Kvikmyndir

Skemmtileg hefð hefur myndast í sendifulltrúahreiðrinu, en hún er sú að horfa á indverska mynd annað helgarkvöldið. Mynd í eintölu því indverskar myndir eru alveg hræðilega langar! Ég var alveg tilbúinn til þess að fá astmakast af hlátri yfir hallærislegheitum yfir Bollywoodframleiðslu … en þetta er bara ágætis sjónvarp! Vissulega öðruvísi svo ekki sé fastar að orði kveðið, en hann Aamir Khan, einn helsti spaði indverskra bíóhúsa er orðinn vinur minn. Ég mæli með myndum eins og Lagaan þar sem hann leikur hetju, og PK þar sem hann leikur geimveru. Ég er semsé staddur í landi þar sem lítil menning er fyrir því að horfa á Hollywood, það er til að mynda kvikmyndahús hérna í borginni en það sýnir eingöngu indverskar myndir. Bollywood myndir og svo í bland heimaframleiðslu, en hér í suðrinu er líka öflug bíóframleiðsla sem er nefnt „Tollywood“. Hér er meira að segja stærsta kvikmyndaver í heimi í næsta nágrenni. Tungumál Tollywood myndanna er Telugu og ég var byrjaður að vorkenna þessum málnotendum óskaplega, fyrir að vera einungis sjö prósent af indversku þjóðinni og ætlaði aldeilis að styrkja telugískan kvikmyndaiðnað. Svo fór ég að reikna. 7% af indversku þjóðinni eru rúmlega áttatíu milljónir! Þeir þurfa ekkert sérstakan stuðning, enda eru stjörnur Tollywood ríkar og fylla nokkur slúðurtímarit og búa í höllum í Chennai og Hyderabad á meðan Bollywoodstjörnurnar fylla ríkramannahverfin í Mumbai. Það er óneitanlega nokkuð sérstakt að hér skuli búa um 1500 milljónir á Indlandi og næstu nágrannalöndum sem eiga sér svona ofboðslega stóran bíómyndaiðnað og sitt eigið fræga fólk sem eru súperstjörnur … og við höfum aldrei heyrt um það. Hvað um það, ég mæli með Aamir Khan vini mínum.

One clap, two clap, three clap, forty?

By clapping more or less, you can signal to us which stories really stand out.