Stórmarkaður

Hér í fásinninu er ekki mikið við að vera fyrir sendifulltrúana fyrir utan vinnu, það verður að segjast. Mér verður stundum hugsað norður í Ljósavatnsskarð en þar dvaldi ég í þrjú sumur. Í skarðinu eru eitthvað um sautján íbúðarhús og þrír sumarbústaðir en samt sem áður var meira við að vera og gera vegna áveðinna öryggisráðstafana sem við þurfum að gangast undir hér suðurfrá. Nema hvað. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi og skipulagning hefst aðeins fyrr en kortér í brottför. Þannig tókst okkur til dæmis að redda bíl og bílstjóra í ökuferð einn sunnudaginn. Ætlunin var að heimsækja stórmarkað sem við höfðum heyrt af í nágrannabæ. Svo virtist sem þessi stórmarkaður væri þekktur, a.m.k. gátum við fundið bílstjóra sem var til í klukkutíma ökuferð í þennan stórmarkað. Á leiðinni bjuggum við okkur undir hálfgerð vonbrigði, kannski var það sem kallast stórmarkaður einungis búð af aðeins stærri gerð en við erum vön úr okkar nánasta umhverfi. En viti menn! Á leiðarenda beið okkar loftkældur stórmarkaður eins og við þekkjum úr Evrópu, svipaður að stærð og matvörudeildin í Einarsbúð þegar ég var að alast upp, hreinn og með einkennisklæddu búðarfólki sem opnaði fyrir okkur dyrnar þegar við komum. Þetta var hvílíkt upplifelsi og svo ótrúlega gaman að finna svona stórmarkað sem stóð að mestu leyti undir væntingum. Við drifum okkur í þurrvörudeildina og keyptum pasta, fyrsta pastað sem við höfum séð til sölu síðan lent var á Indlandi. Maturinn hér er mjög góður, það vantar ekki, en það er nú engin dauðasök þó að við kryddum lífið aðeins og fáum okkur ítalskan mat kvöld og kvöld í staðinn fyrir indverskan mat … sem hér kallast bara matur.

En, eftir að hafa ráfað þarna um í rúman hálftíma var mesta nýjabrumið farið af og við uppgötvuðum að okkur vantaði í raun ekkert þarna — nema pastað. Það var óneitanlega dáldið sérstakt eftir þriggja vikna törn af götumörkuðum og búðum sem láta Binnubúð líta út fyrir Hagkaup af stærri gerðinni, að gera þessa uppgötvun. Markaðurinn og litlu búðarholurnar heima í sveitaborginni okkar sem alltaf þarf að skoða síðasta söludag og hvort að vörurnar séu ennþá innsiglaðar, voru í rauninni allt sem við þurftum. Þannig að við snérum bara heim á leið með þessa vitneskju í farteskinu. Það er ákveðið frelsi fólgið í því að uppgötva að stórmarkaður er gerviþörf. Seinna sama dag fór ég út að hlaupa og æddi í gegnum umferðarþyngstu gatnamótin í sveitaborginni minni með „I will survive“ í teknóútgáfu blastaða í botni í eyrunum og hló við vegna þess hversu viðeigandi það var. Nokkur hundruð metrum seinna var ég stoppaður af hressum unglingahóp sem vildi endilega fá fullt af myndum af sér með þessum skrítna hlaupandi appelsíngulklædda hvítingja. Það var auðsótt mál enda átti ég leyndan draum um módelstörf á mínum sokkabandsárum sem aldrei varð að veruleika. Þegar myndatökunum lauk tók við teknóútgáfan af „Beautiful life“ með Ace of Base í ipodinum mínum og svei mér þá ef ég er ekki bara sammála.

P.S. Ég veit, ég VEIT, tónlistarsmekkurinn gefur ákveðna vísbendingu um kynhneigðina, en á góðri íslensku, só what? Sue me.

rts.erro 38[>��

Like what you read? Give Jón Eggert Víðisson a round of applause.

From a quick cheer to a standing ovation, clap to show how much you enjoyed this story.