Nýr dagur

Í morgun fékk ég óvænta en skemmtilega heimsókn.

Þetta var hann Nýr Dagur.

Hann bankaði á svefnherbergishurðina mína og sagði:

,,Sæll, vinur. Hér er kominn Nýr Dagur.”

,,Dagur hver?” hváði ég með stírur í augunum og drauma í hárinu.

Hann opnaði hurðina upp á hálft. Svefnmettað loftið fékk langþráð frelsi.

,,Fyrirgefðu vinur, ég var að hella upp á könnu af ævintýrum og vildi heyra hvort þú værir vaknaður? Það má ekki bjóða þér sopa?”

Jú, takk. Gjarnan.

,,Síðan er ég hér með sólskin í stampi og finnst mér tilefni að við fáum hvor sína sneiðina. Það má ekki bjóða þér?”

Jú, takk. Gjarnan.

,,Ég fann líka krukku af lífsgleði sem ég held að væri fín í skál með kanilsykri. Það má ekki bjóða þér?”

Jú, takk. Gjarnan.

Við horfðum hvor á annan í augnablik á meðan Svefnhöfgi hörfaði aftur undir sængina. Sjálfur reisti ég mig við og sagði:

,,Dagur minn, vinur minn, ég kem fram að vörmu spori.

Ég ætla að stökkva í fötin og hringja eitt símtal.

Ég þarf að bjóða einum vini mínum Góðan daginn.

Síðan kem ég fram”

Nýr Dagur nikkaði til mín góðlátlega og sagði glaðbeittur með tilhlökkun í röddinni:

,,Ókei”

-

Fínt að vakna með hálp Nýs Dags.

Fínn gaur, hann Nýr Dagur.

— -

IV’15

Like what you read? Give Ingi Vífill a round of applause.

From a quick cheer to a standing ovation, clap to show how much you enjoyed this story.