Óskað eftir aðför á Starhaga

Í vikunni ók bíll í gegnum grindverk leikskólans Sæborgar á Starhaga. Það er óhætt að taka undir það með leikskólastjóranum að ef börn hefðu verið að leik fyrir innan girðinguna þegar þetta gerðist, hefði getað farið mjög illa.

Erla Gísladóttir íbúi við götuna tók myndina.

Jafnvel þótt ólíklegt sé að hraðakstur hafi valdið þessu (bílstjórinn segist hafa verið sofandi, sem er reyndar stórfurðulegt, enda nýbúinn að taka vinstri beygju inn af Ægisíðu) þá hefur málið vakið upp umræður um umferðaröryggi á Starhaganum. Íbúar þar hafa kvartað undan hraðri umferð. Þeir eru reyndar ekki einir um það. Í hverri einustu götu í Reykjavík hefur verið beðið um hraðahindranir af einhverju tagi.

En lítum aðeins á Starhagann. Af hverju er ekið svona hratt þar? Tvennt blasir við.

Í fyrsta lagi er gatan einstefna. Það hefur verið margsýnt fram á að einstefnugötur auka hraða. (Hér er t.d. ágæt grein um rannsóknir þar að lútandi).

Í öðru lagi er Starhaginn fáránlega breiður. Gatan (frá götukanti að götukanti) er 9,92 metrar að breidd, þrátt fyrir að vera bara ein akrein. Til samanburðar má nefna að Miklabrautin á móts við Miklatún er 7,38 metrar að breidd — og hún er tvær akreinar! Það má að vísu leggja beggja vegna Starhagans, en þar eru iðulega fáir bílar, enda eru öll húsin í götunni með að minnsta kosti eitt bílastæði inni á lóð og flest fleiri en það. Gatan lítur því út eins og hraðbraut.

Starhaginn er 9,92 metrar
Miklabrautin í aðra átt er 7,38 metra breið.

Þegar þessi tvö atriði koma saman, einstefna og bein og breið gata, þá skiptir engu máli þótt talan 30 standi á einhverju skilti. Bílar aka hratt við svona aðstæður.

Ég hef verið í sambandi við íbúa götunnar síðustu daga og það fyrsta sem fólki dettur í hug, eru hinar hefðbundnu hraðahindranir eða „öldur“. En hraðahindranir geta líka verið af öðrum toga:

Þar sem umferð er hröð og hættuleg er langbesta leiðin að þrengja götuna, breikka gangstéttar, leggja hjólastíga, setja jafnvel upp gróður, góða lýsingu og mannvænlegt umhverfi. Bílstjórar skilja umsvifalaust að slíkt umhverfi er ekki gert fyrir hraðakstur, og hægja á sér. Það þarf ekki einu sinni að setja hlykki á götuna, eins og gert hefur verið víða. Öfugt við það sem sumir „sérfræðingar“ segja, er mjög gott að ökumaðurinn upplifi varhugavert umhverfi framundan. Hættulegustu bílstjórarnir eru þeir sem finnst þeir algjörlega öruggir og ekkert þurfa að gæta að umhverfinu og geta gefið vel í.

Þetta er það sem íbúar á Starhaga ættu að biðja um. Og þetta er raunar það sem íbúar við Snorrabraut, Rauðarárstíg, Sundlaugaveg, Vesturberg, Sogaveg, Rauðalæk, Einimel, vesturhluta Hringbrautar, og raunar hverja einustu götu borgarinnar hafa verið að biðja um. Að umferðin í gegnum götuna þeirra og hverfið þeirra taki tillit til íbúanna, þeirra sem þurfa að fara yfir götuna, krakka á leið í skóla og frístundir og fólks á gangstéttum, sem hugsanlega er að reyna að tala saman. Hraðakstur eykur mengun, hávaða og hættu og dregur úr lífsgæðum.

Fólk er með öðrum orðum að óska eftir „aðför að einkabílnum“. Sumir óska bara eftir aðförinni fyrir framan húsið sitt. Aðrir vilja aðför í allri götunni sinni, jafnvel hverfinu — en allir sem hugsa málið sjá að það gengur ekki upp að ætla bara að keyra hægt í sinni götu, en gefa í botn í götum allra hinna. Lausnin er að minnka bílaumferð í borginni með því að gera aðra kosti aðlaðandi, svosem strætó, hjólastíga og göngustíga, þétta borgina þannig að hverfin verði sjálfbærari og fleiri ferðir verði farnar gangandi og hjólandi og hægja á þeirri bílaumferð sem áfram mun verða.

Ps. Í fréttinni sem ég tengi á hérna í upphafi segir leikskólastjórinn að henni finnist umferð eftir Starhaga hafa aukist eftir að hægt var á umferð um Hofsvallagötu. Það er að öllum líkindum röng tilfinning hjá henni, því samkvæmt nákvæmum talningum umhverfis- og samgöngusviðs jókst umferð á Ægisíðu ekkert við breytingarnar á Hofsvallagötu, og raunar ekki heldur í neinum öðrum íbúðagötum hverfisins.

One clap, two clap, three clap, forty?

By clapping more or less, you can signal to us which stories really stand out.