Svindl og stolið rafmagn

Eitt af því sem heillar mig mjög við þennan heim sem myndar Indland er hversu teygjanlegt hugtak heiðarleiki er hérna. Ég lærði það fljótt á skrifstofunni þegar ég skammaðist yfir að einhver hafi svindlað á mér að undrunarsvipurinn á aðstoðarmönnunum mínum trygglyndu var ósvikinn. Það var ég sem var fíflið sem lét plata mig. Aðstoðarmennirnir voru ekki tilbúnir til að dæma svindlarana mjög hart, en bentu mér góðlátlega á það eins og stétt þeirra og staða leyfa, að mögulega ætti ég ekkert að láta plata mig … sem er rétt hjá þeim. Að sjálfsögðu á maður að hafa augun hjá sér og upp að vissu marki að nýta sér það sem er í boði. Sem dæmi má nefna að ég spila badminton mjög reglulega á badmintonvelli hérna í nágrenninu við innlenda stráka. Eitt sinn er myrkur færðist yfir tóku tveir strákar sig til og hlupu með forláta T-laga prik og festu það upp í næstu rafmagnsvírum. Og sjá, völlurinn varð allt í einu flóðlýstur með stolnu rafmagni. Ég hef aldrei spilað betur heldur en þarna með indverskum götustrákum við stolið ljós.

Stundum tekur þetta þó á taugarnar, eins og til dæmis í biðröðum. Hér gildir að troða sér eins þétt upp við næsta mann og mögulegt er, en flestar raðir eru kynjaskiptar. Ég geri það hreint ekkert alltaf því ég kann bara ekki við það. En, um daginn í bankanum þegar ég gleymdi mér um stund við að skoða mannlífið þá smokruðu sér ekki færri en tveir indverskir strumpar sér á milli mín og næsta manns. Ég reyndi að hundskammast yfir þessum ósóma við þá, en þeir ráku bara upp stór, hvít, sakleysisleg augu í andlitum þeirra sem þykjast ekkert skilja, og snéru sér svo við. Mér fannst það of sexáralegt eitthvað að veifa í hermann á vakt og klaga þannig að ég hugsaði þeim þegjandi þörfina án frekari aðgerða. Það versta var að þeim var hreint skítsama um mínar hugsanir og voru bara allt í einu komnir á undan mér í röðinni. En svona er Indland og því þarf að venjast og passa sig bara.

Z�

One clap, two clap, three clap, forty?

By clapping more or less, you can signal to us which stories really stand out.