Rósagarður

Vonandi var síðasti pistill ekki of mikið, en ég ákvað að sveipa ekkert lífið hér í rósrauðan bjarma heldur segja eins og hægt er rétt og satt frá. En þegar komið var vel á annan mánuðinn hérna gaf ég mér tíma til að líta til baka og undrast um hvernig tíminn eiginlega týndist því mér fannst ég hafa komið hingað deginum áður.

Vissulega er Miðafríkulýðveldið öðruvísi en Ísland en hér má vel finna sjarma yfir ýmsu. Ég hætti svo að standa á öndinni af undrun yfir öllu hér eftir að ég komst að því að MAL var í 188. sæti af 188 mögulegum á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2015. Það setti hlutina í annað samhengi fyrir mig og virkaði sem ágætis útskýring eða afsökun fyrir því að í höfuðborginni má einungis finna tvær malbikaðar götur á meðan restin er gerð úr þessari týpísku rauðu drullumöl sem alltaf sést í bíómyndum sem eiga að gerast í Afríku. Einnig, eftir þessa uppgötvun, ákvað ég að brjóta heit sem ég gaf mér áður en ég fór, en það var varðandi það að ég ætlaði alltaf að kvarta yfir því sem mér fyndist tilefni til kvörtunar án þess að vera eitthvað að afsaka það eða bera saman við lífskjör innfæddra. Þannig til dæmis gat ég hreinlega grenjað úr fýlu á Indlandi yfir ömurlegri nettengingu og orðið geðbilaður á því að sturtan virkaði ekki þrátt fyrir að ég væri orðinn málkunngur fólkinu sem átti heima í götukantinum á næstu götu sem átti ekki einu sinni skó. En hérna hreinlega get ég ekki kvartað yfir kaldri sturtu eða rafmagnsleysi hluta úr degi þegar meirihlutinn af höfuðborgarbúum hefur hvorki rennandi vatn né rafmagn — nokkurn tímann.

Ég held að mögulega liggi munurinn í því að á Indlandi var stór hluti fólks sem hafði það tiltölulega ágætt og lítill minnihluti sem var svo ríkur að Björgúlfur Thór liti út eins og Ólíver Tvist í partýi hjá því fólki. Við vorum svo að sinna restinni sem átti ekkert. Hérna virðist fyrri tvö stigin ekki vera til staðar. Ég get ekki séð að hér þrífist einn einasti vísir að millistétt og ríka fólkið virðist hirða rentur af sínum eignum í Miðafríkulýðveldinu og lifir sínu lífi í öruggri fjarlægð frá landinu. Þessu sem ég er að segja ber að taka með varúð því öryggisstigið hér er svo hátt að ég hef lítil sem engin tækifæri til að skoða borgina nema í gegnum bílrúðu og samskipti við innfædda eru í skötulíki.

Áskoranirnar á fæðingarspítalanum eru miklar. Hérna er ég að sjá og upplifa á eigin skinni hvernig spekileki getur farið með lönd og borgir. Þeir einstaklingar sem mennta sig nota menntunina sem farmiða til betra lífs í löndunum í kring. Því er hvatinn fyrir stjórnvöld ekki mikill til að halda úti háskólum en mér er sagt að finna megi einn háskóla fyrir þessa fimm milljóna þjóð, og hann er lítill og ófullkominn. Vegna þessa vantar tilfinnanlega hæft og menntað fólk í heilbrigðiskerfið ásamt því að það hreinlega vantar heilbrigðiskerfi á stórum svæðum og í vissum greinum lækninga er tölfræðin svo fjarstæðukennd að hún er fyndin. Í höfuðborginni með sína milljón íbúa starfa tveir augnlæknar og ég hef lúmskan grun um að höfuðborgin eigi að þjóna landinu í þessum efnum … Þeir sem fá krabbamein hér deyja. Svoleiðis er það bara því það er ekki einu sinni vísir að krabbameinsdeildum í landinu. Það er vandamál sem hreinlega verður að bíða betri tíma. Hjá okkur eru öll rúmin upptekin, alltaf, og oft er það svo að tvær konur deila rúmi. Vissulega ættum við að hætta að taka inn sjúklinga og vísa annað þegar sjúkrahúsið er fullt, en það er bara ekkert „annað“ í boði þannig að allir fá inngöngu. Vandamálin eru af gerðum sem ég hef aldrei heyrt um áður og fyrstu dagana var ég með krónískan undrunarsvip á andlitinu. Vegna alls þessa skammast ég mín í hvert sinn sem ég pirrast á vatnsleysi eða rafmagnsskömmtun. Ég hef það svo ótrúlega miklu betra en ALLIR í landinu nema mögulega valdhafar, en þó er ég ekki viss.

Allt er þetta samt að venjast og ég bý núna í höfuðborg í frönsku Afríku sem þýðir að hér er Boulangerie sem selur baguette og pain au chocolat. Það er í alvörunni indælt að setjast þangað inn á sunnudagseftirmiðdögum og borgin státar af nokkrum alveg hreint prýðilegum veitingastöðum. Eftir að rykið hefur sest aðeins þá sé ég að vissulega er starfið ein risastór áskorun og búsetan hérna sömuleiðis. En eins og Stella Löve stórvinkona mín sagði einu sinni eftirminnilega; vandamál eru til að takast á við þau. Og það svosem var enginn sem lofaði mér rósagarði áður en ég fór …

One clap, two clap, three clap, forty?

By clapping more or less, you can signal to us which stories really stand out.