Kórónuveiran: Hamarinn og dansinn

Hvernig næstu 18 mánuðir gæti orðið, ef leiðtogar okkar kaupa tíma

Jói Sigurðsson
Tomas Pueyo
31 min readMar 21, 2020

--

Þetta er íslensk þýðing á greininni Coronavirus: The Hammer and the Dance eftir Thomas Pueyo og stóran hóp samstarfsaðila hans. Ég er ekki sérfræðingur í þýðingum og einbeitti mér meira að hraða heldur en gæðum í því að snara þessu yfir á íslensku til að efni greinarinnar gæti betur komist að í umræðunni hér heima.

Mikilvægt er að athuga að ég staðfærði engar tölur eða slíkt til að eiga við um örþjóð eins og Ísland; þetta er allt bein þýðing úr ensku yfir á íslensku án staðfærslu.

Þessi grein er framhald af Coronavirus: Why You Must Act Now, grein með yfir 40 milljón áhorf sem þýdd v ar á yfir 30 tungumál og lýsir því hversu áríðandi er að tækla Kórónuveiruna. Upprunalega enska útgáfan er hér og hlekkir á þýðingar yfir á fleiri tungumál eru neðst.

Samantekt á greininni: Sterk viðbrögð við kórónaveirunni í dag ætti bara að vera þörf á í nokkrar vikur, það ætti ekki að vera stór kúfur af smitum eftir það, og þetta er allt hægt fyrir ekki alltof mikinn kostnað fyrir þjóðfélagið, og við björgum milljónum mannslífa í leiðinni. Ef við förum ekki þessa leið munu tugir milljóna sýkjast, margir munu deyja, eins margir aðrir sem þurfa á gjörgæslu að halda, því heilbrigðiskerfið verður hrunið.

Á innan við viku hafa lönd um allan heim farið frá því að setja “þessi kórónuveira er ekki mikið mál” yfir í að lýsa yfir neyðarástandi. En samt eru mörg lönd enn ekki að grípa til mikilla ráðstafana. Hvers vegna?

Öll lönd spyrja sig sömu spurningar: Hvernig ættum við að bregðast við? Svarið er þeim ekki augljóst.

Sum lönd, eins og Frakkland, Spánn og Filippseyjar, hafa þegar fyrirskipað að skella í lás. Önnur, eins og Bandaríkin, Bretland, Sviss og Holland, hafa dregið lappirnar og stigið hikandi skref í átt að aukinni félagslegri fjarlægð (e. social distancing).

Hér er það sem við ætlum að fara yfir í dag, aftur með fullt af myndritum, gögnum og líkönum auk heimilda:

  1. Hver er núverandi staða?
  2. Hvaða valmöguleika höfum við?
  3. Hvað er það eina sem skiptir mestu máli núna: Tími
  4. Hvernig lítur góð strategía gagnvart kórónuveirunni út?
  5. Hvernig eigum við að hugsa um efnahagsleg og félagsleg áhrif?

Þegar þú ert búin(n) að lesa þessa grein, þá muntu sjá að:

Heilsugæslukerfi okkar eru þegar komin yfir þolmörk.
Lönd hafa tvo valkosti: að berjast hart móti vírusnum núna, eða lenda í hrikalegum faraldri.
Ef þau velja faraldurinn munu hundruðir þúsunda deyja. Í sumum löndum munu milljónir deyja.
Og það kemur ekki endilega í veg fyrir fleiri bylgjur af smitum.
Ef við berjumst harkalega núna þá getum við snarfækkað dauðsföllum.
Við munum létta á heilbrigðiskerfum okkar.
Við munum undirbúa okkur betur.
Við munum læra.
Heimurinn hefur aldrei áður lært jafn hratt um neitt.
Og við þurfum á því að halda, því við vitum svo lítið um þennan vírus.
Allt þetta mun áorka eitt afar mikilvægt: Að kaupa okkur tíma.

Ef við veljum að berjast hart á móti vírusnum, verður baráttan snögg og síðan smátt og smátt.
Við læsumst inni í vikur, ekki mánuði.
Síðan fáum við meira og meira af frelsi okkar til baka.
Hlutirnir fara kannski ekki í fyrra horf strax.
En næstum því, og að lokum verður allt venjulegt.
Og við getum gert þetta allt og haft hagkerfið í huga líka.

Ókei, gerum þetta.

1. Hver er staðan?

Í síðustu viku sýndi ég þessa kúrfu:

Hún sýndi tilfelli kórónaveiru um allan heim fyrir utan Kína. Einu línurnar sem hægt var að greina voru Ítalía, Íran og Suður-Kórea. Þannig að ég þurfti að þysja inn á neðsta hlutann til hægri til að sjá löndin sem væri að koma fljótt á eftir. Aðal punkturinn minn var að þau myndu bráðum fylgja eftir þessum þremur fyrstu.

Skoðum hvað hefur gerst síðan.

Eins og spáð var, hefur fjöldi tilfella sprungið í tugum landa. Hér sýndi ég aðeins lönd með yfir 1.000 tilfelli. Nokkrir hlutir til athugunar:

  • Spánn, Þýskaland, Frakkland og Bandaríkin eru öll með fleiri tilfelli en Ítalía þegar ítalar skelltu í lás
  • 16 lönd í viðbót hafa fleiri tilfelli í dag en Hubei hafði þegar þar var skellt í lás: Japan, Malasía, Kanada, Portúgal, Ástralía, Tékkland, Brasilía og Qater eru með fleiri tilfelli en Hubei en samt undir 1.000 tilfellum. Sviss, Svíþjóð, Noregur, Austurríki, Belgía, Holland og Danmörk eru öll yfir 1.000 tilfellum.

Tekurðu eftir einhverju skrítnu við þennan lista af löndum? Fyrir utan Kína og Íran, sem lentu í mjög stórum bylgjum smita sem engin leið var að hunsa, og Brasilíu og Malasíu, eru öll hin löndin á listanum á meðal þeirra ríkustu í heimi.

Heldurðu að vírusinn leggist bara á rík lönd? Eða er líklegra að rík lönd eigi betur með að prófa fyrir vírusnum?

Það er ólíklegt að fátækari lönd séu ósnert. Það er líklegt að heitt og rakt veður hjálpi, en það kemur ekki í veg fyrir bylgju smita af sjálfu sér — annars væru ekki slíkar í gangi í Singapore, Malasíu og Brasilíu.

Líklegustu útskýringarnar eru að kórónaveiran hafi annaðhvort tekið lengri tíma til að koma til þessara landa því þau eru minna tengd við umheiminn, eða að hún sé þegar í löndunum en þau hafi ekki getað fjárfest í nógu miklum prófunum til að vita það.

Hvort heldur sem er, ef önnur þessara útskýringa er rétt, þýðir það að fæst lönd sleppa við kórónuveiruna. Það er bara spurning um tíma hvenær þau lenda í bylgju smita og verða að grípa til að gerða.

Til hvaða aðgerða geta lönd gripið?

2. Hvaða valmöguleika höfum við?

Síðan í greininni í síðustu viku hefur samtalið breyst mikið og mörg lönd hafa gripið til aðgerða. Hér eru nokkur af bestu dæmunum:

Aðgerðir á Spáni og í Frakklandi

Á öðrum enda viðbragðaskalans eru Spánn og Frakkland. Hér tímalína aðgerða á Spáni:

Fimmtudaginn 12. mars gerði forsetinn lítið úr því þegar stungið var uppá að spænsk yfirvöld hefði vanáætlað heilbrigðisvandann.
Á föstudeginum lýstu yfirvöld yfir neyðarástandi.
Á laugardegi fóru í gang eftirtaldar aðgerðir:

  • Fólk má ekki fara að heiman nema af örfáum ástæðum: matvörur, vinna, apótek, spítali, banki eða tryggingastofnun (þarf sterka ástæðu)
  • Sérstaklega var bannað að fara með börn út í göngutúr eða að hitta vini og vandamenn (nema til að sjá um fólk sem þarf á hjálp að halda, en þá með hreinlætisreglur og reglur um fjarlægð í gildi)
  • Öllum börum og veitingahúsum lokað. Aðeins hægt að taka mat með heim.
  • Allar skemmtanir loka/hætta: Íþróttir, bíó, söfn, skemmtanir á vegum bæjrfélaga…
  • Engir gestir leyfðir í giftingum. Jarðarfarir takmarkaðar við örfáa aðstandendur.
  • Almenningssamgöngur áfram í gangi

Á mánudeginum var landamærum lokað fyrir landsamgöngum.

Sumt fólk álítur þetta frábæran lista af aðgerðum. Aðrir veifa höndum og hrópa um örþrifaráð. Þessi grein reynir að útskýra þennan skoðanamun.

Tímalína og aðgerðir Frakka er svipuð, nema þeir tóku lengri tíma í að útfæra ráðstöfanirnar og eru enn harðari núna. Til dæmis hafa þeir sett leigu, skatta og veitur á ís fyrir lítil fyrirtæki.

Aðgerðir í Bandaríkjunum og Bretlandi

Bandaríkin og Bretland, eins og lönd á borð við Sviss og Holland, hafa dregið lappirnar í því að grípa til aðgerða. Hér er tímalínan fyrir Bandaríkin:

  • Miðvikudagurinn 11. mars: ferðabann.
  • Föstudagur: Neyðarástandi lýst yfir. Ekki gripið til aukinnar félagslegrar fjarlægðar (e. social distancing).
  • Mánudagur: Yfirvöld hvetja almenning til að forðast veitingastaði og bari og atburði þar sem fleiri en 10 manns koma saman. Ekki reynt að framfylgja aukinni félagslegri fjarlægð, bara stungið uppá henni.

Mörg fylki og margar borgir taka frumkvæði og gera kröfu um mun harðari aðgerðir.

Í Bretlandi hafa svipaðar aðgerðir verið: Mikið af uppástungum en ekki tilmæli sem er framfylgt.

Þessir tveir hópar af löndum sýna vel tvær mismunandi leiðir til að berjast gegn kórónuveirunni: Að draga úr skaða, og að bæla hana niður. Skoðum betur hvað þeta þýðir.

Valmöguleiki 1: Að gera ekkert

Áður en við skoðum það skulum við gá hvað það myndi þýða fyrir land eins og Bandaríkin að gera ekkert:

Þessi frábæra faraldursreiknivél getur hjálpað þér að skilja hvað myndi gerast miðað við mismunandi forsendur. Ég setti fyrir neðan grafið lykilforsendur sem hafa áhrif á hvernig vírusinn hegðar sér. Það er vert að athuga að fjöldi smitaðra, bleiku súlurnar, nær hæst upp í tugi milljóna á ákveðnum degi. Flestar breytur eru í sjálfgefinni stöðu. Mikilverðustu breytingarnar eru að breyta R úr 2,2 í 2,4 (sem passar betur við þær upplýsingar sem nú eru til, sjá neðst í reiknivélinni), dánartíðni (4% vegna hruns heilbrigðiskerfisins, sjá nánar hér að neðan eða í fyrri grein), lengd spítaladvalar (lækkuð úr 20 í 10 daga) og tíðni þess að þurfa á spítala (lækkuð úr 20% í 14% miðað við alvarleg- og bráðatilfelli. Athugið að WHO bendir til 20% tíðni) allt byggt á þeim rannsóknum sem búið er að taka saman nú nýlega. Athugið að þessar tölur breyta niðurstöðunum ekki mikið. Eina breytan sem skiptir verulegu máli er dánartíðnin. Þýðingar á texta á grafi: Bleikur texti: “Fjöldi sýktra.” Ljósblár texti: “Heildarfjöldi látinna: >10.000.000”

Ef við gerum ekkert: Allir sýkjast, sem yfirþyrmir heilbrigðiskerfið, dánartíðni hækkar gríðarlega, og ~10 milljón manns deyja (bláu súlurnar). Útreikningur aftan á umslagi væri þannig að ef ~75% ameríkana sýkjast og 4% deyja þá eru það 10 milljón dauðsföll, eða um 25 sinnum fjöldi látinna bandarískra þegna í seinni heimsstyrjöldinni.

Þú spyrð þig kannski: “Það hljómar eins og mjög mikið. Ég hef heyrt mikið lægri tölur!”

Hvað er málið? Það er auðvelt að ruglast þegar allar þessar tölur eru í gangi. En það eru bara tvær tölur sem skipta máli: Hvaða hlutfall fólks smitast og verður lasið, og hvaða hlutfall þar af deyr. Ef aðeins 25% eru veikir (því aðrir eru með veiruna en sýna ekki einkenni og teljast því sekki sem tilfelli), og dánartíðnin er 0,6% í staðinn fyrir 4%, þá yrðu 500 þúsund dauðsföll í Bandaríkjunum.

Ef við gerum ekkert þá mun fjöldi dauðsfalla vegna kórónaveirunnar líklega enda milli þessara tveggja talna. Þetta stóra bil milli talna fer fyrst og fremst eftir dánartíðni, svo það er mikilvægt að skilja hana betur. Hvað veldur dauðsföllum þegar um kórónuveiruna er að ræða?

Hvernig eigum við að hugsa um dánartíðnina?

Hér er sama graf og áður, en nú skoðum við fjölda þeirra sem þurfa á spítalavist að halda, í staðinn fyrir fjölda sýktra og dána:

Þýðingar á texta á grafi: Rauður texti: “Bilið milli x-ássins og rauðu brotalínunnar er hversu mörg pláss eru á gjörgæslu í heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna.” Ljósblár texti: “Fjöldi þeirra sem þurfa á spítaladvöl að halda.” Dökkblár texti: “Fjöldi þeirra sem þurfa á vist á gjörgæslu að halda.”

Ljósbláu súlurnar eru fjöldi þeirra sem þyrftu að fara á spítala, og dökkbláa svæðið er fjöldi þeirra sem þyrftu á vist á gjörgæslu að halda. Þú getur séð að sú tala færi hæst upp fyrir 3 milljónir.

Berum þetta núna saman við fjölda plássa á gjörgæslu sem eru í Bandaríkjunum (50 þúsund í dag en væri hægt að tvöfalda með að nýta annað pláss). Það er rauða brotalínan.

Nei, þetta er ekki villa.

Þessi rauða brotalína er heildarpláss sem við höfum fyrir gjörgæslusjúklinga. Allir fyrir ofan þá línu væru í bráðaástandi en kæmust ekki að á gjörgæslu eins og þeir þyrftu, og myndu líklega deyja.

Í staðinn fyrir að skoða pláss í gjörgæslu er líka hægt að skoða fjölda öndunarvéla, en niðurstaðan er nokkurnvegin sú sama, þar sem það eru færri en 100 þúsund öndunarvélar í Bandaríkjunum.

Staðan í dag er þannig að a.m.k. einn spítali í Seattle getur ekki barkaþrætt sjúklinga eldri en 65 ára vegna skorts á tækjum, og metur sem svo að lífslíkur þeirra séu þar af leiðandi 10%.

Þetta er ástæðan fyrir að fólk dó í hrönnum í Hubei og gríðarlegur fjöldi deyr nú á Ítalíu og í Íran. Dánartíðnin í Hubei endaði með að vera skárri en hún hefði getað orðið því þeir byggðu 2 nýja spítala nánast á einni nóttu. Ítalía og Íran geta ekki gert það sama; fáar ef einhverjar þjóðir geta það. Við munum sjá hvernig lokaniðurstaðan verður þar.

Hversvegna er þá dánartíðnin nærri 4%?

Ef 5% af tilfellum þurfa á gjörgæslu að halda og komast ekki að, þá deyr flest af þessu fólki. Þetta er svona einfalt.

Í þokkabót benda nýleg gögn til þess að tilfelli í Bandaríkjunum séu verri en í Kína.

Ég vildi að þetta væri allt og sumt, en það er það ekki.

Dauðsföll vegna keðjuverkandi áhrifa

Þessar tölur sýna bara þá sem deyja af COVID-19 sjúkdómnum. En hvað gerist ef heilbrigðiskerfið er að hruni komið vegna kórónaveirunnar? Aðrir deyja líka af öðrum völdum.

Hvað gerist ef þú færð hjartaáfall en sjúkrabíllinn er 50 mínútur á leiðinni í stað 8 (of mörg kórónaveirutilfelli) og þegar þú kemst á spítalann er ekkert pláss á gjörgæslunni og enginn læknir laus? Þú deyrð.

Á hverju ári leggjast 4 milljónir manna inn á gjörgæslu í Bandaríkjunum, og 500 þúsund (~13%) þeirra deyja. Án gjörgæslurýma væri þetta hlutfall líklega nær 80%. Jafnvel ef aðeins 50% myndu deyja, ef faraldurinn varir í eitt ár þá færirðu frá því að 500 þúsund deyji, upp í 2 milljónir, þannig að það bætast við eins og hálf milljón dauðsfalla bara vegna keðjuverkandi áhrifa.

Ef kórónuveiran fær að dreifa sér mun bandaríska heilbrigðiskerfið hrynja, og milljónir munu láta lífið, mögulega fleiri en 10 milljónir.

Það sama á við um flest lönd. Tíðni plássa á gjörgæslu, öndunarvéla og heilbrigðisstarfsfólks er í flestum löndum svipuð eða lægra en í Bandaríkjunum. Óheft úbreiðsla kórónuveirunnar þýðir að heilbrigðiskerfið hrynur, og það þýðir að stór fjöldi fólks mun deyja.

Óheft úbreiðsla kórónuveirunnar þýðir að heilbrigðiskerfið hrynur, og það þýðir að stór fjöldi fólks mun deyja.

Ég vona að nú sé orðið ljóst að við þurfum að grípa til aðgerða. Þeir tveir valmöguleikar sem við eigum eftir eru annarsvegar að draga úr skaða, eða bæla veiruna niður. Báðar leiðir reyna að “fletja út kúrfuna” en þær gera það á mjög ólíkan hátt.

Valmöguleiki 2: Að draga úr skaða

Að draga úr skaða er einhvernvegin svona: “Það er ómögulegt að koma í veg fyrir kórónuveiruna núna, svo við leyfum henni að smita áfram, en reynum að draga úr hátindi smita. Fletjum bara kúrfuna smá út til að heilbrigðiskerfið ráði betur við.

Þýðingar á texta á grafi, byrja efst og halda áfram niður: Hámarks fjöldi rýma í gjörgæslu / Gerum ekkert / Einangrun tilfella / Einangrun tilfella og sóttkví heima fyrir / Loka skólum og háskólum / Einangrun tilfella, heimasóttkví, aukin félagsleg fjarlægð eldri en 70 ára

Þetta graf birtist í mjög mikilvægri vísindagrein sem birt var um helgina frá Imperial College í Lundúnum. Svo virðist sem greinin hafi ýtt við stjórnvöldum í Bretlandi og Bandaríkjunum til að skipta um stefnu.

Þetta er svipað graf og hið fyrra. Ekki það sama, en sambærilegt í grundvallaratriðum. Hér er “gerum ekkert” tilfellið svarta kúrfan. Hver af hinum kúrfunum eru það sem myndi gerast ef við útfærum harðari og harðari aðgerðir til að auka félagslega fjarlægð. Sú bláa sýnir hörðustu aðgerðirnar til þess: Að einangra þá sýktu, setja þá sem eru mögulega sýktir í sóttkví, og að einangra eldra fólk. Þessi bláa lína er nokkurnvegin sambærileg við núverandi strategíu í Bretlandi, þó að eins og er séu þeir bara að stinga uppá þessum aðgerðum frekar en að gera kröfu um þær.

Á þessu línuriti er rauða línan aftur hámarksfjöldi rýma á gjörgæslu, í þetta skiptið í Bretlandi. Þessi lína er aftur mjög nálægt botninum á grafinu. Allt svæðið í kúrfunni fyrir ofan þessa rauðu línu sýnir tilfelli kórónuveirunnar, sjúklinga sem myndu líklega flestir deyja vegna skorts á gjörgæslu.

Í viðbót við þetta, með því að fletja út kúfuna væru gjörgæslurými öll upptekin í marga mánuði, sem myndi auka keðjuverkandi áhrif.

Þú ættir að vera í sjokki. Þegar þú heyrir: “Við ætlum að draga úr skaðanum” þá ættirðu í raun að túlka það sem: “Við ætlum vísvitandi að leyfa vandanum að fara langt fram úr því sem heilbrigðiskerfið ræður við, sem eykur dánartíðnina um að minnsta kosti tífalt.

Þér gæti þótt þetta nógu slæmt. En við erum ekki alveg búin. Því eitt af því sem gert er ráð fyrir til grundvallar þessarar strategíu er það sem er kallað “hjarðónæmi”.

Hjarðónæmi og stökkbreyting vírussins

Hugmyndin með hjarðónæmi er að allir sem sýkjast og ná sér eru þá ónæmir fyrir vírusnum. Þetta er kjarninn í þessari strategíu: “Sjáðu til, ég veit að þtta verður erfitt í einhvern tíma, en þegar við erum búin og nokkrar milljónir dánar, þá erum við sem eftir erum ónæm, svo að vírusinn hættir að dreifa sér og við segjum bless við kórónaveiruna. Betra að gera þetta einu sinni og vera búin, því annars þurfum við að auka félagslega fjarlægð í allt að ár og eigum samt á hættu að fá hátind á smitum seinna hvort eð er.

Vandinn er að þetta gerir ráð fyrir einu: Að vírusinn breytist ekki of mikið. Ef hann breytist ekki mikið, þá fær fullt af fólki ónæmi, og á einhverjum tímapunkti deyr faraldurinn niður.

Hversu líklegt er að vírusinn stökkbreytist?
Hann virðist þegar hafa gert það.

Nýlegar rannsóknir benda til að Kína hafi þegar séð tvö tilbrigði af vírusnum: S og L. Tilbrigði S was mest í Hubei og var hættulegra, en tilbrigði L var það sem dreifði sér um heiminn.

Ekki nóg með það, heldur heldur vírusinn áfram að stökkbreytast.

Þetta graf sýnir mismunandi stökkbreytingar vírussins. Hægt er að sjá að fyrstu tilbrigðin eru merkt fjólublá og byrjuðu í Kína, en byrjuðu svo að stökkbreytast. Tilbrigðin í Evrópu eru mest græn og gulmerkt, meðan að Bandaríkin eru að lenda í öðru tilbrigði sem er merkt rautt. Eftir því sem meiri tími líður munu fleiri tilbrigði skjóta upp kollinum.

Þetta ætti ekki að koma á óvart: RNA-vírusar eins og kórónuveiran eða flensan stökkbreytast oftast um 100 sinnum hraðar en DNA-vírusar — þó að kórónaveiran stökkbreytist ekki jafn hratt og inflúensuveiran.

Ekki nóg með það, heldur er besta leiðin fyrir þessa veiru til að stökkbreytast að fá milljónir tækifæra til að gera það, sem er nákvæmlega það sem strategían um að draga úr skaðanum mun bjóða uppá: Hundruðir milljóna manns sem sýkjast.

Þetta er ástæðan fyrir að maður þarf nýja flensusprautu á hverju ári. Vegna þess að það eru svo mörg tilbrigði af flensu, og ný sífellt að verða til vegna stökkbreytinga, þá getur flensusprautan aldrei verndað gegn öllum tilbrigðum.

Ef við umorðum þetta, þá er ekki ekki nóg með að strategían um að draga úr skaða geri ráð fyrir milljónum látinna í landi eins og Bandaríkjunum eða Bretlandi. Hún veðjar líka á þá staðreynd að vírusinn stökkbreytist ekki of mikið — en við vitum að hann gerir það. Og strategían mun gefa honum aukið tækifæri á að stökkbreytast. Þannig að þegar milljónir hafa látist, gætum við átt von á milljónum í viðbót — á hverju ári. Þessi kórónuveira gæti orðið eins og flensan, árstíðabundinn faraldur, en margfalt lífshættulegri.

Besta leiðin fyrir þennan vírus til að stökkbreytast er að fá milljónir tækifæra til að gera það, sem er nákvæmlega það sem strategía sem byggir á að draga úr skaðanum myndi bjóða uppá.

Þannig að ef það virkar hvorki að gera ekkert né að draga úr skaðanum, hver er þá hinn valkosturinn? Hann felst í að bæla niður veiruna.

Valmöguleiki 3: Að bæla niður veiruna

Strategían um að draga úr skaða reynir ekki að koma í veg fyrir frekari smit, heldur bara að fletja út kúrfuna. Að bæla niður veiruna snýst hinsvegar um harðar aðgerðir til að ná fljótt stjórn á faraldrinum. Sér í lagi:

  • Harðar aðgerðir strax. Fyrirskipa mjög stranga aukningu á félagslegri fjarlægð. Ná stjórn á þessari veiru.
  • Seinna er hægt að slaka á aðgerðum, svo að fólk fái smátt og smátt aftur frelsi og eitthvað sem nálgast venjulegt efnahags- og félagslíf getur haldið áfram.

Hvernig lítur sviðsmyndin út?

Allar forsendur líkansins eru þær sömu, nema að nú eru aðgerðir sem minnka sýkingarstuðulinn niður í R=0,62, og vegna þess að heilbrigðiskerfið kaffærist ekki lækkar dánartíðnin í 0,6%. Ég skilgreindi “sirka núna” þannig að það væru um 32.000 tilfelli þegar gripið er til ráðstafanana (þetta er um 3x fjöldi staðfestra tilfella í dag, 19. mars). Athugið að líkanið er ekki mjög næmt á það R sem er valið. Til dæmis gefur R=0,98 niðurstöðu upp á 15.000 dauðsföll. Fimm sinnum meira en með R=0,62, en samt tugir þúsunda látinna frekar en milljónir. Líkanið er heldur ekki mjög næmt á dánartíðnina: Ef hún er 0,7% í stað 0,6%, þá hækkar fjöldi dauðsfalla úr 15.000 í 17.000. Það er samsetningin á hærra R, hærri dánartíðni, og seinkun á því að mæla sem veldur sprengingu í fjölda dauðsfalla. Þess vegna verðum við að grípa til aðgerða til að lækka R í dag. Til úskýringar þá er hið fræga R0 gildi R í upphafi (R á tíma 0). Það er meðalsmitfjöldi á hvern smitaðan þegar enginn er með ónæmi og ekki hefur verið gripið til ráðstana gegn veirunni. R er hinsvegar meðalsmittíðnin að teknu tilliti til alls. Þýðing á texta á grafi: Rauður texti: “Takið eftir að ásinn hefur breyst; nú eru þetta ekki tugir milljóna, heldur tugir þúsunda!” Bleikur texti: “Sýktir.” Ljósblár texti: Heildarfjöldi látinna: ~4.000"

Ef við tökum þá strategíu að bæla niður veiruna, þá er fjöldi dauðsfalla að lokinni fyrstu bylgju í tugum þúsunda í stað milljóna.

Hvers vegna? Því að við minnkum ekki einungis veldisvöxt tilfella. Við skerum líka niður dánartíðnina því að heilbrigðiskerfið kaffærist ekki algjörlega. Í líkaninu notaði ég dánartíðni 0,9% sem er u.þ.b. það sem við erum að sjá í Suður-Kóreu í dag, sem hefur gengið hvað best í að bæla niður veiruna.

Þegar þetta er útskýrt svona, þá virðist þetta vera einföld ákvörðun. Allir ættu að fylgja þeirri strategíu að bæla niður veiruna.

Hvers vegna hika þá sumar ríkisstjórnir?

Þær óttast þrennt:

  1. Að þessar fyrstu hörðu aðgerðir vari í marga mánuði, sem mörgum þykir óásættanlegt.
  2. Að það eyðileggi hagkerfið að skella í lás í marga mánuði.
  3. Að það leysi ekki einu sinni vandamálið, því við værum bara að seinka því að faraldurinn myndi blossa upp: Að seinna meir, þegar við slökum á aðgerðum til að auka félagslega fjarlægð, þá sýkist samt sem áður milljónir og deyji.

Svona var líkanið hjá teyminu í Imperial College varðandi það að bæla niður veiruna. Grænu og gulu línurnar eru tvær ólíkar sviðsmyndir af því. Þú sérð að þetta lítur ekki vel út: Við fáum samt risa faraldur seinna, þannig að til hvers að vera að þessu?

Við svörum þessum atriðum á eftir, en það er annað sem skiptir meira máli sem við skulum tala um fyrst.

Þetta horfir algjörlega framhjá aðalatriðunu.

Ef þú setur þetta svona fram þá virðist hvorug sviðsmyndin líta vel út, hvort sem bara er reynt að minnka skaða eða að bæla niður veiruna. Annaðhvort deyr fullt af fólki bráðlega og við sköðum hagkerfið ekki til skamms tíma, eða við sköðum hagkerfið til skamms tíma núna bara til að seinka dauðsföllunum.

Þetta horfir framhjá virði tímans.

3. Virði tímans

Í síðustu grein útskýrðum við hversu mikilvægur tíminn er í að bjarga mannslífum. Með hverjum degi, hverri klukkustund sem beðið er með að grípa til aðgerða, heldur þessi ógn áfram að vaxa veldisvexti. Við sáum hvernig bara einn dagur gæti fækkað heildarfjölda tilfella um 40% og dauðsföllum um enn meira en það.

En tíminn er enn verðmætari en það.

Við erum að fara að fá mesta álag á heilbrigðiskerfið okkar sem hefur nokkurntíma sést í sögunni. Við erum algjörlega óundirbúin, og mætum óvin sem við þekkjum ekki. Það er ekki góð staða til að fara í stríð.

Hvað ef þú værir að fara að mæta erfiðasta andstæðingi þínum, sem þú vissir lítið um, og þú hefðir tvo valkosti: Annaðhvort hleypur þú í áttina að honum, eða þú flýrð til að kaupa smá tíma til að undirbúa þig. Hvort myndir þú velja?

Þetta er það sem við verðum að gera núna. Heimurinn hefur vaknað. Fyrir hvern dag sem við getum seinkað veirunni, getum við undirbúið okkur betur. Næstu kaflar fjalla um hvað tíminn getur gert fyrir okkur:

Fækkað fjölda tilfella

Með því að bæla veiruna niður með hörðum aðgerðum, myndi raunverulegur fjöldi tilfella hrapa fljótt, eins og við sáum í Hubei í síðustu viku.

Í dag eru 0 ný tilfelli kórónuveiru daglega á öllu 60 milljón-manna Hubei svæðinu.

Greiningum myndi halda áfram að fjölga í um tvær vikur, en þeim myndi síðan fara fækkandi. Með færri tilfellum lækkar einnig dánartíðnin. Keðjuverkandi áhrif yrðu einnig minni: Færri myndu deyja af öðrum völdum en kórónaveirunnar því heilsugæslukerfið myndi ekki kaffærast.

Að bæla niður veiruna myndi þýða:

  • Lægri heildarfjöldi tilfella af COVID-19
  • Minna álag á heilbrigðiskerfið okkar og fólkið sem vinnur í því, nánast strax
  • Lækkun í dánartíðni
  • Minnkun á keðjuverkandi áhrifum
  • Tími til að starfsfólk heilbrigðiskerfisins sem í dag er sýkt, í einangrun eða sóttkví gætu látið sér batna og komið aftur til vinnu. Á Ítalíu eru starfsmenn heilbrigðiskerfisins um 8% allra smita.

Að skilja vandamálið betur: Prófanir og rakning

Eins og er hafa Bretland og Bandaríkin enga hugmynd um raunverulegan fjölda smita. Við vitum ekki hversu mörg þau eru. Við vitum bara að opinbera talan er ekki rétt, og að sanna alan er í tugum þúsunda. Þetta hefur gerst vegna þess að við erum ekki að prófa, og ekki að rekja smit.

  • Innan örfárra vikna gætum við komið málum í lag hvað varðar prófanir, og fara að prófa alla. Með upplýsingum frá prófunum myndum við loks vita hversu stórt vandamálið er í raun, á hvaða svæðum við þurfum að grípa til harðari aðgerða, og í hvaða borgum og bæjum væri hægt að létta á aðgerðum.
  • Nýjar aðferðir við prófanir gætu hraðað á prófunum og lækkað kostnað verulega.
  • Við gætum líka sett á laggirnar smitrakningu eins og hefur verið í gangi í Kína og öðrum Austur-Asíulöndum, þar sem þeir finna allt fólkið sem allir veikir höfðu hitt, og geta sett það í sóttkví. Þetta myndi gefa okkur mikið af upplýsingum til að nýta okkur seinna hvað varðar aukningu á félagslegri fjarlægð: Ef við vitum hvar vírusinn er, þá getum við miðað aðgerðum á þá staði. Þetta eru engin geimvísindi: Þetta er grundvöllurinn fyrir því að Austur-Asíulöndin hafa getað haldið stjórn á faraldrinum án þess að þurfa endilega jafn harðar aðgerðir varðandi félagslega fjarlægð og eru að verða æ nauðsynlegri í öðrum löndum.

Aðgerðirnar sem fjallað er um hér að ofan (prófanir og smitrakning) hægðu einar og sér á vexti kórónuveirunnar í Suður-Kóreu og komu stjórn á útbreiðsluna, án þess að þyrfti að grípa til mjög harðra aðgerða varðandi félagslega fjarlægð.

Byggja upp byrgðir

Bandaríkin (og að líkindum líka Bretland) eru um það bil að fara í stríð án brynju.

Við eigum einungis tveggja vikna birgðir af grímum, fáa PPE galla, ekki nógu margar öndunarvélar, ekki nógu mörg pláss í gjörgæslu, ekki nógu margar ECMO vélar (vélar sem súrefnisvæða blóð utan líkamans)… Þetta er ástæðan fyrir að dánartíðnin yrði svo há ef aðeins er reynt að draga úr skaða vegna veirunnar.

En ef við kaupum okkur smá tíma, getum við breytt þessari stöðu:

  • Við fáum meiri tíma til að kaupa tæki sem við þurfum fyrir bylgju í framtíðinni
  • Við getum fljótt byggt upp framleiðslu okkar á grímum, PPE göllum, öndunarvélum, ECMO vélum, og öðrum nauðsynlegum tækjum til að minnka dánartíðnina.

Umorðum þetta: Við þurfum ekki nokkur ár til að sækja okkur brynju, við þurfum nokkrar vikur. Gerum allt sem við getum til að koma framleiðslugetunni í gang núna. Lönd eru komin í gang. Fólk er að nýta uppfinningasemina, til dæmis með því að þrívíddarprenta íhluti fyrir öndunarvélar. Við getum þetta. Við þurfum bara meiri tíma. Myndir þú bíða í nokkrar vikur til að búa þér til brynju áður en þú berst við erfiðan andstæðing?

Þetta er ekki það eina sem við þurfum. Við munum líka þurfa starfsfólk í heilbrigðiskerfið eins fljótt og hægt er. Hvaðan fáum við það? Við þurfum að þjálfa fólk til að aðstoða hjúkrunarfræðinga, og við þurfum að biðja fólk sem komið er á eftirlaun að koma til starfa. Mörg lönd hafa þegar hafið þetta ferli, en það tekur tíma. Við getum gert þetta á nokkrum vikum, en ekki ef allt fer til fjandans.

Lækkum smitstuðul almennings

Almenningur er hræddur. Kórónuveiran er ný. Það er svo margt sem við vitum ekki hvernig á að gera ennþá! Fólk er ekki búið að læra að hætta að heilsast með handabandi. Það faðmast ennþá. Það opnar ekki dyrnar með olnboganum. Það þvær sér ekki um hendurnar áður en það tekur í hurðarhún. Það sótthreinsar ekki borð áður en það sest niður.

Þegar við eigum nóg af grímum, getum við notað þær annarsstaðar en bara í heilbrigðiskerfinu. Eins og stendur er betra að þær sem við eigum nýtist starfsmönnum heilbrigðiskerfisins. En ef þær væru ekki af skornum skammti, þá ætti fólk að ganga með þær dagsdaglega, sem myndi minnka líkur á að það smiti annað fólk ef það er veikt, og getur líka minnkað líkurnar á að það sjálft smitist ef maður fær rétta þjálfun. (Í millitíðinni virðist skárra að vera með eitthvað fyrir vitunum en ekkert.)

Allt eru þetta frekar ódýrar leiðir til að minnka útbreiðsluhraðann. Því minna sem veiran nær að dreifa sér, því færri aðgerðir þurfum við í framtíðinni til að bæla hana niður. En við þurfum tíma til að kynna fólki þessar leiðir til að minnka smit og til að þau fái þau efni sem þarf.

Skiljum vírusinn

Við vitum mjög, mjög lítið um vírusinn. En í hverri viku koma hundruðir nýrra vísindagreina.

Heimurinn er loks sameinaður á móti einum óvini. Rannsóknaraðilar um allan heim eru á fullu að reyna að skilja vírusinn betur.

Hvernig dreifir vírusinn sér?
Hvernig er hægt að hægja á smithraða?
Hversu margir eru smitaðir en einkennalausir?
Eru þeir smitandi? Hversu smitandi?
Hvaða meðferðarúrræði eru best?
Hversu lengi lifir vírusinn?
Á hvaða yfirborðsefnum?
Hvaða áhrif hafa mismunandi aðgerðir til að auka félagslega fjarlægð á smithraða?
Hver er kostnaður við hverja aðferð?
Hverjar eru bestu aðferðirnar við smitrakningu?
Hversu nákvæmar eru prófanirnar okkar?

Skýr svör við þessum spurningum munu gera ráðstafanir okkar eins hnitmiðaðar og mögulegt er, meðan við minnkum keðjuverkandi áhrif og lágmörkum skaðann á samfélög okkar. Og svara er að vænta innan vikna, ekki ára.

Finnum meðferðarúrræði

Ekki nóg með þetta, því hvað ef við finnum meðferð innan næstu nokkurra vikna? Hver dagur sem við frestum faraldrinum kemur okkur nær því takmarki. Eins og stendur eru nokkrar mögulegar meðferðir, eins ogFavipiravir eða Chloroquine. Hvað ef það kæmi í ljós að við finnum mjög virka meðferð eftir tvo mánuði? Hversu heimskulegt myndi það vera ef við værum þegar búin að leyfa milljónum að deyja af því við vildum bara draga úr skaðanum, ekki bæla niður vírusinn?

Skiljum betur samhengi milli kostnaðar og virði aðgerða

Allt ofangreint getur hjálpað okkur við að bjarga milljónum mannslífa. Það ætti að vera nóg. Því miður geta pólitíkusar ekki hugsað eingöngu um líf þeirra sem veikjast. Þeir þurfa að hugsa um hagsmuni allrar heildarinnar, og mjög harðar aðgerðir til að auka félagslega fjarlægð hafa áhrif á alla.

Eins og stendur þá vitum við ekki hversu mikið mismunandi slíkar aðgerðar hægja á smithraða. Við höfum heldur ekki góða mynd af því hver efnahagslegur eða félagslegur kostnaður þeirra er.

Er ekki frekar erfitt að ákveða til hvaða aðgerða á að grípa til lengri tíma ef við höfum ekki góðan skilning á samhenginu milli kostnaðar og virði aðgerða?

Nokkrar vikur myndu gefa okkur tíma til að byrja að rannsaka þetta, skilja þetta, forgangsraða aðgerðum og ákveða hvaða til hvaða aðgerða á að grípa.

Færri tilfelli, betri skilningur á vandamálinu, byggja upp byrgðir, skilja vírusinn, skilja betur samhengi milli kostnaðar og virði aðgerða, fræða almenning… Þetta eru nokkur lykilverkfæri til að berjast gegn vírusnum, og við þurfum bara nokkrar vikur til að þróa mörg þeirra. Væri ekki heimskulegt að binda sig við strategíu sem í staðinn fleygir okkur beint í fangið á óvininum?

4. Hamarinn og dansinn

Nú vitum við að sú strategía að minnka skaða af veirunni er hræðilegur kostur, og að strategían að bæla niður veiruna virðist mun vænlegra til skamms tíma.

En fólk hefur réttilega áhyggjur af þessari leið:

  • Hvað tekur þetta í rauninni langan tíma?
  • Hversu kostnaðarsamt verður þetta?
  • Verður bara seinni kúfur alveg jafn stór og hann yrði í dag ef við myndum ekkert gera?

Í þessum kafla skoðum við hvernig það að bæla niður veiruna myndi líta út. Við köllum þetta hamarinn og dansinn.

Hamarinn

Fyrst grípurðu hratt til mjög harðra aðgerða. Af öllum þeim ástæðum sem nefndar hafa verið að ofan, til að vinna okkur inn tíma, þá viljum við drepa þetta niður eins fljótt og hægt er.

Þýðing á texta á grafi: Do nothing: “Gera ekkert.” Mitigation: “Draga úr skaða.” Suppression: “Bæla niður veiruna.”

Ein af mikilvægustu spurningunum er: Hversu lengi varir þetta?

Óttinn er að allir þurfi að vera læstir inni heima hjá sér í marga mánuði í senn, sem hefur í för með sér eyðileggingu hagkerfisins og andlega erfiðleika fyrir einstaklinga. Þessi hugmynd kom því miður fram í fræga Imperial College fræðiritinu:

Manstu eftir þessu grafi? Ljósbláa svæðið sem byrjar í lok mars og lýkur í lok ágúst er tímabilið sem fræðiritið mælir með fyrir Hamarinn, þ.e. að bæla vírusinn niður, sem innifelur harðar aðgerði til að auka á félagslega fjarlægð.

Ef þú ert pólitíkus og þú sérð að einn valkostur er að hundruðir þúsunda eða milljónir manna deyi ef þú ferð þá leið að minnka skaðann, og hinn valkosturinn sé sá að stöðva hagkerfið í fimm mánuði áður en þjóðin lendir í sömu holskeflu af tilfellum og dauðsföllum, þá hljómar hvorugur þessara valkosta vel.

En þetta þarf ekki að vera svona. Búið er að setja fram mikla gagnrýni á þetta fræðirit vegna mikilvægra galla: Það hunsar áhrif smitrakningar (sem er mikilvægur þáttur í því að bæla niður veiruna í Suður-Kóreu, Kína og Singapore meðal annarra þjóða) og takmarkana á ferðafrelsi (algjörlega nauðsynlegt í Kína), hunsar áhrif stórra hópa…

Tíminn sem þörf er á að nota Hamarinn er vikur, ekki mánuðir.

Þýðingar á texta á grafi, frá vinstri til hægri: Skellt í lás / “Tilkynning um að hefja framleiðslu að nýju á skipulagðan hátt” / Tölfræðilegur kvilli, þeir breyttu því hvernig þeir skilgreindu smit / Algjörlega búið að ná stjórn / Einungis 1 nýtt tilfelli.

Grafið að ofan sýnir ný tilfelli á öllu Hubei svæðinu (60 milljón manns) á hverjum degi síðan 23. janúar. Innan 2ja vikna var landið farið að koma aftur til vinnu. Innan ~5 vikna var búið að ná algjörri stjórn á faraldrinum. Innan 7 vikna voru nánast engin ný tilfelli. Höfum í huga að þetta er það svæði í Kína sem lenti verst í veirunni.

Munum líka að þetta eru appelsínugulu súlurnar. Gráu súlurnar frá fyrri mynd, raunverulegu nýju tilfellin, voru farnar að hrapa mun fyrr (sjá graf nr. 9).

Aðgerðnirnar sem þau fóru í voru frekar svipaðar og þær sem búið er að grípa til á Ítalíu, Spáni og Frakklandi: einangrun, sóttkví, fólk þurfti að vera heima nema það væri neyðartilfelli eða þau þyrftu að kaupa mat, smitrakning, prófanir, fleiri sjúkrahúspláss, takmarkanir á ferðafrelsi…

Smáatriðin skipta hinsvegar máli.

Aðgerðirnar í Kína voru harðari. Til dæmis mátti einungis einn aðili frá hverju heimili fara frá heimilinu á þriggja daga fresti til að kaupa mat. Kínverjar voru líka með meira eftirlit með að fyrirmælum væri fylgt. Það er líklegt að þessi harka hafi stöðvað faraldurinn hraðar.

Á Ítalíu, Spáni og í Frakklandi voru aðgerðirnar ekki jafn harðar, og ekki jafn kröftugt eftirlit með að þeim væri fylgt. Fólk er enn úti á götu, margir án þess að nota grímu. Þetta leiðir að líkindum til þess að Hamarinn virkar hægar: það mun taka lengri tíma að ná fullri stjórn á faraldrinum.

Sumir túlka þetta þannig að “lýðræðisríki muni aldrei geta náð svipuðum árangri í fækkun tilfella.” Það er ekki rétt.

Þýðing á texta, frá vinstri til hægri: Sjúklingur 31 fer í risakirkju / 3 vikur / Fækkun fyrst og fremst í gegnum víðtækar prófanir, smitrakningar, sóttkví og einangrun. Engin krafa um að allt þjóðfélagið skelli í lás. / Dansinn

Í nokkrar vikur var Suður-Kórea með versta faraldurinn utan Kína. Nú er hann að miklu leyti í skefjum, og þessum árangri náðu þeir án þess að biðja fólk að halda sig heima. Þeir náðu árangrinum fyrst og fremst með mjög víðtækum prófunum, smitrakningu, sóttkví og einangrun.

Ef hægt er að ná stjórn á öldu smita eins og í Suður-Kóreu á nokkrum vikum og án þess að gera kröfu um aukna félagslega fjarlægð, þá geta vestræn ríki, sem þegar eru að beita Hamrinum með hörðum aðgerðum alveg örugglega náð stjórn á faraldrinum innan vikna. Þetta er spurning um aga, útfærslu, og hversu margir fara eftir reglunum.

Síðan fer þetta eftir hversu harkalegt næsta skref á eftir Hamrinum er: Dansinn.

Dansinn

Ef þú notar Hamarinn á kórónaveiruna, þá nærðu stjórn á henni innan nokkurra vikna og ert miklu betur í stakk búinn til að hafa hemil á henni. Nú kemur lengri tíma átakið til að halda veirunni í böndunum þar til fundið er bóluefni.

Þýðingar á texta, frá vinstri til hægri: Gera ekkert / Draga úr skaða / Hamarinn: Læra, minnka smithraða, skilja rauntilfelli, ráða starfsfólk, betrumbæta meðferðir, fá betri prófanir og smitrakningu, losa um þrýsting á heilbrigðiskerfi, byggja upp heilbrigðiskerfið og framleiðslugetu, skilja samverkun kostnaðar og ágóða við aðgerðir. / Dansinn: Halda R fyrir neðan 1, prófa vel, smitrakningar, sóttkví, einangrun, fræða almenning um hreinlæti og aukna félagslega fjarlægð, bann á stórar samkomur, flestar kvaðir afnumdar en auknar þegar þörf er á, notaðar þær aðferðir sem áorka mestu fyrir minnstan kostnað.

Þetta er líklega stærsti einstaki misskilningurinn þegar fólk hugsar um Hamarinn: Það heldur að hann muni halda þeim föstum á heimili sínu í marga mánuði. Það er alls ekki þannig. Í raun er líklegt að líf okkar verði aftur nokkuð nálægt því eðlilegt.

Dansinn þar sem vel hefur tekist til

Hvers vegna hafa verið tilfelli lengi í Suður-Kóreu, Singapore, Taívan og Japan, og hjá Suður-Kóreu þúsundir þeirra, en samt eru þau ekki með alla fasta á heimilum sínum?

Í þessu vídeó fer utanríkisráðherra Suður-Kóreu yfir það hvernig landið hennar fór að þessu. Það var frekar einfalt: Skilvirkar prófanir, góðar smitrakningar, takmarkanir á ferðum, skilvirk einangrun og sóttkví.

Þetta fræðirit fer yfir aðferð Singapore:

Viltu giska á hvaða aðgerðir þeir fóru í? Sömu og Suður-Kórea. Í þeirra tilfelli bættu þeir við efnahagslegri aðstoð fyrir þá sem fóru í sóttkví, takmörkunum á ferðalögum og seinkunum.

Er orðið of seint fyrir önnur lönd? Nei. Með því að nota Hamarinn þá færðu annað tækifæri til að gera þetta rétt.

En hvað ef allar þessar aðgerðir nægja ekki?

R-dansinn

Ég kalla tímann frá því Hamrinum er slegið niður og þar til að bóluefni eða góð meðferð er til, Dansinn, því að á þessu tímabili munu aðgerðir ekki alltaf þurfa að vera sömu harkalegu aðgerðirnar. Sum svæði munu lenda í bylgju smita aftur, en aðrar sleppa við það í langan tíma í senn. Eftir því hvernig tilfelli þróast þá gætum við þurft að herða á félagslegri einangrun eða við gætum slakað á slíkum aðgerðum. Þetta er R-dansinn: Dans aðgerða milli þess að koma lífinu aftur í gang og að veiran smitist, milli efnahagskerfisins og heilbrigðiskerfisins.

Hvernig virkar þessi dans?

Þetta snýst allt um R-stuðulinn. Þú manst kannski að hann táknar smithraðann. Fyrst um sinn í landi sem ekki er undirbúið, þá er hann milli 2 og 3: Fyrstu vikurnar sem einhver er smitaður, smitar sá hinn sami að meðaltali milli 2 og 3 aðra.

Ef R er fyrir ofan 1, þá fjölgar smitum með veldisvexti og þau verða að faraldri. Ef hann er fyrir neðan 1, þá deyja þau út.

Meðan Hamarinn er í gangi, er markmiðið að koma R eins nálægt núll eins hratt og hægt er, til að drepa niður farsóttina. Í Wuhan hefur verið reiknað út að R var upphaflega 3,9 en eftir að skellt var í lás og sett í sóttkví fór hann niður í 0,32.

En þegar þú ert kominn í Dansinn, þarftu ekki þetta markmið lengur. Þú þarft bara að halda R fyrir neðan 1. Þeim árangri geturðu líklega oftast náð með bara nokkrum einföldum ráðum.

Þýðingar á texta, frá toppi að botni, vinstri til hægri: Einkennalaus (30%) / Engin einkenni — Mild eða meðal (56%) / Engin einkenni / Mild eða meðal einkenni / Bati — Alvarleg (10%) / Engin einkenni / Slæm einkenni / Sjúkrahúsvist / Bati — Mjög alvarleg (4%) / Engin einkenni / Slæm einkenni / Sjúkrahúsvist / Gjörgæsla/öndunarvél / Andlát — Þetta svæði = 2,5 smit

Þetta graf sýnir nokkurnvegin hvernig mismunandi tilfelli bregðast við veirunni, og hvernig þau smita yfir tíma. Enginn veit nákvæmlega hvernig sú kúrfa er í laginu, en við höfum tekið saman gögn úr mismunandi fræðigreinum til að búa til nálgun.

Á hverjum degi eftir að það smitast af veitunni, hefur fólk ákveðnar líkur á að smita aðra. Samtals geta þessir smitandi dagar valdið 2,5 öðrum smitum að meðaltali.

Talið er að einhver smit eigi sér stað meðan fólk er einkennalaust. Eftir það, þegar einkenni aukast, þá fer fólk oftast til læknis, fær greiningu, og smithættan minnkar.

Til dæmis, ef þú ert smitaður en einkennalaus, þá ertu líklegri til að hegða þér eins og venjulega. Þegar þú talar við fólk þá dreifirðu veirunni. Þegar þú snertir á þér nefið og snýrð síðan hurðarhúninum, þá smitast næsta fólk sem opnar dyrnar og snertir á sér nefið.

Því meira sem veiran fjölgar sér í þér, því meira smitandi ertu. En síðan, þegar þú byrjar að fá einkenni, þá kannski hættirðu að fara í vinnuna, heldur þig í rúminu, byrjar að ganga með grímu, eða ferð til læknis. Því meiri einkenni, því líklegri ertu til að halda fjarlægð og þar af leiðandi er minni smithætta.

Þegar þú ert kominn á spítala, þó þú sért í raun mjög smitandi er smithættan minni þar sem þér er haldið einangruðum.

Hér geturðu séð hversu mikill árangur fæst af aðgerðum eins og í Singapore eða Suður-Kóreu:

  • Ef mjög margir eru prófaðir, þá er hægt að finna þá áður en þeir hafa einkenni. Í sóttkví smita þeir engan.
  • Ef fólk fær þjálfun í að þekkja einkenni snemma, þá fækkar dögum sem það er á bláa svæðinu í grafinu, og þar af leiðandi smita þau líklega færri.
  • Ef fólk er einangrað um leið og það er með einkenni, þá eru engin smit meðan fólkið er á appelsínugula svæðinu á grafinu.
  • Ef fólk fær fræðslu um að halda fjarlægð, vera með grímu, þvo hendur og sótthreinsa svæði, þá smitar það minna allan tímann.

Það er bara þegar allar þessar ráðstafanir bregðast sem við gætum þurft harðari aðgerðir til að auka félagslega fjarlægð.

Kostnaðar-ábatagreining aukinnar félagslegrar fjarlægðar

Ef við erum enn vel fyrir ofan R=1 með öllum þessum aðgerðum, þá þurfum við að fækka meðalfjölda þeirra sem hver manneskja hittir.

Það eru nokkrar frekar ódýrar leiðir til að gera það, eins og að banna viðburði þar sem fleiri en einhver ákveðinn fjöldi (t.d. 50, 500) kemur saman, eða að biðja fólk að vinna að heiman þegar það getur það.

Aðrar eru miklu, miklu dýrari, eins og að loka skólum og háskólum, biðja alla um að halda sig heima, eða loka börum og veitingastöðum.

Þýðingar á texta í grafi: Graf 15: Leiðin að R=1 — Dæmi um hvernig pólitíkusar gætu tekið ákvarðanir á meðan Dansinn er í gangi* — Bónus fyrir hlýtt og rakt veður — Bónus fyrir minni íbúaþéttni en gengur og gerist — Víðtækar prófanir — Handþvottur og sótthreinsun, almenningsfræðsla — Smitrakning — Sótthreinsun á stórum skala — Sótthiti mældur í flöskuhálsum — Matur afhentur á öruggan hátt — Ferðabönn — Samkomubönn — Ráðstefnur loka — Klúbbar loka — Íþróttir hætta — Barir og veitingastaðir loka — Skólar og háskólar loka — Flest allt sem er ekki bráðnauðsynlegt lokar — Biðja fólk að vera heima nema til að sækja mat eða í neyð — Loka kjörbúðum og neyðarþjónustu — (Rauður texti:) Lærum hvaða aðgerðir hafa hvaða áhrif á R, til að koma okkur niður fyrir 1 þar til komið er bóluefni

Hlutföllin í grafinu hér að ofan eru skáldskapur, því að enginn hefur rannsakað þetta nógu vel eða sett saman allar mælingarnar á þann hátt að við getum borið þær saman.

Það er óheppilegt, því svona graf væri mikilvægasta verkfærið sem pólitíkusar gætu notað til að taka ákvarðanir. Það er í rauninni á þessum skala sem þeir eru að hugsa.

Á meðan Hamarinn er í gangi, vilja pólitíkusar lækka R eins mikið og mögulegt er, með hörðum aðgerðum sem þjóðin þolir þó. Í Hubei komust þeir alla leið niður í 0,32. Við þurfum það kannski ekki endilega: 0,5 eða 0,6 gæti verið nóg.

En meðan á R-dansinum stendur, viljum við vera eins nálægt 1 og mögulegt, og fyrir neðan það á heildina til lengri tíma. Það kemur í veg fyrir að upp blossi ný bylgja smita, meðan á sama tíma kemur það í veg fyrir að grípa þurfi til hörðustu aðgerða.

Það sem þetta þýðir er, hvort sem leiðtogar okkar átta sig á því eða ekki, er að þeir eru að:

  • Búa til lista yfir allar þær leiðir sem þeir gætu notað til að lækka R
  • Átta sig á ábatanum við að nota tiltekna leið: hversu mikið R lækkar
  • Reyna að skilja kostnaðinn við tiltekna leið, félagslega og hvað hagkerfið varðar
  • Raða aðgerðum í röð eftir því hvernig samhengi kostnaðar og ábata er
  • Velja þær aðgerðir sem gefa mesta lækkun á R (niður að 1) fyrir sem lægstan kostnað

Þarna er bara verið að sýna dæmi. Gögnin eru uppsuni. Hinsvegar virðast slík gögn ekki vera til í dag, að svo miklu leyti sem við gátum komist að. Þessi gögn þurfa að vera til. Til að mynda er þessi listi frá CDC fínasta byrjun, en á hann vantar hluti eins og breytingar á menntakerfi, hvenær grípa ætti til ráðstafana, greiningu á kostnaði og ábata, smáatriði varðandi aðgerðir, aðgerðir sem grípa má til, til að vega upp á móti félagslegum eða efnahagslegum kostnaði…

Til að byrja með munum við ekki fá þessar tölur alveg á hreint. En það er samt svona sem pólitíkusar eru að hugsa — og ættu að vera að hugsa.

Það sem þarf er að skilgreina ferlið formlega: Skilja að þetta er spurning um tölur þar sem við þurfum að læra sem allra hraðast hvar við erum varðandi R, hvaða áhrif hver aðgerð fyrir sig getur haft til að lækka R, og félagslegan og efnahagslegan kostnað hverrar aðgerðar.

Þegar þar er komið munu pólitíkusar geta tekið rökréttar ákvarðanir um til hvaða aðgerða á að grípa.

Kórónuveiran er ennþá að dreifa sér næstum því allsstaðar. Það eru tilfelli í 152 löndum. Við erum í kapphlaupi við tímann. En við þurfum ekki endilega að vera það: Það er til skýr leið til þess að forðast það.

Sum lönd, sérstaklega þau sem ekki hafa lent illa í því með kórónuveiruna ennþá, eru kannski að hugsa: Gerist þetta hjá okkur? Svarið er: Þetta er líklega búið að gerast. Þið eruð bara ekki búin að taka eftir því. Þegar raunveruleikinn skellur á, verður heilbrigðiskerfið ykkar í enn verra standi heldur en hjá ríku löndunum þar sem heilbrigðiskerfin eru sterk. Það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig og þið ættuð að hugsa um að grípa til aðgerða strax.

Fyrir þau lönd þar sem kórónuveiran er þegar búin að smita marga, eru valkostirnir skýrir.

Önnur leiðin er að reyna að minnka skaðann: Þá verður risastór faraldur, heilbrigðiskerfið kaffærist, milljónir munu láta lífið, og vírusinn mun ná að stökkbreytast hraðar.

Hin leiðin er að berjast. Skella í lás í nokkrar vikur til að skapa svigrúm í tíma, búa til betri aðgerðaáætlun, og halda vírusnum í skefjum þar til við finnum bóluefni.

Ríkisstjórnir víða um heiminn í dag, þar á meðal í löndum eins og Bandaríkjunum, Bretlandi, Sviss og Hollandi hafa hingað til kosið að reyna að minnka skaðann.

Þetta þýðir að þær eru að gefast upp án þess að reyna að berjast. Þær sjá að öðrum þjóðum hefur tekist í sinni baráttu, en þær segja: “Við getum ekki gert þetta!”

Hvað ef Churchill hefði sagt það sama? “Það eru nasistar út um allt í Evrópu. Við getum ekki barist á móti. Gefumst bara upp.” Þetta er það sem margar ríkisstjórnir um allan heim eru að gera í dag. Þær eru ekki að gefa ykkur tækifæri á að berjast við þetta. Þið þurfið að fara fram á það tækifæri.

Því miður eru milljónir lífa enn í húfi. Deildu þessari grein — eða hvaða svipaðri grein sem er — ef þú heldur að það geti fengið fólk til að skipta um skoðun. Leiðtogar okkar þurfa að skilja þetta til að koma í veg fyrir hræðilega niðurstöðu. Tíminn til aðgerða er núna.

Upphaflega birt á ensku, 21. mars 2020, á https://medium.com

Fótur upprunalegrar greinar á ensku fylgir hér að neðan, óþýddur:

If you agree with this article and want the US Government to take action, please sign the White House petition to implement a Hammer-and-Dance Suppression strategy.

Buy Us Time to Fight the Coronavirus and Save Millions of Lives with a Hammer-and-Dance Suppression…

Our healthcare system is collapsing. It will only get worse. Mitigation-”flattening the curve”-isn’t enough. We must…

petitions.whitehouse.gov

If you are an expert in the field and want to criticize or endorse the article or some of its parts, feel free to leave a private note here or contextually and I will respond or address.

If you want to translate this article, do it on a Medium post and leave me a private note here with your link. Here are the translations currently available:

French
Chinese (Traditional)
German
Vietnamese
Turkish
Polish

This article has been the result of a herculean effort by a group of normal citizens working around the clock to find all the relevant research available to structure it into one piece, in case it can help others process all the information that is out there about the coronavirus.

Special thanks to Dr. Carl Juneau (epidemiologist and translator of the French version), Dr. Brandon Fainstad, Pierre Djian, Jorge Peñalva, John Hsu, Genevieve Gee, Elena Baillie, Chris Martinez, Yasemin Denari, Christine Gibson, Matt Bell, Dan Walsh, Jessica Thompson, Karim Ravji, Annie Hazlehurst, and Aishwarya Khanduja. This has been a team effort.

Thank you also to Berin Szoka, Shishir Mehrotra, QVentus, Illumina, Josephine Gavignet, Mike Kidd, and Nils Barth for your advice. Thank you to my company, Course Hero, for giving me the time and freedom to focus on this.

Stay on top of the pandemic

Stay current with comprehensive, up-to-the-minute information, all in one place, at the new Medium Coronavirus Blog. Sign up for our Coronavirus newsletter here.

Thanks to Tito Hubert, Genevieve Gee, Pierre Djian, Jorge Peñalva, and Matt Bell.

--

--