bakið á þér, strýk þeim lítillega til hægri og vinstri á meðan ég ákveð hvort ég eigi að gefast upp eða reyna áfram. Síðan finn ég fyrir bungu á bakinu á þér, lít niður og sé hvíta graftarbólu sem er alveg að springa.

Leggst á bakið og andvarpa mátulega nógu hátt svo að þú heyrir það, nógu lágt samt svo að þú haldir ekki að ég sé að samviskubíta þig. Þú spyrð: er allt í lagi?

Já, svara ég þunglega, þannig að þú ættir að vita að svo er ekki, ég horfi upp í loftið á svefnherberginu okkar. Slakaðu á, segi ég við sjálfa mig en finn að tilfinningar mínar eru að sjóða uppúr og setningar og orð skjótast undan þeim eins og loftbólur undan pottloki; viðtakandi, móttakandi, þiggjandi, ég ligg þá bara áfram og bíð eftir veitandanum, eftir gefandanum sem sæðir mig þegar hann er í stuði, aldrei hef ég neitað kynlífi, ég er auðvitað bara passív, hið óvirka, jarðvegur sem býður eftir frjóvgun, ég get náttúrulega alltaf stundað kynlíf en þú þarft að vera í réttum gír, þú ákveður hvar og hvenær, ­þú ert ríkjandi, dómínerandi, andinn yfir efninu.

Og ég sný mér á hina hliðina svo að núna liggjum við bak í bak, verst að við eigum bara eina sæng, ég heyri í þér anda lágt og veit ekki hvort þú sért sofnaður en mig grunar það. Helvítis, hugsa ég. Vörusvik.

Ligg upp að veggnum í frekjukastinu og minni sjálfa mig á að slaka á, slakaðu á!, hættu að vera í fýlu bara af því að þú færð ekki allt sem þú vilt, en hugtök úr kynjafræðigreinunum halda áfram að radda mína eigin hugsun, ég hugsa aktívt um kynlífið sem við ættum að vera að stunda og verð bara æstari fyrir vikið, nudda rassinn upp við þinn rass á lúmskulegan hátt, hósta frekar hvellt til að vekja þig og þú rumskar og hreyfir þig aðeins.

Hrasa niður í verri hugsanir: þetta er ástæðan fyrir því að fólk heldur framhjá, og fæ sting því að á endanum muni ég kannski halda framhjá þér. Reyni að bægja þeim hugsunum frá en myndin er komin í hausinn á mér: þú grátandi þegar ég segi þér frá því, þú einn að reyna að sofna, þú að stunda kynlíf með annarri konu, þú þegar ég hitti þig af tilviljun með nýju konunni.

Kasta mér yfir á magann og líður illa yfir því að vera svona frek, þú sem varst nú að koma af fjórtán tíma vakt, búinn að hlaupa um í allan dag. Ég lyfti hausnum frá koddanum og lít yfir í þína átt — þú ert kominn yfir á bakið, munnurinn hálfopinn.

Og áður en ég veit af er ég búin að snúa mér að þér aftur og kyssi þig á öxlina. Þú tekur utan um höndina mína þegar hún laumast meðfram rifbeinunum þínum.

Er allt í lagi? spyrð þú í annað skiptið og ég svara strax: ég er smá fýlu.

Æ, fyrirgefðu ástin mín, segir þú svo að ég heyri að þér þykir þetta leiðinlegt, ég finn fýluna gufa upp og sé fyrir mér pott tekinn af eldavélarhellu. Ég gref andlitið í öxlina á þér og sofna þar.

One clap, two clap, three clap, forty?

By clapping more or less, you can signal to us which stories really stand out.