„Fólk valdi einkabílinn“ er sagt. En hverjir voru valkostirnir?

Gísli Marteinn
3 min readJul 24, 2017

--

Ýmsir sem eru virkir í athugasemdum hafa miklar áhyggjur af því að einkabíllinn þeirra sé lagður í einelti. Þetta kalla þeir „aðförina að einkabílnum“ eða „fjölskyldubílnum“ þegar þeir eru í stuði.

Bílaeigendur að kvarta undan einelti (eða aðför að sér), er álíka og ef þeir sem eru hvítir á hörund á Íslandi myndu kvarta undan mismunun gegn sér. Eða ef Neil Young myndi kvarta undan því að Óli Palli spilaði sig ekki nógu mikið á Rás 2. Engum hópi á Íslandi hefur verið þjónað betur en bílaeigendum síðustu 60 árin, ekki síst í Reykjavík. Borgarskipulagið var áratugum saman beinlínis unnið útfrá hagsmunum þeirra og gegn hagsmunum fólks sem ekki átti bíl.

„En fólk valdi einkabílinn,“ segja þá margir — meðal annars ég sjálfur á meðan ég var ungur og vitlaus og hafði ekki hugsað málin nógu vel. En hvaða val hafði fólk? Í borg sem skipulagði sífellt ný úthverfi og skar á sama tíma niður í almenningssamgöngum þannig að þær voru strjálar og gamaldags; hvaða val hafði fólk þá? Það voru engir hjólastígar og varla göngustígar og jafnvel þótt þeir hefðu verið til staðar var pabbi minn ekkert að fara að labba í vinnuna niður á Hverfisgötu eftir að við vorum flutt í blokkaríbúð í Breiðholtinu. Nei, staðreyndin er sú að fólk valdi ekki einkabílinn — stjórnmálamenn völdu einkabílinn fyrir það.

Í borgarskipulaginu frá 1962 var öll áhersla lögð á hraðbrautaskipulag í borginni og byggingu nýrra úthverfa. Fyrst var giskað á hversu mikið okkur myndi fjölga og svo slumpað á hversu marga bíla við þyrftum. Þessi aðferð hefur verið kölluð „predict and provide“ sem mætti íslenska sem spáð og skaffað. Stjórnmálamennirnir, með hjálp jakkafataklæddra umferðarverkfræðinga sem lærðu sín fræði í kringum 1950, spáðu því hversu mikið fólki á bílum myndi fjölga og hófust þegar í stað handa við að skaffa nýjar götur, breikka þær sem fyrir voru, leggja nokkra ferkílómetra undir bílastæði, rífa gömul hús sem voru í vegi fyrir fyrirhuguðum hraðbrautum og svo framvegis. Síðar kom í ljós að spárnar þeirra voru út í hött og hraðbrautakerfið sem þeir byggðu upp hefði dugað fyrir borg með milljón manns, en á þessum tíma hafði Reykjavík ekki náð 100 þúsund íbúum. Enn þann dag í dag er fjöldi hraðbrauta sem skipulagðar voru á þessum tíma óbyggðar. Sem betur fer.

Þessir mislukkuðu spádómar eru ekki einsdæmi hér á landi. Þessi mynd sýnir ágætlega hvernig samgönguráðuneyti Bandaríkjanna hefur stöðugt og skipulega spáð allt of mikilli bílaumferð og byggt hraðbrautir í samræmi við það. Jafnvel þótt spádómurinn gangi aldrei eftir, halda þeir alltaf áfram að spá gríðarlegri aukningu umferðar — og þar með gríðarlegri þörf á nýjum mannvirkjum fyrir bíla.

Það er athyglisvert að þessir umferðarfræðingar virðast aldrei spá því að gríðarlegur vöxtur verði í neinum öðrum ferðamátum. En fólk getur ímyndað sér hvað gerðist ef þeir skyndilega myndu spá því að farþegafjöldi í strætó myndi tífaldast á næstu 20 árum, og heimta framlög úr ríkissjóði til að búa í haginn fyrir það. Eða ef einhver framsýnn sérvitringur hefði verið með í útreikningunum 1962 og spáð því að tugir þúsunda myndu hjóla á næstu árum, og borgin hefði byggt hjólastígakerfi fyrir milljón manna borg, með dönskum hjólastígum, upphituðum, yfirbyggðum, viðgerðastöðum á leiðinni og svo framvegis. Sá „spádómur“ hefði að vísu verið vitlaus, en ekkert vitlausari en bílaspádómurinn. En við værum hinsvegar með besta hjólanet heims hér um alla borg. Hvort ætli hjólafólk í Reykjavík væri fleira eða færra ef það hefði verið gert?

--

--

Gísli Marteinn

Sjónvarpsmaður og óopinber borgarfulltrúi í Reykjavík. Áhugamaður um gott borgarlíf og borgarumhverfi// Fighting for better urban areas in Reykjavik.