Economics is not about things and tangible material objects; it is about men, their meanings, and actions. Goods, commodities, and wealth and all the other notions of conduct are not elements of nature; they are elements of human meaning and conduct. He who wants to deal with them must not look at the external world; he must search for them in the meaning of acting men.
- Ludwig von Mises
Það sem aðgreinir austurrísku hagfræðina frá öðrum skólum hagfræðinnar er hvernig hún nálgast viðfangsefnið frá sjónarmiði mannlegrar hegðunar, þ.e. hegðun mannsins og þeim ákvörðunum og hagræðingum sem hann tekur þegar hlutir búa yfir sjaldgæfni. Mannleg hegðun (e. Human Action) er íslenskaður titill bókar Ludwig von Mises, sem hann fyrst gaf út 1940 og þá á þýsku, en þessi bók hans er tvímælalaust eitt veigamesta verk hagfræðinnar til þessa.
Fræðimenn hafa lengi viljað greina mannkynið sem einhverskonar heild, eða öllu heldur leitast eftir að setja fólk í einhverskonar fylkingar, líkt og út frá þjóðerni, kynþætti eða trú, og út frá því skilgreint lögmál sem útskýra hegðun og afleiðingar slíkra hópa, líkt og saga þessara hópa búi yfir duldum vitsmunum sem við eigum enn eftir að uppgötva. Hinsvegar hafa austurrísku hagfræðingarnir einbeitt sér að því að greina hvernig einstaklingar ákvarða sínar hagræðingar.
En hvað er mannleg hegðun? Í einföldum skilningi er mannleg hegðun ekkert annað en markviss hegðun, þar sem maðurinn afsalar sér því að fullnægja brennandi hvöt nútíðar, í þeirri von um að ná framtíðar markmiðum sínum. Mannleg hegðun þarf þó ekki alltaf að vera skynsamleg, því skynsemi getur verið afurð óhagkvæmra ákvarðana sem eru þó markvissar, og þar af leiðandi leið til að finna hagkvæmar lausnir. Það er því ekkert sem heitir rétt ákvarðanartaka í fræðilegum skilningi, því allar ákvarðanir byggja á huglægu mati einstaklingsins, sem ekki er einsleitt og ávalt spekúlasjón.
Mises skilgreininr hegðun (e. action) á eftirfarandi máta:
Action is will put into operation and transformed into an agency, it is aiming at ends and goals, is the ego’s meaningful response to stimuli and to the conditions of its environment, is a person’s conscious adjustment to the state of the universe that determines his life.
Murray Rothbard gefur hugtakinu enn nákvæmari skýringu:
Action is purposeful behavior toward the attainment of ends in some future period which will involve the fulfillment of wants otherwise remaining unsatisfied.
Haggreining
Þegar við skiljum að hagfræði snýst um mannlega hegðun, og það hvernig maðurinn tekur ákvarðanir og hagræðir þegar hlutir búa yfir einhverskonar sjaldgæfni, að þá getum við farið að skilgreina betur hagfræðileg hugtök og haggreining verður okkur skýrari. En það sem einkennir einna helst austurríska skólann er að hann byggir sínar kenningar upp á teoríu, en ekki gögnum einum og sér eins og aðrir skólar hagfræðinnar oftast gera.
Þó svo við getum mælt atvinnuleysi, verga landframleiðslu, neyslu, fjárfestingar, og aðrar hagfræðilegar stærðir, þýðir það ekki að orsakasamhengi ríki á milli þessara þátta. Mannleg hegðun er það sem ræður þessum stærðum, og það er engin ástæða að áætla að þær séu eitthvað annað en mælanleg yfirborðskennd fyrirbæri sem eru ótengd orsakaferlinu sem knýr tengslin á milli þeirra. Þetta þýðir þó ekki að gögn og mælingar í okkar hagkerfu séu tilgangslausar, heldur frekar að gögn ein og sér geta ekki sagt neitt til um orsök mælanlegra þátta.
Sem dæmi að þá getum við mælt hversu mikið við seljum af ís á hverjum degi og hversu oft hákarlaárásir eiga sér stað, við getum þá séð út frá gögnum einum og sér að þegar við seljum mikið af ís að þá eru mun meiri líkur á að hákarlaárásir eigi sér stað. Út frá gögnunum einum og sér að þá væri e.t.v. skynsamlegt að hætta að selja ís til að koma í veg fyrir hákarlaárásir. En við vitum þó að það er ekki orsakasamhengi þarna á milli, því þegar selt er meira af ís að þá eru allar líkur á því að það sé sólríkur sumardagur, og að þá er fólk líklegra til að fara á ströndina og þar af leiðandi út í sjó þar sem hákarlarnir synda.
Megindleg greining
Enginn fasti eða stöðluð eining er til sem hægt er að nota til að bera saman og mæla virði þar sem allt virði er huglægt mat. Eignarflokkar hafa misjafnt og síbreytilegt notagildi fyrir sérhvern einstakling og er notagildið háð tímapunktinum sem viðkomandi verðmetur eignarflokkinn, sem og framboðinu á þeirri stundu. Þar af leiðandi er ógerlegt að framkvæma samanburðarhæfar mælingar á notagildi eignarflokka þvert á samfélag mannsins, slíkir útreikningar eru aðeins fræðilegar tilgátur sem byggðar eru á fortíðargögnum og skilyrðum sem aldrei munu endurtaka sig.
Til þess að tilgáta geri orðið að lögmáli þarf að vera hægt að sannreyna hana með vísindalegri aðferð þar sem síendurteknar mælingar og prófanir skila ávallt sömu niðurstöðu. Megindleg greining (e. quantitative analysis) er sú aðferðarfræði í hagfræði sem notar stærðfræðileg og tölfræðileg líkön, sem og mælingar og rannsóknir til að skilja mannlega hegðun og finna orsakasamhengi milli ólíkra þátta. Vandamálið hinsvegar er að ekki er hægt að endurtaka og prófa neinar hagfræðilegar tilgátur því engir fastar eða staðlaðar einingar eru til staðar.
Til þess að mynda fasta og staðlaðar einingar þarf að vera hægt að framkvæma mælingar og nákvæmar rannsóknir sem ávallt skila sömu niðurstöðu, en viðfangsefnið í slíkum prófunum og rannsóknum í hagfræði er mannleg hegðun í raunheiminum. Skilyrði sem byggja á efnahagsákvörðunum í raunheiminum er ekki hægt að endurframkvæma á tilraunarstofu eða í tölvuforritum einfaldlega vegna þess að hagfræðileg fortíðar gögn geta ekki spáð fyrir um atburði í hagkerfi framtíðarinnar.
Hagfræðin er ólík eðlisfræðinni og efnafræðinni að því leiti að þær raungreinar fást við prófanir og tilgátur á efni sem býr ekki yfir rökhugsun eða nokkurskonar huglægum vilja, því hegða þau sér eftir fyrirfram skilgreindum lögmálum náttúrunnar. Sökum þess höfum við getað skilgreint fasta og staðlaðar einingar líkt og sekúndur, metra, kíló, mól eða amper.
Þjóðhagfræði, sem er eitt þekktasta svið nútíma hagfræði, hefur í heila öld leitast eftir að finna mengi af jöfnum sem geta lýst og spáð fyrir um gang hagkerfisins á sama hátt og eðlisfræðingar og efnafræðingar nota jöfnur til að lýsa og spá fyrir um eðli hluta sem ekki búa yfir frjálsum vilja. Þjóðhagfræðingar trúa því ennþá, þó svo að þeim hafi mistekist það í heila öld, að hægt sé að finna mengi af jöfnum sem geta lýst og spáð fyrir um starfsemi hagkerfisins. En eins og við höfum farið yfir hér að ofan að þá eru allar slíkar jöfnur aðeins ósannreynanlegar tilgátur.
Ein vinsælasta og þekktasta kenningin keynísku þjóðhagfræðinnar er að neikvætt orsakasamhengi ríki milli atvinnuleysis og verðbólgu, þ.e. að þegar atvinnuleysi fer upp að þá lækkar verðbólga sökum þess hve mikil eftirspurn myndast eftir störfum og lítið svigrúm því til staðar að sækjast eftir háum launum sem lækkar svo vöruverð, hinsvegar þegar atvinnuleysi er lágt til lengri tíma að þá á það að leiða af sér verðbólgu. Í fyrsta lagi sveiflast þessir tveir þættir ekki alltaf í takt, en ef þeir gera það að þá þarf það ekki að þýða að orsakasamhengi ríki á milli þeirra.
Mannleg hegðun mun alltaf ráða gangi hagkerfisins, það er ekkert sem getur áætlað hana fullkomlega eða breytt henni án frelsissviptingar, það eina sem við getum gert er að leitast eftir að skilja hana betur. Maðurinn mun ávallt leitast við að betrumbæta líf sitt og það er því tilgangslaust að ætlast til þess að nokkur maður vinni verk eða sinni skyldum sem ekki hagnast honum. Það að koma upp lögum og reglum sem hamla eigin hagsmunasemi mannsins breytir ekki náttúrulega eðli hans, heldur dregur úr hvata hanns að fylgja lögum og reglum samfélags síns. Maðurinn byggði upp samfélög sín á samvinnu því það hagnaðist honum fyrst og fremst. Enginn marktækur hagfræðingur getur því mælt með löglegum refsiaðgerðum sem hamla friðsæl viðskipti mannsins, því það fækkar einungis valþáttum hans til að betrumbæta líf sitt og lifa friðsælu lífi.