Hús íslenskra bílastæða

Gísli Marteinn
3 min readApr 5, 2018

--

Ríkisstjórnin ætlar að láta verða af því að byggja hús í holunni á gamla Melavellinum sem kölluð hefur verið Hola íslenskra fræða, því þar stendur til að byggja Hús íslenskra fræða (sem nýlega var breytt í Hús íslenskunnar).

Sigurtillagan í samkeppni um húsið er mjög gölluð finnst mér, einsog ég skrifaði um fyrir næstum 10 árum (síðan ég skrifaði pistilinn hefur vef þar sem myndir af því voru sýndar verið lokað og myndirnar því horfnar). Húsið er stakstætt, tekur engan þátt í að skapa götulíf á þessum verðmæta stað, lætur eins og Suðurgatan sé ekki til og þannig mætti áfram telja. Þetta verðmæta land ætti að nýta miklu betur. Reyndar er það svo að á vef stjórnarráðsins er húsið sýnt einsog það sé uppí sveit, eða á Þingvöllum, en ekki í einni þéttustu og eftirsóttustu byggð á landinu:

En það sem mér finnst einna ótrúlegast við þetta hús er að heildar-fermetrafjöldi á að vera um 8700 og þar af á bílakjallari að vera 2200 fermetrar. Með öðrum orðum er 1/4 af Húsi íslenskunnar, Hús íslenskra bílastæða. Húsið mun kosta meira en 4 milljarða og þótt bílastæðin muni sjálfsagt kosta minna en fjórðung þess, hleypur kostnaður við þau á hundruðum milljóna.

Sem er skrýtið í ljósi þess hvar húsið er staðsett. Hér má sjá Holu íslenskra fræða og þau bílastæði sem þar eru allt í kring, ókeypis:

Þetta eru um 400 bílastæði, þau eru öll ókeypis og það er alltaf nóg af auðum stæðum, alla daga. Ég bý þarna við hliðina og geng með Tinna tvisvar á dag um þetta svæði.

Þá vaknar spurningin: Hvers vegna í ósköpunum er verið að byggja þessi rándýru bílastæði. Hver er það sem er að berjast fyrir því að eyða mörg hundruð milljónum í óþörf bílastæði undir Húsi íslenskunnar? Eru það Sjálfstæðismenn, sem predika góða meðferð almannafjár og að ekki sé verið að eyða of miklum peningum í opinberar byggingar? Eða eru það Vinstri-græn sem með þessu vilja auka framboð bílastæða í borginni og auka þar með umferð og mengun? Það voru engin bílastæði á þeim græna bletti sem þarna var áður en gröfin var tekin (og reyndar voru heldur engin bílastæði á grænu ræmunni meðfram Suðurgötu, sunnan við Holuna, sem tekin var undir bílastæði fyrir vinnuvélar á meðan unnið væri í Holunni). Hvar er hugsjónafólkið í þessum tveimur flokkum? Eru völdin svo þægileg að allur hugsjónaeldur er á bak og burt?

Og hvar eru talsmenn íslenskunnar? Væri ekki hægt að verja nokkur hundruð milljónum sem eru eyrnamerktar móðurmálinu betur en í þessi bílastæði sem munu gera borgina okkar verri og hjálpa íslenskri tungu nákvæmlega ekki neitt?

--

--

Gísli Marteinn

Sjónvarpsmaður og óopinber borgarfulltrúi í Reykjavík. Áhugamaður um gott borgarlíf og borgarumhverfi// Fighting for better urban areas in Reykjavik.