BYKÓ reitur

Gísli Marteinn
3 min readJan 11, 2017

--

Nýtt deiliskipulag á BYKÓ reitnum við Hringbraut er í kynningu. Reiturinn er á móts við JL-húsið, þar sem núna er hostelið Oddsson, Myndlistarskóli Reykjavíkur og fleira. Verslunin Víðir er búin að vera í húsinu sem stendur á BYKÓ reitnum í dálítinn tíma.

Skjámynd af nýja deiliskipulaginu.

Margt er gott við nýja deiliskipulagið. En það er svæðið sem er utan deiliskipulagsreitsins sem vekur mig til umhugsunar.

Rauða svæðið hefur enga starfsemi og býður eingöngu upp á hraðbrautarumhverfi, inni í miðri borg.

Nýja deiliskipulagið á BYKÓ reitnum er 3800 fermetrar að grunnfleti, en rauða svæðið á myndinni hér fyrir ofan er 7300 fermetrar. Á BYKÓ reitnum munu komast fyrir 70 íbúðir, einn gististaður, verslanir og þjónusta. Á rauða reitnum fyrir framan (sem er 50% stærri en BYKÓ reiturinn) er ekkert nema hraðbrautarumherfi. Mjög ljótt, illa nýtt, neikvætt og hættulegt fyrir alla aðra en þá sem eru á bílum.

Þetta er ekki aðlaðandi borgarumhverfi.

Þetta ljóta umhverfi er ekki bara óöruggt fyrir gangandi heldur einnig akandi, eins og sést á slysaskýrslu sem birtist í úttekt á Miklubrautinni fyrir nokkrum árum í skýrslu verkefnisins Betri borgarbragur.

Þótt myndgæðin séu mjög lítil má sjá að ljósbláu punktarnir eru margir saman, en þeir þýða umferðaróhöpp án slysa, fjólubláu punktarnir eru hinsvegar alvarlegri óhöpp.

Þegar þetta liggur alltsaman fyrir, velti ég því fyrir mér af hverju hinir góðu arkitektar á umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar létu ekki laga þetta umhverfi um leið og deiliskipulagið var gert. Almennt finnst mér arkitektar hafa of mikinn áhuga á húsum en of lítinn áhuga á því sem gerist í kringum þau. Af hverju náði þessi deiliskipulagsreitur ekki yfir allan rauða flötinn á myndinni hérna að ofan? Íbúðirnar 70 hefðu hæglega getað verið 170, án þess að tapa neinum gæðum. Umhverfið hefði getað verið hannað sem heild og JL húsið og nýja húsið á BYKÓ reitnum getað kallast á og auðvelt hefði verið að komast á milli. Góðar arkitektastofur hefðu getað fundið snjallar lausnir á umferðamálum, gert falleg útivistarsvæði og borgarumhverfi sem hentar öllum, ekki bara þeim sem vilja keyra hratt þarna í gegn.

Jafnvel besta bygging heims á BYKÓ reitnum, mun ekki bjarga þeirri hraðaksturs- og malbiksparadís sem þetta hringtorg er. Ekkert mannlíf mun þrífast þarna á meðan þessu landslagi meðalmennskunnar er viðhaldið. Og það er algjör synd því með Oddsson, Myndlistarskólann, Jóa Fel og fleiri flott fyrirtæki og þjónustuaðila öðru megin og íbúðir og verslanir á BYKÓ reitnum, ætti þetta svæði að geta orðið skemmtilegur segull þarna við norðurströnd borgarinnar og dregið til sín fólk og fyrirtæki. Við þurfum að stækka miðborgina og þetta væri kjörið tækifæri til þess.

--

--

Gísli Marteinn

Sjónvarpsmaður og óopinber borgarfulltrúi í Reykjavík. Áhugamaður um gott borgarlíf og borgarumhverfi// Fighting for better urban areas in Reykjavik.