Sjúklingar

Í einu þorpinu er ungabarn reglulegur sjúklingur ásamt móður sinni. Það er svo illa vannært að það er á rauðu svæði á mælitækinu sem hjúkkurnar nota til að mæla slíkt. Í margar vikur núna hefur verið reynt að kenna móður þess betri aðferðir til umönnunar á litla guttanum og hún fær í hverri heimsókn vikuskammt af einhverju efni sem inniheldur öll nauðsynleg næringarefni sem hún á að gefa. En ekkert gengur og móðirin angar af áfengi í hvert sinn sem hún kemur inn með sinn tíu mánaða son og gefur ömurlegar skýringar á hvers vegna engin framför hefur orðið. Skýringarnar eru jafn ótrúlegar og að ef hún gefur syninum að borða þá kúkar hann, sem kemur sér illa þegar hún vinnur á ökrunum. Aumingja litli guttinn er eins og fiskur og er til í að grípa hvað sem er með vörunum til að athuga hvort þar leynist næring. Ættmóðirin, amman, er engin hjálp þar sem hún er jafn oft full og dóttirin. Þetta er mjög sérkennilegt ástand í landi þar sem kvennadrykkja er litin svo miklu hornauga að m.a.s. sendifulltrúarnir hérna af kvenkyni fá ekki afgreiðslu í vínbúðum, og þarna erum við að tala um fólk í afskekktu þorpi sem notar ekki fé dags daglega. En fyllibyttan finnur sér víst alltaf leiðina að sínu áfengi, það er jafn mikill sannleikur á Indlandi og Íslandi. Við erum einungis að reka ókeypis heilsugæslu fyrir fátækt fólk og höfum ekkert leyfi til að skerast í leikinn og hér eru engin félagsmálayfirvöld til að grípa inn í. Algjörlega ömurlegt ástand og það eina sem hægt er að gera er að krossa fingur og vona að móðirin komi á vikufresti með ungann sinn og reyna að tryggja að hann fái einhverja næringu.

Í gær á heimleið stönsuðum við svo við kofa þar sem við vissum að sjúklingur biði. Þegar inn fyrir gerðið í kringum kofann var komið var okkur vísað í enn minni kofa sem virðist vera notaður sem eldhús. Þar lá sjúklingurinn á einhvers konar bedda án dýnu með einhverja dulu yfir sig og var svo máttfarinn að hann gat ekki talað. Læknir og hjúkrunarkona skoðuðu hann vel en það var ekkert sem hægt var að gera fyrir hann. Þannig að við héldum upp í bílana og ókum heim á leið.

Það var víst enginn sem lofaði mér rósagarði hérna.

Like what you read? Give Jón Eggert Víðisson a round of applause.

From a quick cheer to a standing ovation, clap to show how much you enjoyed this story.