RYÐ

Það var verið að byggja íþróttasal við skólann hennar. Í minningunni sér hún háa tréstiga halla sér upp að byggingu, þunga verkamannastiga sem gefa manni flísar í lófana. Hún heyrir bank úr hamri og viðvörunarpíp frá vél sem er kannski að bakka.

Svæðið er afgirt, en það er ekkert vandamál að skríða undir eða á milli rimlanna. Það er svo mikið af dóti, hættulegu dóti¸ nýir felustaðir, spýtur með útstandandi nöglum og síðan er gul ýta á miðju byggingarplaninu. Við jaðarinn á planinu standa stórar tunnur úr járni; þær eru loklausar, ryðgaðar, reistar upp, fastar við jörðina.

Hún hafði ekki hitt marga úr bekknum þetta sumarið, jú tvíburana eitthvað, og Kristínu Bryndísi. Hún situr við hliðina á henni. Kennarinn er nýr, heitir Valgerður.

Klukkan er tvö, þrjú og loksins fjögur og skólinn er búinn og þau eru komin að girðingunni, einhverjir byrjaðir að smeygja sér í gegn. Byggingarmennirnir eru farnir heim til sín.

Þau hlaupa inn á svæðið, öskrandi, hrópandi upp yfir sig, sjáið þetta! en hana rekur frá hópnum. Tunnurnar ná henni að öxlum. Hún velur sér tunnu lengst frá látunum og klifrar ofan í hana.

Í tunnunni eru tvær þungar gangstéttarhellur, ein brotin, önnur heil, og síðan rauð og bogin járnstöng eins og stendur stundum upp úr steypulögðum húsareitum. Í botninum er gróf möl, hún finnur lykt af blautri mold og steinum og járni.

Haltu fast! heyrir hún. Arndís! Ég er að detta! segir rödd sem hún þekkir ekki og Arndís svarar: Taktu í höndina á mér! Við erum alveg að koma í land!

Hún horfir upp í hringlaga himininn.

Hún finnur fyrir sjálfri sér einni í tunnunni, hún finnur fyrir hinum krökkunum saman.

Það heyrist skellur svo henni kútbregður, tvær sekúndur líða og einhver fer að gráta. Hún stendur upp í tunnunni, grípur í ryðið, það er aðeins byrjað að rigna, skimar forvitin í kringum sig og reynir að sjá hver meiddi sig.

Því næsta sem hún man eftir er þegar hún heldur um andlitið á sér, nefið á sér. Hún veit ekki hvað gerðist. Verkurinn er skerandi, andlitið sprungið. Eftir smá stund, jafnvel bara tvær sekúndur, safnast verkurinn saman í nefinu og hún fær svigrúm frá sársaukanum og sjokkinu til þess að gráta. Eftir aðra stund opnar hún augun og sér rauðbrúna veggina á tunnunni, hún hafði hrunið aftur ofan í hana, fæturnir eru flæktir í óþæginlegri stöðu svo að hún á erfitt með að reisa sig við.

Hún situr lengi í tunnunni og grætur og heldur um nefið á sér.

Þegar hún loksins rís upp eru krakkarnir farnir. Hún klifrar uppúr og sér þá hvað datt á nefið á henni. Tréstigi, stór og þungur, þessi sem gefur þér flísar í lófana. Hann liggur beina leið frá rótum nýju byggingarinnar og að fótum hennar. Hann hafði neglt henni ofan í tunnuna með einu hamri, svo auðveldlega, svo snyrtilega. Hana svíður í brjóstið yfir því að vera jafn veikbyggð og hún er.

Hún gengur hægt heim án þess að horfa upp frá götunni. Í lyftunni sér hún útganginn á sjálfri sér, hún hefur fengið blóðnasir úr báðum nösum. Hún fer beint inn á bað, þrífur sér í framan og fer síðan í tölvuherbergið til pabba síns sem er að vinna. Hún segir honum frá tunnunni og fer aftur að gráta. Pabbi hennar snarar sig við í stólnum og reynir að sefa hana.

Hey, hey, ástin mín, vertu nú sterk, segir hann með áhyggjusvip, strýkur henni um kinnina, en hún lútir höfði, hjartað þungt eins og gangstéttarhella. Hún getur ekki verið sterk.

One clap, two clap, three clap, forty?

By clapping more or less, you can signal to us which stories really stand out.