Skyrtan

„Afsakið fröken?“

„Já?“

„Eruð þið með tannstöngla?“

„Jú, augnablik.“

Ég hvarf frá í örfá andartök og rétti konunni bauk með tannstönglum. Út undan mér voru augu sem reyndu að ná athygli minni. Inni við barinn voru hávaxin jakkaföt tilbúin til að borga. Ég hundsaði augun, og hraðaði mér til jakkafatanna.

„Eru þið að borga allt saman?“

„Já.“

„Það gera átta þúsund tvöhundruð og fimmtíu.“

Ég vissi að þetta hafði verið skyrtan mín í gær. Stelpan hafði líka vitað það. Skyrtan lá samanbrotin í skápnum mínum. Ég hafði beðið eigendurna sérstaklega um hana. Aftur og aftur, í þau síðastliðnu tvö ár sem ég hafði unnið hérna.

„Má bjóða þér afritið?“

„Nei, takk. Þetta er flott.“

Samstarfskona mín sinnti augunum. Ég skimaði yfir salinn. Mætti brosum með brosi og staðfesti að þau voru að gera sér glaðan dag. Þau þyrftu ekki að setja í uppþvottavélina. Þau voru falleg og lífið var (meðal annars) rómantík milli kertaljósa.

Eldri kona á borði níu byrjaði að valkóka í stólnum. Ætli hún hafi ekki reigt höfuðið hægri vinstri í þríveg áður en hún tók eftir mér þarna ská að framan. Hún teygði álkuna yfir sessunauta sína. „Fyrirgefðu, hvar er salernið?“

„Beint í gegnum rauðu dyrnar hérna og til hægri.“

Borð tvö var á förum. Ég þakkaði þeim hjartanlega fyrir komuna, og skein af þakklæti og væntumþykju á meðan þau gengu út. Augabrúnir áhyggjulausar (aðalatriði), bakki á barnum (í biðstöðu). Matseðill klemmdur undir handarkrika. Blaut tuska fyrir aftan bak. Þau skynja ekki forgengileikann, þau brosa bara og styðjast við handriðið niður stigann. Þau hugsa ekki um hið stundlega, um ummerki þeirra sem verða þrifin burt (og jafnvel með þjósti), um gang lífsins, að þau koma og þau éta og þau fara. Að borðin muna ekki, að stólarnir hafi setið undir fólki sem er dautt í dag.

Hún hefur öfundað mig af skyrtunni.

Ég skildi það, ég var það líka þegar ég sá gamla þjónabúninginn, falleg rjómalituð silkiskyrta; yfir brjóstinu lá nafn veitingarstaðarins baldýrað með gylltu — hún geislaði í kertaljósinu við hliðina á svörtum síðerma bómullarbolum með grænu ölgerðarkennimerki.

Ég fullvissaði mig um að enginn væri í kring áður en ég renndi tuskunni yfir borðið. Svitastækjan blossaði upp um leið og ég leysti olnbogana úr rammlæstri líkamsstellingunni.

Bjallan inn í eldhúsi glumdi. Kokkurinn flautaði með lagi úr útvarpinu. Diskarnir voru komnir í lúguna og þar fíniseraði hann þá og frontaði. Hann var orðinn ágætlega kenndur. Ég og samstarfskonan krítum alltaf strik á töflu bak við barinn í hvert skipti sem hann kemur og fær sér vatnsglas af víni.

„Vollah!“ Hann virti diskana föðurlega fyrir sér í sekúndubrot, og síðan hvörfluðu sokkin augun yfir til mín og hann skellti uppúr.

„Ertu ennþá í fýlu útaf skyrtunni?“

Ég svaraði ekki, sem vakti eflaust bara meiri kátínu en annað, og hélt af stað með diskana út í sal. Gestirnir voru útlenskir og váuðu yfir matnum þegar hann birtist fyrir framan þau.

„Verði ykkur að góðu,“ sagði ég á móðurmáli þeirra og tók síðan hring um salinn.

Hún hafði skilið við skyrtuna á nákvæmlega sama stað, samanbrotna, efst í skápnum mínum. Nema núna voru tveir gulir blettir í handarkrikunum. Ég bölvaði í hljóði. Skyrtan var tiltölulega nýkomin úr vélinni.

„Mætti ég taka diskana hjá ykkur?“

„Jú, við erum búin. Þetta var dásamlegt.“

„Frábært, ég skila því upp í eldhús. Má bjóða ykkur eitthvað fleira? Kaffi? Eftirrétti?“

„Nei takk, við erum alveg sprungin.“

Ég flúði bak við barinn og fékk að gera drykki á meðan samstarfskonan stikaði millli borða. Einhver sagði mér einhvern tíma að nota orðatiltækið að hafa þórshamra í höfðinu frekar en að tala um timburmenn (hver var það aftur?).

Samstarfskonan birtist hinum megin við barinn. „Kemstu í kaffi?“

„Jámm, hvað má bjóða þér?“

„Einn latté og einn venjulegan.“

Ég sá hana í gær þegar við gengum fram hjá. Ég var með pela af sterku og við vinirnir ákváðum að skipta um bar. Þegar ég leit inn um gluggann sá ég samstarfskonu mína og þessa aukastelpu sitja upp við barinn. Ég hugsaði það, ég sagði það örugglega upphátt: „Er hún í skyrtunni minni?“ En vinir mínir eru greiðir í spori og úti var kalt svo að ég hef líklega tekið smá slurk af vasafleyginum og ekki pælt meira í þessu. Það voru líka tvær aðrar skyrtur á flakki einhversstaðar.

Mjólkurkannan varð of heit til þess að halda við hana. Mjólkin var fullkomin fyrir fjöldaframleidda listaverkið mitt, „Laufið í kaffibollanum“. Hvernig er hægt að aðhyllast efnislega einhyggju þegar listin er annars vegar?

Listin er raungerður möguleiki. List sprettur upp úr möguleika. Möguleiki þarfnast frelsis en er eiginlega á sama tíma frelsi. Möguleiki sem er raungerður verður að nauðsyn, eitthvað sem er nauðsynlega en ekki mögulega.

Ég náði ekki í kringum hugtökin. Möguleiki og frelsi ættu ekki að vera það sama — frelsi er frjálst, möguleikinn er alltaf mögulega bundinn raungervingu eða nauðsyn..

„..irgefðu? Afsakið? Er ég að trufla?“

„Nei. Alls ekki.“

„Hver er fiskur dagsins?“

„Blálanga.“

Ég leit á klukkuna á kaffivélinni. Hálftími eftir. Þá kæmist ég loksins úr þessari skyrtu. Kannski að ég myndi skilja miða eftir á skápnum mínum.

SILJA EKKI FARA Í DÓTIÐ MITT

Ég hló aðeins upphátt með sjálfri mér. Það væri reyndar mátulegt á hana. Þá myndu allir sjá að hún hefði farið í dótið mitt.

Kokkurinn kom á bak við barinn og ég heyrði í sprænu rauðvínsbeljunnar. Hann var byrjaður að dilla tónum og ég greindi orðaskil af raulinu. Ég beið eftir að hann rigsaði aftur upp í eldhús, fálmaði eftir krít á hillunni og felldi nýtt strik á töfluna.