Götuslagur enn á ný

Gísli Marteinn
4 min readJul 25, 2019

--

Áratugum saman hefur slagurinn um göngugötur staðið á milli almennings sem hefur viljað þær og þeirra kaupmanna sem hafa ekki viljað þær. Þessi umræða er enn einu sinni komin upp eftir að Mogginn birti frétt þar sem sagði „Mikil andstaða við göngugötur“.

Þótt Mogginn segi það — þá er það ekki satt. Það er mikill stuðningur við göngugötur, en það er andstaða meðal kaupmanna.

Mogginn er einmitt á móti göngugötum eins og 2–3 borgarfulltrúar minnihlutans í borgarstjórn. Fyrirsögnin er della. Staðreyndin er sú að mikill stuðningur er við göngugötur meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins. Rúmlega 49% þeirra vilja hafa Laugaveginn göngugötu allt árið. 32,7% eru því andvíg. Þetta er mjög afgerandi niðurstaða. Rekstraraðilar í miðborginni eru neikvæðari í garð göngugatna allt árið og 62% þeirra eru neikvæðir.

Langstærsti hópurinn er „mjög hlynt(ur)“ göngugötum og helmingur er mjög eða frekar hlynntur.

Þetta er hins vegar ekkert nýtt. Þegar Austurstræti var gert að göngugötu 1974 blómstraði mannlíf þar svo mjög að í Mogganum kvartaði Víkverji undan því, án kaldhæðni, að það væri „varla hægt að komast leiðar sinnar um göngugötuna á Lækjartorgi og í Austurstræti“. Kaupmenn kvörtuðu samt og fengu það í gegn með pólitískum klækjabrögðum að göngugötunni var lokað. Það var gert þrátt fyrir að 80% borgarbúa vildu halda henni opinni! Borgarbúar þurftu svo að bíða í næstum 20 ár eftir að gatan yrði aftur að göngugötu sem hún er vitaskuld núna.

Áratugum saman hafa miklu fleiri borgarbúar verið hlynntir göngugötu á Laugavegi en hinir sem hafa verið á móti henni. Kaupmennirnir hafa alltaf verið á skjön við þetta og um hríð börðust þeir fyrir því að byggt væri glerþak yfir alla götuna en bílar myndu samt aka þar í gegn! Svona eins og Mjóddin, nema með bílaumferð. Þetta átti að fjármagna með miklum fjölda auglýsingaskilta inni í þessu svifryksmettaða gróðurhúsi.

Úr frétt um yfirbyggðan Laugaveg, með bílaumferð.

En almenningur hafði betur og líka í næsta slag sem snerist um að loka götunni í nokkrar vikur á sumrin. Reyndar voru fyrst prófaðar nokkrar helgar og meira að segja það þótti nokkrum kaupmönnum of mikið. Þá gengu sömu kaupmenn og nú berjast gegn göngugötu (og áður vildu byggja gler-púströrið) á milli rekstraraðila í götunni og reyndu að fá alla til að skrifa undir mótmæli við því að Laugavegurinn væri göngugata. Rökin voru að hér væri alltaf skítaveður, líka í júlí, og Laugavegurinn yrði tómur ef ekki væri bílaumferð. Allt hefur þetta reynst vera tóm þvæla hjá þessum ágætu mönnum enda er ný kynslóð kaupmanna og -kvenna, kaffihúsaeigenda, verta og hótelstýra komin upp sem er með önnur sjónarmið. Vissulega er sú breyting sem nú er í farvatninu, göngugata allt árið, róttækasta breytingin sem gerð hefur verið. En miðað það ótrúlega skemmtilega mannlíf sem nú er á Laugaveginum eftir aðgerðir undanfarinna ára sem miða að því að fækka bílum og fjölga fólki þá þurfa rekstraraðilar engu að kvíða. Almenningur á höfuðborgarsvæðinu stendur með Laugaveginum og vill fá göngugötur.

Oft gleymast líka aðrar göngugötur í þessu samhengi: Vallarstræti sem er fyrir framan Café París og American Bar var einu sinni umferðargata en var breytt í göngugötu. Sömuleiðis vestasti hluti Hafnarstætis fyrir framan Fálkahúsið (UNO/Fjallkonuna). Aðalstræti náði þvert yfir Ingólfstorg með bílaumferð áður fyrr og á Lækjartorgi var bílaumferð. Allt eru þetta dæmi um það sem kallað hefur verið #aðförin að einkabílnum en borgarbúar upplifa langflestir sem meira og betra almenningsrými.

Vallarstræti, sem einu sinni var bílagata en #aðförin að einkabílnum lokaði. Rétt upp hönd sem vill frekar fá bílaumferð þarna! (Mynd: Art Bicnick fyrir Reykjavik Grapevine. https://grapevine.is/best-of-reykjavik/guides-2019/2017/05/30/best-of-reykjavik-outdoor-drinking-in-the-theoretical-sun/)

Það er annars athyglisvert í ofangreindri könnun að þau sem aðspurð segjast ALDREI koma á Laugaveginn eru langmest á móti því að hann verði göngugata! Vilja bara alls ekki að gata sem þau koma ALDREI á, verði betri fyrir gangandi. En meira að segja í þeim hópi segjast 19% ætla að koma oftar á Laugaveginn ef hann verður göngugata allt árið! Fólkið sem oftast sækir Laugaveginn, einu sinni í mánuði eða oftar, er hinsvegar afgerandi fylgjandi því að hann verði göngugata allt árið og langmest fylgjandi því er fólkið sem sækir hann vikulega eða oftar.

Hér er því gamalt vín á nýjum belgjum, endurtekið efni frá mörgum undanförnum árum: Borgarbúar fagna göngugötum en kaupmenn streitast á móti. Það er svo alveg sérlega fyndið smáatriði í þessari könnun, samkvæmt frétt Moggans, að af öllum rekstraraðilum skuli það vera skókaupmenn sem mest eru á móti gangandi vegfarendum!

--

--

Gísli Marteinn

Sjónvarpsmaður og óopinber borgarfulltrúi í Reykjavík. Áhugamaður um gott borgarlíf og borgarumhverfi// Fighting for better urban areas in Reykjavik.