Túristi í tilverunni

Þessi pistill var fyrst lesinn í Lestinni á Rás 1, þriðjudaginn 23 .ágúst 2016.

Hvað er túristi? Manneskja sem krýnir sjálfa sig með algjöru bjargarleysi, togar hettuna yfir höfuð sitt í rigningunni og rýnir furðu lostin í litla kortið sitt og lítur svo í kringum sig á framandi slóðum og spyr sig án afláts hvers vegna kortið af landinu á ekkert skylt við landið án kortsins. Að vera túristi er að ganga sjálfviljugur inn í veröld þar sem maður er háður öllu nema sjálfum sér. Það er skilvirkasta leið fullorðins fólks til þess að snúa aftur í hina kyrru sælu barnavagsins. Þar hvílir túristinn ábyrgðarlaus undir sæng sinni og er tímabundið laus undan þeirri ábyrgð að þurfa að hugsa vandlega um nokkurn skapaðan hlut. Kurteist ókunnugt fólk tekur á móti honum, spennir hann í belti um borð í rútu, segir honum hvað hann er að horfa á og hvaða þýðingu það hefur og hvað honum á að finnast um það, býr svo um hann á gerilsneyddu og algjörlega merkingarlausu hótelherbergi þar sem hans bíða tandurhrein rúmföt og samræmdar sápur og tannburstar, og jafnvel lítill ísskápur með veitingum í þægilegum umbúðum, alls konar nýir og næs hlutir sem eiga það í senn sameiginlegt að samþykkja fullkomið ábyrgðarleysi túristans og fela ekki í sér eina einustu vísbendingu um lífið sem hann yfirgaf.

Túrismi er keypt firring. Túrismi er arðbær og kerfisbundinn fáráðlingsháttur. Túristinn er flón, hann er eins og Góði dátinn Svejk löggiltur hálfviti. Hann má ekki bara vera flón, hann á að vera flón. Allur iðnaðurinn gerir ráð fyrir því að hann sé það. Túristinn þekkir ekki siðina, hann skilur ekki matinn, hann skilur ekki peningana, talar ekki málið. Túristanum er velkomið að bjóða upp á nokkur skot á barnum, öskra, kasta upp og deyja áfengisdauða niðri á strönd. Hann má sleppa því að sturta niður á klósettum. Hann má vera í gallabuxum og refresha emailinn sinn uppi á lífshættulegum skriðjökli. Svona getur hann vikum saman lifað í friði, grunlaus um hvar hann er og frjáls undan öllum fyrri hlutverkum sínum. Hann veit það eitt að hann er staddur einhvers staðar Just North of Summer og þar býr ofboðslega alvörugefið, listrænt og öðruvísi fólk sem stendur oft saman í hóp fyrir utan torfbæi í ullarklæðnaði og borðar Skyr sem er eitthvað gamalt og mikilvægt og um leið the secret to Iceland’s healthy living. Hann staddur í hjarta lygarinnar sem hann hefur þráð svo heitt að heyra, vegna þess að hann er ekki kominn hingað til að efast, heldur trúa. Hann er á hlaupum undan efasemdunum. Túristinn lærir eitthvað nýtt og hættulaust um borð í tveggja hæða rútu þar sem þúsundir eða milljónir annarra hafa heyrt og séð það sama. Þannig eignast hann hlutdeild í endurtekningunni sem gefur ferðalagi hans trúarlega áferð. Túristinn fer á köfunarnámskeið. Túristinn sest á fílsbak og tekur mynd af öðrum túristum. Hann tekur myndir af bronslituðum fótleggjum sínum á sundlaugarbakka og setur þær á netið um kvöldið hugsandi um eitthvað sem hann sér eftir. Einhvers staðar langt í burtu bíður hlutskipti hans, mennska hans, minningarnar, ákvarðanirnar sem hann vill ekki taka, hugsanirnar, harmurinn, óvissan, efasemdirnar, einsleitnin, ábyrgðin.

Buslið í keraldi samtímans

Hvaðan kemur sú hugmynd að lífið muni veita okkur það sem við teljum okkur eiga skilið, að við uppskerum eins og við teljum okkur hafa sáð, að lífið sé fyrirsjáanlegt? Eitthvað segir mér að það tengist því að við á þessum hluta hnattarins lifum og deyjum í hlutspotverki neytandans. Og túristi er jú, ekkert annað en ofurneytandi á faraldsfæti.

Fyrir ekki svo löngu fór maður sem ég þekki á stefnumót. Hann sat þar undir flóði spurninga um hvað hann ætlaðist fyrir í lífi sínu. Við fyrstu kynni vildi stúlkan fá í hendur nákvæmt kort af landinu sem var líf hans. Hún vildi skilja hvert hann ætlaði, hvaða leið hann vildi fara, hvar hann sæi sjálfan sig fyrir sér í fjarlægum tíma. Hún vildi leysa upp óvissuna fallegu sem sat fyrir framan hana og dreypti á mjólkurlausum ameríkanó, létta þokunni sem hún greindi bakvið augu hans. Spurningagryfjan sem kunningi minn var leiddur ofan í var í raun kerald samtímans þar sem við buslum öll í sameiningu og berjumst við að halda okkur á floti. Við þekkjum öll alltumvefjandi kröfur okkar tíma. Allt á að vera planað fyrirfram. Allt skal laust við háska, helst vottað af hinu opinbera. Enginn má vera leiðinlegur við okkur. Við eigum rétt á því að ekkert fari úrskeiðis. Líf okkar á að vera skoðunarferð þar sem við innheimtum það sem við höfum borgað fyrir. Allt í kringum okkur eru ólík öfl og kraftar sem beina sjónum okkar án afláts að því sem við eigum skilið, því sem við eigum rétt á, að allt eigi að vera eins og við höfum séð fyrir okkur og gróðursetur fræ þeirrar hugsunar að við séum í raun túristar í skoðunarferð um eigið líf. Stúlkan horfði í augu kunningja míns og sagði að hún vildi sjá lífið fyrir sér. Það er fráleit krafa, en hver láir henni það í dag? Þetta er barið í okkur frá barnæsku, að okkar hlutskipti sé að marsera gegnum tímann hér á jörð sem tilvistarlegir túristar, áhorfendur að eigin lífi, vopnuð litlu tékklistunum, litla fyrirsjáanleikanum, litlu réttindunum.

Að skrópa í skoðunarferðina, er að kjósa ábyrgðina sem felst í því að ryðja sinn eigin veg í leit að miskunn, og kvænast þar með örvæntingunni sem fylgir vitneskjunni um að hana er kannski hvergi að finna. Nei, það er svo miklu auðveldara að halda sig í pakkaferð túristans þar sem ekkert er annað að hugsa um en næsti sjálfsprottni viðburður á dagskrá. Hér eignast ég íbúðina mína, hér kynnist ég konu drauma minna, hér fæ ég námsleyfi á hálfum launum, hér eignast ég vel heppnuð börn sem gengur vel í skóla, hér fæ ég stöðuhækkkun, hér fer ég í sumarfrí til Barcelona og drekk bjór úti á svölum á kvöldin og hugsa um hvað maturinn er ódýr og lífið næs, hér eignast ég sumarbústað, hér kveð ég dóttur mína í Leifsstöð með tárin í augunum þegar hún fer út í nám, hér tala ég við yndisleg barnabörnin á Skæp, hér þen ég nasirnar í síðasta sinn, umkringdur þakklátu fólki sem þykir vænt um mig, saddur lífdaga, og tikka þar með í síðasta boxið.

Ég er túristi við endalok dvalar sinnar, bíður við gate 27A með vegabréf í hönd og býr sig undir ferðalagið aftur heim, yfir vötnin dimmu, og inn í hinn hljóða og óbyggða guðdóm sem hann kom frá, og sér eftir því einu að hafa ekki tekið ennþá færri sénsa í ferðinni, að hafa ekki skipulagt allt í ennþá fastari skorður, að hafa ekki skráð sig í ennþá fleiri skoðunarferðir.

Utan við gluggann flýtur feimin kvöldsól. Beltin eru spennt og ég les sniðugan texta um Bæjarins bestu á sætisbakinu þegar flugvélin þýtur áfram, lyftist hærra og hærra, sekkur loks í blóðrautt sólarlagið.