Æxli

Verk læknanna hérna urðu að héraðsfréttaefni í vikunni sem er skemmtilegt. Þar sem héraðið, eða héruðin, sem um ræðir telja 75 milljónir manna jafnast fréttaflutningurinn á við fjölmiðlaumfjöllun í Þýskalandi … Indland er svo sannarlega heill heimur út af fyrir sig. Hvað um það, í eina heilsugæslustöð kom kona sem virtist vera komin á steypirinn sem passaði ekki alveg því hún var ekkert ólétt. Eftir rannsóknir kom í ljós að umrædd kona var með 15 kg æxli innvortis sem var fjarlægt á ríkissjúkrahúsinu í þorpsborginni minni. Það er mjög gleðilegt þegar svona áþreifanlegur árangur sést af vera okkar hér verð ég að segja. Nú liggur konan á spítala að jafna sig undir vökulu auga hjúkrunarfræðinga á okkar vegum því að hér er kerfið þannig að ættingjar eða aðrir verða að hugsa um sjúklinga á spítalanum í borginni okkar því hjúkrunarfólk gerir það einungis eftir hentisemi.

Það er freistandi að verða pirraður á slíkri vitleysu og skrifa á almennt kæruleysi en ég hef séð verkefnaskrá fólksins sem vinnur á spítalanum hér og hún er … yfirþyrmandi. Áætlanir fyrir allar aðgerðir fara ca. 70% framyfir þannig að allir vinna á yfirsnúning alls staðar og á aðgerðartöflu hef ég séð:

Aðgerðir____________Áætlun______________________ Rauntölur

__Fæðingar ___________72_________________________ 146

__Botnlangaskurðir ____11__________________________ 32

__Malaríutilfelli _______82 __________________________79

__Beinbrot ____________42 _________________________68

Og svona gengur þetta niður heila töflu. Aftur er auðvelt að spá í hvaða grænmeti það er sem gerir áætlanir sem fara í vaskinn á nákvæmlega sama hátt mánuð eftir mánuð og ár eftir ár. En þetta er opinber spítali og fjármagn þarf að fylgja auknum umsvifum. Það er jafn erfitt að fá á Indlandi og Íslandi. Því er gert ráð fyrir litlum umsvifum, læknar eru ekki endilega hressastir þegar nýir sjúklingar birtast og auka fjármagn er ekkert. Þarna koma ættingjar og aðrir velunnarar inn í kerfið og fylgjast með hvort sjúklingar fái hita, hvort umbúðir séu í lagi og almennt bara hvernig sjúklingum heilsast. Ég verð að segja að það tók smá tíma að venjast tilhugsuninni um þetta kerfi, en spítalinn er hreinn og angar af klórlykt eins og besta sundlaug á Landinu Bláa og aldrei hef ég séð pöddu á vappi innanhúss. Almennt viðhald er ekkert en það má mögulega segja að forgangsröðunin sé rétt. Alvarlega veikir sjúklingar fá meðhöndlun en ekki endilega umönnun, mat fá helst einungis þeir sem fá hvergi mat annars staðar, viðhald er ekkert en hreinlæti er gott.

Þið eruð kannski að spá í hvað ég sé að rölta um á spítölum hér, en stundum þarf að sannfæra lækna um að tilfelli frá okkur sé eitthvað sem þarf helst að meðhöndla og það með hraði. Þá er stjörnustaða mín notuð, en stöðuna fékk ég með því að vera langhæsta hvíta manneskjan í héraðinu. Því er mér stundum dröslað með þegar læknar á okkar vegum reyna að sjarma sjúklinga í aðgerðir á spítalanum. Ég er semsagt hreyfanlegur skrautmunur. Núna síðast var verkefnið fólgið í því að gera lokatilraun til að koma 15 sjúklingum með kviðslit í aðgerðir hér, en annars þurfum við að senda þá um langan veg í aðgerð. Kviðslit eru hvorki spennandi aðgerðir læknisfræðilega né aðkallandi og því hafa þær safnast saman. En einhvern tímann þarf að græja þetta. Hvort sem það var af því að ég brosti svo fallega eða af því að spítalamenn voru ánægðir með athyglina sem æxlið fékk veit ég ekki alveg, en svo virðist sem eigi að ráðast á kviðslitin okkar í næstu viku. En næsta vika samkvæmt indversku tímatali er svo teygjanlegt hugtak að Vigdísi okkar Hauks þætti jafnvel nóg um. En sjáum hvað setur.

Svona líða dagarnir mínir.

Like what you read? Give Jón Eggert Víðisson a round of applause.

From a quick cheer to a standing ovation, clap to show how much you enjoyed this story.