Uppstillling með hauskúpu og fjaðrarpenna , 1628 Pieter Claesz (hollenskur, 1596/97–1660)

konar kyns

Ég hef verið að reyna að leggja á minnið hvenær tengja eigi orð saman. Orð eins og allskonar og einhverskonar. Í réttritunarbók Ragnheiðar Briem stendur: “Rétt er að rita í tveimur orðum orðasambönd þar sem eftirtalin orð eru annar liðurinn (oftast hinn síðari):

háttur, konar, kostur, kyn, megin, sinn, staður, tími, vegna, vegur.”

Síðan kemur hún með tvær minnisvísur. Þessi er önnur:

Tvö orð skrifa, maður minn,
mun þér kenna þessi ríma:
Megin, kostar, konar, sinn,
kyns og vegar, staðar, tíma.

Í vísuna vantar hátt og vegna. Svo koma dæmi:

lítils háttar, hvers konar, alls kostar, margs kyns, þeim megin, einhverju sinni, annars staðar, nokkurn tíma, þess vegna, hins vegar.

Ef ég gúggla hvers vegna kemur í ljós að dagblöð á Íslandi hafa þetta auðvitað í tveim orðum og eins Wikiorðabókin. En ef ég gúggla það samtengt er mér boðið að leita í tveim orðum og leitarniðurstöðurnar koma í þeim anda. Orðasambandið þess vegna fann ég í Witionary. Þar er fyndið dæmi:

Málverk eftir Henriette Browne (1829 — 1901)

“þess vegna

  1. thus, therefore, ergo

Þú drapst köttinn minn, þess vegna líkar mér illa við þig.

You killed my cat, therefore I dislike you.”

Wikiorðabókin íslenska segir orðasambandið þess vegna vera atviksorð og þýði af þeirri ástæðu. Undir hvers vegna er vitnað í Alkemistann eftir Paulo Coelho!

“„[…] hvorki eyðimerkurnar, né vindarnir, né heldur sólirnar, og ekki heldur mennirnir vita hvers vegna þeir hafi verið skaptir.“ (Alkemistinn, Paulo Coelho: [ bls. 169 ])”

En svo ég haldi áfram með réttritunarbók Ragnheiðar. Hún bætir við að ekki sé rangt að skrifa sum þessara orðasambanda í einu orði en málið gæti þá vandast fyrir sumum.

“Sé það gert, þarf að læra hver þau eru og hvort úr þeim þarf að sleppa stöfum (ýmist einum, tveimur eða engum). Þær reglur eru mun flóknari en að læra þessi tíu orð.”

Þau orð sem geta orðið eitt, eru öll sem enda á konar og kyns, sum sem enda á megin og tvö sem enda á staðar. Dæmi:

allskonar, einskonar, einhverskonar, hverskonar, margskonar, nokkurskonar, samskonar, tvennskonar, ýmisskonar; allskyns, hverskyns, margskyns, þesskyns o.s.frv.

Mín máltilfinning segir mér að réttara sé að hafa flest þessara orða samhangandi. En það er líklega rétt hjá Ragnheiði að betra sé að læra þetta í tveim orðum.

(Ég rendi þessu í gegnum stafsetningarleiðréttingarforritið Púka á blog.is.

Orðabókarsmiðurinn Samuel Johnson eftir Joshua Reynolds

Mér var þar boðið að leiðrétta ýmisskonar, sleppa öðru essinu og skrifa ýmiskonar. Hjá Ragnheiði er bent á að skrifað sé í tveim orðum ýmiss konar. Málfarsbanki Árnastofnunar segir þetta: “Annaðhvort er ritað ýmiss konar eða ýmisskonar (síður ýmiskonar), frekar er þó mælt með því að rita tvö orð.” Íslensk orðabók Forlagsins, 2010, hefur öll þrjú tilbrigðin en gerir enga athugasemd við ýmiskonar, segir orðasambandið L (lýsingarorð), ÓB (óbeyjanlegt, án beygingarmynda), og þýða margvíslegur, af mörgu tagi.)

One clap, two clap, three clap, forty?

By clapping more or less, you can signal to us which stories really stand out.