Veit ríkisstjórnin virkilega ekki hvað Borgarlína er?

Gísli Marteinn
4 min readMay 29, 2018

--

Það er vont fyrir alla að rangfærslum sé haldið á lofti í opinberri umræðu. Nú hefur í nokkra daga hver étið upp eftir öðrum að Borgarlínan sé á einhverskonar óburðugu frumstigi sem geri það ómögulegt að ræða um hana. Sömuleiðis er því haldið fram að ekkert sveitarfélag hafi sett pening í hana. Báðar þessar fullyrðingar eru einfaldlega rangar, einsog allir geta auðveldlega sannreynt og til dæmis kom fram í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Borgarlínan hefur verið í undirbúningi frá því vinnan við Aðalskipulag Reykjavíkur fór fram og við skipulögðum þar samgönguás, sem gerði ráð fyrir hágæða almenningssamgöngum. Í aðalskipulaginu segir orðrétt:

Í nýja aðalskipulaginu er gert ráð fyrir samgönguás sem tengir þéttingarsvæði við Örfirisey við blandaða byggð í Elliðaárvogi og uppbyggingu atvinnukjarna í Keldnalandi. Á þessari leið er lögð sérstök áhersla á almenningssamgöngur (hraðleið og forgangur strætisvagna, framtíðarleið fyrir léttlest), hjólastíga og greiðar leiðir fyrir gangandi vegfarendur. Þéttleiki byggðarinnar verður mestur við lykilbiðstöðvar strætisvagna.

Önnur sveitarfélög komu að borðinu mjög fljótlega og allt síðasta kjörtímabil var unnið markvisst að hönnun, þarfagreiningu, kostnaðargreiningu og skipulagi alvöru uppfærslu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu öllu, sem fljótlega fékk nafnið Borgarlína. Íslenskir og erlendir verkfræðingar, arkitektar, hönnuðir og hagfræðingar hafa unnið að málinu undanfarin ár. Í dag skrifar vandaður og góður maður og ágætur vinur minn, mjög lélega bakþanka í Fréttablaðið. Þar segir hann að Borgarlínan „sé ekki einu sinni komin á teikniborðið“. Það er nú meiri þvælan í Hauki vini mínum. Hún er ekki bara komin á teikniborðið og búin að vera þar í 4 ár, heldur komin út af því aftur og í formlegt skipulag! Eftir langan tíma á teikniborðinu var samþykkt markmið um að

„vinna sameiginlega að innleiðingu og uppbyggingu hágæða almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir nefnt „Borgarlínan“).

Eins og sjá má í skjalinu er þetta undirritað af borgar- og bæjarstjórum allra sveitarfélaganna 6 (nema Áslaug Hulda er forseti bæjarstjórnar í Garðabæ en ekki bæjarstjóri ennþá). Eftir þessa undirskrift fór enn meiri vinna af stað og hún endaði með því að samþykktar voru breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, þar sem sérstaklega var verið að gera ráð fyrir Borgarlínu.

En höfundi Bakþankanna er vorkunn, því hann er að éta þetta upp eftir ráðamönnum þjóðarinnar, hvorki meira né minna, sem því miður virðast ekki hafa gefið sér tíma til að skilja Borgarlínu. Frekar en að setja sig inn í málin slá þeir fram órökstuddum frösum um að enginn viti hvað Borgarlína sé. Það er bara rangt. Það má vel vera að þeir viti ekki hvað Borgarlína er og væri það ekki í fyrsta skiptið sem stjórnmálamenn ruglast á sjálfum sér og þjóðinni. En tugþúsundir íbúa höfuðborgarsvæðisins vita bara mjög vel hvað Borgarlína er og kusu í unnvörpum flokka til valda sem styðja Borgarlínu. Í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins fengu flokkar sem styðja Borgarlínuna meirihluta. Flokkar sem eru á móti henni fengu sumstaðar ágæta kosningu, en eru allsstaðar í minnihluta.

Ég er viss um að ef okkar ágætu ráðamenn, sem ég hef annars mikið álit á, myndu kynna sér Borgarlínu og hugsunina á bakvið hana kæmust þeir að sömu niðurstöðu og sveitarstjórnarmenn á öllu höfuðborgarsvæðinu, úr öllum flokkum (nema D í Reykjavík) komust að á síðasta kjörtímabili: Dýrasta og versta leiðin fyrir okkur öll er að fara ekki í Borgarlínu. Við byggjum okkur ekki frá umferðarteppum með gamaldags mislægum gatnamótum fyrir bíla. Það mun ekki duga til og við sitjum uppi með tugi milljarða í slíkar framkvæmdir en samt meiri umferðarteppur en við erum með núna. (Hér er ágæt skýrsla um þennan hluta málsins). Borgarlínan er með öðrum orðum ódýrari en áframhaldandi óbreytt ástand. Þetta veit sveitarstjórnarfólk í öllum flokkum og hefur þess vegna ekki bara undirbúið í þaula, rannsakað, látið vinna álit og samþykkt borgarlínu-breytingar á svæðisskipulagi — heldur hafa bæði Reykjavík og Hafnarfjörður þegar eyrnamerkt peninga í verkefnið.

Og þetta getur gengið hratt. Fyrsti hluti Borgarlínu getur verið byrjaður að aka milli austurhluta Reykjavíkur og Háskóla Íslands (með viðkomu í miðborginni) fyrir árið 2025. Í næstu sveitarstjórnarkosningum 2022 ættu því framkvæmdir að vera í fullum gangi — ef rétt er haldið á málum á næstu árum. Við verðum að gera þá kröfu til okkar besta fólks sem situr á Alþingi og í ríkisstjórn að það sýni framtíð höfuðborgarsvæðisins áhuga og taki þátt í því með sveitarstjórnarfólki að fara þá leið sem er hagkvæmust og best fyrir alla, sama hvaða samgöngumáta þeir kjósa. Og við verðum líka að gera þá kröfu að þetta sama ráðafólk standi við loforðin sem það sjálft gefur í stjórnarsáttmálum. Það er nú varla til of mikils mælst.

(Kynnið ykkur endilega málin hér: http://borgarlinan.is.)

[Í upphaflegu útgáfu pistilsins sagði ég „froðukenndum frösum“. Mér fannst það eitthvað asnalegt orðalag frá byrjun og ómálefnalegt og breytti fljótlega í „órökstuddum frösum“ sem skýrir betur hvað ég á við.]

--

--

Gísli Marteinn

Sjónvarpsmaður og óopinber borgarfulltrúi í Reykjavík. Áhugamaður um gott borgarlíf og borgarumhverfi// Fighting for better urban areas in Reykjavik.