Hvar vill fólk búa?

Gísli Marteinn
3 min readMay 31, 2017

--

Sjálfstæðisflokkurinn hélt „Reykjavíkurþing“ á dögunum. Gott að flokkurinn sýni borgarmálum áhuga, en niðurstöður þingsins eru því miður nokkur vonbrigði. Í stuttu máli vill Sjálfstæðisflokkurinn í borginni „leggja áherslu á“ uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Kjalarnesi, Gufunesi, Geldingarnesi, Úlfarsfelli og Grafarvogi. Engin önnur hverfi eru nefnd.

Sjálfstæðismenn vilja að horfið sé algjörlega og „tafarlaust“ frá þeirri stefnu sem mörkuð er í Aðalskipulagi Reykjavíkur, sem samþykkt var í borgarstjórn í nóvember 2013. Þar var ákveðið að stefna framtíðarbyggð inn á við og stöðva útþenslu borgarinnar. Ástæða þessarar stefnu er ekki aðeins sú að þetta er umhverfisvænna, ódýrara og vænlegra fyrir þau hverfi sem fyrir eru, heldur er ástæðan líka sú að borgarbúar vilja ekki útþenslustefnuna.

Rannsóknir sýna að flestir borgarbúar vilja búa vestan Elliðaáa. Raunar er það svo, sýna kannanir, að fleiri búa austan Elliðaáa en vilja það. Vestan Elliðaáa komast hinsvegar færri að en vilja. Þetta má til dæmis sjá í rannsókn á búsetuóskum sem samtökin Betri borgarbragur létu gera árið 2013. Þessi mynd er þaðan, en fjöldi annarra rannsókna hefur sýnt sömu niðurstöðu:

Fermetraverð sýnir það sama, en það verð sem fólk er tilbúið að borga fyrir hvern fermetra segir auðvitað sína sögu um vinsældir hverfa.

Fólk er skynsamt. Ástæða þess að það vill búa vestar er ekki sú að Breiðholtið sé vont (sem það er ekki, það er frábært), eða að útivistarsvæðin í kringum Norðlingaholt séu ekki nógu falleg (þau eru geggjuð). Ástæðan er einfaldlega sú að fólk er komið með nóg af löngum ferðalögum til og frá vinnu, það er búið að átta sig á því að bílaumferð skemmir borgina og veldur banvænni mengun. Og það vill búa í þéttu hverfi þar sem þrífst matvörubúð, kaffihús og önnur þjónusta. Það vill búa í samfélagi þar sem fólk á erindi út á gangstétt, er á leiðinni eitthvert og hittir hvert annað fyrir tilviljun, þekkir nöfn nágranna sinna en ekki bara bílinn þeirra. Það veit að mannlíf gerir hverfin öruggari fyrir þau og börnin þeirra.

Þessvegna væri algjört glapræði fyrir borgarstjórn að byggja ný úthverfi utan núverandi byggðar. Ný úthverfabyggð er ekki lausn heldur upphaf að fjölmörgum nýjum vandamálum — og alveg sama hversu erfitt ástand er á íbúðamarkaði þessa mánuðina er mjög mikilvægt að við freistumst ekki til að taka slíka ákvörðun. Allir munu tapa á þeirri ákvörðun, og mest þeir sem nú þegar búa í Úlfarsfelli, Grafarvogi og fleiri hverfum austast, því þeir munu fá hraðbrautir í gegnum hverfin sín og aukna umferð á umferðaræðarnar vestureftir, sem þegar eru sprungnar.

Ný úthverfi valda meiri mengun, fleiri slysum, kosta íbúanna miklu meiri pening og eru dýrari fyrir hið opinbera heldur en ef við þéttum byggðina. Lýðskrumarar tala núna um að þétting byggðar sé „allt of dýr“. Það er annaðhvort fáfræði eða misskilningur. Þétting byggðar er margfalt ódýrari en dreifing hennar — um það vitna ótal rannsóknir sem gerðar hafa verið á því (sjá til dæmis hér og hér og hér) það er sorglegt að kjörnir fulltrúar í borginni og á Alþingi skuli ekki hafa áhuga eða metnað til að þekkja slík grundvallaratriði.

Það er líka áhugavert að í ályktun Reykjavíkurþingsins segjast Sjálfstæðismenn ætla að „standa vörð um græn og opin svæði í borginni“. Hvað er Geldingarnesið? Er það ekki grænt og opið svæði? Og hlíðar Úlfarsfells upp að Hafravatni, þar sem Sjálfstæðismenn vilja byggja? Er það ekki vinsælt útivistarsvæði sem blánar af berjum hvert ár? Og hvernig er með Kjalarnesið? Stendur til að byggja ofan á húsunum sem eru þar fyrir? Græn og opin svæði eru einmitt fórnarlömb útþenslustefnunnar, ásamt góðu borgarlífi, hreinu lofti, minni umferð og fjölda mörgu öðru sem allur heimurinn veit að er ástæða þess að allar metnaðarfullar borgir á Vesturlöndum eru að þétta byggðina frekar en að dreifa henni.

[Leiðrétt: Ég sagði ranglega að Aðalskipulag Reykjavíkur hefði verið samþykkt „mótatkvæðalaust“ í borgarstjórn því mig minnti að Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson hefðu setið hjá. En þau greiddu atkvæði á móti. Biðst afsökunar á þessari ónákvæmni.]

--

--

Gísli Marteinn

Sjónvarpsmaður og óopinber borgarfulltrúi í Reykjavík. Áhugamaður um gott borgarlíf og borgarumhverfi// Fighting for better urban areas in Reykjavik.