Af hverju valda efnavopnaárásir svona miklum viðbrögðum í alþjóðasamfélaginu?

Hvers vegna bregst alþjóðasamfélagið við og þjóðarleiðtogar fordæma sérstaklega að efnavopn hafi verið notuð gegn óbreyttum borgurum í Idlib í Sýrlandi? Átökin, sem hafa staðið í sex ár, virðast engan endi ætla að taka en alþjóðasamfélagið bregst samstundis við þegar efnavopnum er beitt. Hvers vegna?

Er eitthvað verra að nota eiturgas til að drepa fólk en byssukúlur og sprengjur?

Fyrir skömmu náði fjöldi Sýrlendinga sem eru á flótta undan átökunum utan heimalands síns fimm milljónum, átökum sem hafa kostað 320.000 manns lífið. Eftir árásirnar í Idlib fundar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hins vegar vegna átakanna. Er eitthvað verra að nota eiturgas til að drepa fólk en byssukúlur og sprengjur?

Stutta svarið er: „Já.“ Notkun efnavopna er hreinn og klár stríðsglæpur. Efnavopn eru ekki aðeins ógeðfelld í eðli sínu og oft til þess fallin að valda kvalafullum dauðdaga, heldur er notkun þeirra líka bönnuð í hernaði. Einhverjum kann að koma spánskt fyrir sjónir að tiltekin vopn séu bönnuð og jafnvel þykja undarlegt að sú iðja að drepa fólk, ýmist samborgara sína í borgarastyrjöldum eða íbúa nágrannaríkjanna í stríði milli ríkja, lúti nokkrum reglum. Sú er þó hins vegar raunin.

Mannúðarréttur, International Humanitarian Law, er sú undirgrein þjóðaréttarins sem mælir fyrir um hvað má og hvað má ekki gera í stríði. Þannig er til dæmis bannað að ráðast af ásetningi gegn óbreyttum borgurum eða nota vopn sem valda óeðlilega miklum þjáningum.

Efnavopn, eins og taugaeitrið Sarín sem grunur leikur á að hafi verið notað í Idlib, brjóta í bága við báðar þessar grundvallarreglur. Efnavopn sem berast í lofti eru einfaldlega þess eðlis að nánast ómögulegt er að stjórna því hverjum þau beinast að og þeir sem verða fyrir barðinu á þeim líða oftar en ekki vítiskvalir. Byssukúlum og sprengjum er hægt að beina að hermönnum, þó svo að óbreyttir borgarar séu oftar en ekki fórnarlömb slíkra árása. Eins ógeðfelld og „hefðbundin vopn“ (e. conventional weapons) eru, þá er notkun þeirra gegn hermönnum leyfileg í hernaði. Eins og ég sagði, að hafa reglur um hvað má og má ekki í hernaði hljómar oft mjög undarlega.

Mannúðarréttur, International Humanitarian Law, er sú undirgrein þjóðaréttarins sem mælir fyrir um hvað má og hvað má ekki gera í stríði.

Til viðbótar við þessar grundvallarreglur mannúðarréttarins hafa ríki heimsins sett sérstakt bann við notkun efnavopna með alþjóðasamningi sem heitir því þjála nafni „Samningur um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra.“ Samningurinn, sem var undirritaður 1993, tók gildi árið 1997 og bannar með öllu notkun efnavopna í hernaði milli ríkja, en alþjóðlegur venjuréttur teygir bannið yfir notkun slíkra vopna í borgarastyrjöldum.

Notkun ýmissa annarra vopna hefur verið bönnuð, til dæmis lífefnavopna. Þá er í gildi samningur sem bannar notkun jarðsprengna, en ríki á borð við Bandaríkin, Rússland og Kína eru ekki aðili að þeim samningi. Athygli vekur hins vegar að kjarnorkuvopn falla ekki þarna undir. Engir samningar eru í gildi sem banna þeim ríkjum sem nú þegar eiga kjarnorkuvopn að eiga kjarnorkuvopn, þó svo að notkun þeirra myndi að öllum líkindum brjóta gegn grundvallarreglum mannúðarréttarins.

Samningurinn um bann við notkun efnavopna kveður meðal annars á um að aðildarríki hans eigi að hefjast handa við að eyða efnavopnabirgðum sínum tveimur árum eftir að hann tók gildi. Því eyðingarferli hefði átt að ljúka áratug frá gildistöku samningsins. Atburðirnir í Sýrlandi benda til að það hafi síður en svo gengið eftir. Einn veikleiki þjóðaréttarins er nefnilega að það getur verið erfitt að tryggja að ríki heimsins fari eftir settum reglum. Sérstaklega í stríði.

Show your support

Clapping shows how much you appreciated Gunnar Dofri’s story.