Orðið jöfnuður


Orðið jöfnuður er gildishlaðið orð. Flest ef ekki öll höfum við heyrt þetta orð margoft þá sérstaklega í tengslum við stjórnmál. Frasar eins og ,,Meiri jöfnuð!’’ og ,,Aukinn ójöfnuður’’ eru algengir þá sérstaklega hjá pólitíkusum á vinstri væng stjórnmálanna. En ekki allir eru sammála um hvað orðið þýðir og þykir mér það oft vera hluti af innihaldslausum frösum. Sumir, þó vonandi fáir, túlka orðið ef til vill þannig að allir einstaklingar hafi jafnháar tekjur. Aðrir leggja þá túlkun í það að hver og einn einstaklingur sé jafn að lögum og reglum. Einhverjir vilja túlka það sem svo að það séu takmörk yfir því hvað einstaklingur megi afla sér mikla tekna í samanburði við aðra. Sömu einstaklingar eru oft á þeirri skoðun að gróði eins sé annars manna tap og að það tapi alltaf einhver á viðskiptum. En ég vil túlka orðið á þann veg að allir hafi jöfn tækifæri til þess að njóta lífsgæða.

Mér þykir undarlegt að líta þannig á hlutina að jöfnuður sé mældur í tekjum einstaklinga og að nota frasa eins og að ,,ójöfnuður hafi aukist undanfarna áratugi’’ vegna þess að sumir eigi ákveðið hlutfall af peningum í heiminum. Þrátt fyrir að ,,ójöfnuður’’ hafi aukist undanfarna áratugi eru lífsgæði heildarinnar þó talsvert skárri en fyrir þann tíma. Töluvert minna hlutfall af einstaklingum býr við sárafátækt nú en áður. Fleiri hafa efni á því að kaupa sér hluti og upplifanir sem var ekki sjálfgefið að kaupa fyrir u.þ.b. 50 árum eða svo.

Ég tek hér stutt dæmi:

Einstaklingur ákveður að stofna lyfjaframleiðslufyrirtæki. Á tíu árum hefur fyrirtækið vaxið ört og skapað um 1000 ný störf. Þeir 1000 einstaklingar sem starfa hjá fyrirtækinu eru á hærri launum en þeir voru áður en eigandinn, eða stofnandinn, hirðir mesta gróðann (sem er skiljanlegt í ljósi áhættunar sem fylgir því að stofna fyrirtæki og vegna þeirra verðmæta sem fyrirtækið hefur skapað). Þá hafa 1000 einstaklingar orðið ríkari og njóta þar af leiðandi aukinna lífsgæða, mörgþúsund einstaklinga nýta sér þá mikilvægu þjónustu sem fyrirtækið hefur upp á að bjóða og sá sem stofnaði fyrirtækið nýtur góðs af og er orðinn milljónamæringur. Þarna eru allir að græða, þrátt fyrir að sá sem tók það á sig að fjárfesta í fyrirtækinu hagnist mest. Þetta tel ég ekki ójöfnuð, í þessu dæmi er engan veginn brotið á réttindum annarra manna og enginn tapar.

Ég skil stundum ekki af hverju fólk veltir sér upp úr því að þeir efnameiri verða enn ríkari þó svo að þeir efnaminni verða líka ríkari. Það er sjálfgefið að þeir sem eigi meira á milli handanna eigi auðveldara með að ávaxta sína peninga.

Einfalt dæmi: Þú leggur milljón inn á reikning með 6% ársvöxtum og eftir ár áttu eina milljón og sextíu þúsund krónur. Ef þú leggur 100.000 krónur inn á reikning með sömu vöxtum áttu 106.000 krónur eftir jafnlangan tíma. Þú græðir hlutfallslega jafn mikið í báðum tilvikum.

Það hagnast enginn á því að gera hina ríku fátækari. Það hagnast hins vegar allir á því að gera hinu fátæku ríkari.

One clap, two clap, three clap, forty?

By clapping more or less, you can signal to us which stories really stand out.