Íslenskt kísiljárn í öldudal

Samninga­viðræður hafa nú staðið yfir nokk­uð lengi milli Lands­virkj­un­ar (LV) og járn­blendi­verk­smiðju Elkem á Grund­ar­tanga, um mögu­leg áfram­hald­andi raf­orku­kaup þeg­ar nú­ver­andi samn­ing­ur renn­ur út á ár­inu 2019. Þar má telja lík­legt að LV vilji að raf­orku­verð­ið tvö­fald­ist eða jafn­vel rúm­lega það. Í þess­ari grein er athygl­inni beint að þró­un­inni á mark­aði fyrir kísil­járn og og því hver­ig hér gæti orðið tíma­bund­in ver­uleg um­fram­afkasta­geta í raf­orku­kerf­inu ef ekki verð­ur samið.

LV og Elkem ósamstíga gagnvart orkuverði

Járnblendi­verksmiðja norska (kín­verska) Elkem á Grund­ar­tanga hef­ur oft skil­að góðri af­komu vegna hins hógværa raf­orku­verðs sem verk­smiðj­an hef­ur not­ið. Og hún ræð­ur vel við veru­lega hækk­un á raf­orku­verð­inu núna þegar gamli orku­samn­ing­ur­inn er að renna út. Það yrði samt varla bragð­góð­ur biti að kyngja fyrir Elkem að raf­orku­reikn­ing­ur verk­smiðj­unn­ar hækki um helm­ing eða rúm­lega það, líkt og LV stefn­ir vafa­lít­ið að. Og það er sem sagt ennþá ósam­ið um áfram­hald­andi raf­orku­kaup Elkem eftir 2019.

Líklegast er að þarna ná­ist sam­an um áfram­hald­andi við­skipti, en um það er þó ekki unnt að full­yrða. Það er kannski til marks um að þarna sé enn­þá nokkuð langt á milli aðila, að frem­ur stutt er síð­an ekki náð­ust samn­ing­ar um við­bót­ar­orku til járn­blendi­verk­smiðj­unn­ar. Nú eru um sex ár síðan China National Blu­estar Group keypti norska Elkem. Ef hið kín­verska móð­ur­félag álít­ur verk­smiðj­una á Grund­ar­tanga á leið með að skila of litl­um arði, verð­ur henni vænt­an­lega lok­að.

Hvammsvirkjun og Holtavirkjun yrðu óþarfar í bili

Og hvað ef ekki semst? Járn­blendi­verk­smiðj­an kaup­ir um 1.100 GWst af LV á ári hverju, sem er veru­legt magn. Þetta jafn­gild­ir t.d. meiri raf­orku en fram­leidd er í Sigöldu­stöð, sem þó er fjórða stærsta vatns­afls­virkjun á Íslandi. Samn­ing­ur­inn við Elkem hefur því um­tals­verð áhrif á tekj­ur og af­komu LV.

Fyrirhuguð Hvammsvirkjun í Þjórsá.

Til saman­burðar má einn­ig nefna að raf­orku­notkun Elkem jafn­gild­ir u.þ.b. þeirri raf­orku­fram­leiðslu sem fyrir­hug­að­ar Hvamms­virkj­un og Holta­virkj­un í Þjórsá myndu skila sam­tals. Ef ekki semst milli LV og Elkem gæti LV því sleg­ið á frest áætl­un­um sín­um um að byggja um­rædd­ar tvær virkj­an­ir í neðri hluta Þjórs­ár. Og not­að ork­una sem nú fer til Elkem til að selja nýj­um við­skipta­vin­um. Óvíst er hvað það tæki lang­an tíma að finna slíka nýja kaup­end­ur, en það tæki vænt­an­lega nokkur ár.

Íslensk raforka er ekki uppseld ef ekki semst við Elkem

Það er engin óska­staða fyrir LV ef ekki næst að selja um­rædd­ar 1.100 GWst áfram til Elkem. Hlut­falls­lega eru við­skipti Elkem að vísu ekki mjög stór hluti af raf­orku­sölu LV. Und­an­far­ið hafa tekj­urn­ar af Elkem num­ið u.þ.b. 5% af heild­ar­tekj­um LV af raf­orku­sölu­samn­ing­um fyrir­tækisins, en Elkem ver­ið að kaupa um 8% af raf­orku­fram­leiðslu LV. Ef ekki semst þarf LV því að koma í verð um 8% af raf­orku­fram­leiðslu sinni þegar nú­ver­andi orku­samn­ing­ur við Elkem renn­ur út 2019.

Við þetta bæt­ist raf­orka inn á mark­að­inn sem ON ætl­aði að selja til Sili­cor Materi­als, en sá samn­ing­ur er nú fall­inn nið­ur. Það gæti því stefnt í tíma­bund­ið of­fram­boð af raf­orku eft­ir nokk­ur ár, þ.e.a.s. óþarf­lega mik­ið af afli til stað­ar. Og stað­an þá í reynd sú að raf­orka hér verði alls ekki upp­seld, líkt og mik­ið hef­ur ver­ið rætt um und­an­far­in misseri og ár. Ef aftur á móti verð­ur end­ur­sam­ið við Elkem er mjög lítið um raf­orku hér til að mæta eftir­spurn­inni sem almennt vex jafnt og þétt.

Verðstefnu Landsvirkjunar ógnað?

Í ljósi þess að þarna ennþá er ósam­ið við Elkem um raforkukaup eftir 2019 eru nokkuð óvæntar þær skýr­ingar sem komu fram um ástæð­ur þess að fram­kvæmda­stjóri markaðs- og við­skipta­þró­un­ar­sviðs LV lét nýlega af störf­um. Þar var skýr­ingi­n eink­um sögð vera sú að nú sé orðin „um­fram­eftir­spurn eftir raf­magni“. En með­an ósamið er um meira en þús­und GWst, sem gætu orðið á lausu eftir ein­ung­is um tvö ár, er lang­sótt að tala þeim nót­um að eftir­spurn eftir raf­orku sé svo mik­il að eng­in orka sé á lausu til að selja.

Þvert á móti er aug­ljós­lega bæði æski­legt og mikil­vægt fyrir LV að ná þarna við­un­andi samn­ingi. Gangi það ekki eftir gæti snögg­lega orð­ið um­fram­afl í ísl­enska raf­orku­geir­an­um, sem gæti orðið LV til vand­ræða í kom­andi samn­ing­um. Vand­inn sem þetta gæti skap­að myndi ekki birt­ast í snöggri verð­lækk­un á raf­orku, held­ur frem­ur því að ef nýir mögu­leg­ir við­skipta­vin­ir ísl­enskra raf­orku­fyrirt­ækja vita af 1.100 GWst á lausu er hætt við að erf­ið­ara verði fyrir LV að bjóða þau verð sem fyr­ir­tæk­ið hefur kynnt nýj­um við­skipta­vin­um síð­ustu ár­in. Samn­ings­staða LV myndi sem sagt veikj­ast eitt­hvað ef samn­ing­ur næst ekki við Elkem, en þó senni­lega of­mælt að tala um ógn við verðstefnu LV.

Tímabundið offramboð gæti myndast á íslenskum raf­orku­markaði

Umrætt ástand gæti minnt svo­lítið á þá stöðu sem LV lenti í um 1990 í kjöl­far þess að Blöndu­virkj­un var reist á á s.hl. níunda ára­tugar­ins án þess að tek­ist hefði að selja raf­ork­una. Um þetta seg­ir svo á vef fyrir­tækis­ins: „Árin frá 1982 til 1996 ein­kennd­ust af lít­illi aukn­ingu í eftir­spurn á raf­orku og eng­um árangri við að draga að erlenda fjár­festa í orku­frek­um iðn­aði til lands­ins. Lands­virkj­un byggði á þess­um ár­um Blöndu­virkj­un og marg­ir gagn­rýndu offram­boð á raforku.“

Þessi offjár­fest­ing í nýju afli á tí­unda ára­tugn­um veikti óhjá­kvæmi­lega bæði samn­ings­stöðu og af­komu LV. Og myndi ein­nig gera það í dag. Mun­ur­inn er þó sá að fjár­hags­leg staða LV núna er miklu sterk­ari en var þá og fyr­ir­tæk­ið því vel und­ir­bú­ið að tak­ast á við tíma­bundna um­fram­af­kasta­getu í kerf­inu hjá sér.

Blikur á lofti á kísiljárnmarkaði?

Munu samningsaðilarnir ná saman? Þarna tog­ast á sjón­ar­mið LV um að eðli­legt sé að samn­ings­verð­ið til Elkem hækki mjög veru­lega (senni­lega um u.þ.b. helm­ing eða rúm­lega það) og sjón­ar­mið Elkem um að mikil­vægt sé að fyrir­tæk­ið eigi áfram góð­an rekstrar­grund­völl hér á Íslandi. Þar má bú­ast við að Elkem vísi til stöð­unn­ar á mark­aði fyr­ir járn­blendi og þá kannski sér­stak­lega til þess að fram­boð af kísil­járni frá Kína gæti auk­ist veru­lega á kom­andi ár­um. Og þess vegna sé mik­il­ægt að tryggja sterka sam­keppnis­stöðu verk­smiðj­unn­ar á Grund­ar­tanga og því megi LV ekki verð­leggja raf­ork­una of hátt

Verðþróun á kísiljárni 2010–2016. Í dag (2017) er verðið nokkuð svipað og var 2015.

Kína er fyrir löngu orðið ráð­andi í járn­blend­inu og það meira að segja í miklu stærra hlut­falli en í ál­inu! Á allra síð­ustu árum virð­ist fram­leiðsla járn­blendi­verk­smiðja í Innri-Mongólíu í Kína hafa auk­ist hratt og vís­bend­ing­ar eru um of­fjár­fest­ingu og of­fram­leiðslu í þess­um iðn­aði í Kína. Enda fór verð á kísil­járni lækk­andi á árun­um 2015–2016 og er enn­þá frem­ur lágt.

Það hefur þó stutt við verðið að undan­förnu að kín­versk stjórn­völd hafa nú sett strang­ari um­hverfis­reglur, sem hafa orðið til þess að nokkrar kísil­járn­verk­smiðj­ur þar í landi hafa dregið úr fram­leiðslu sinni. Ef fram­leiðsl­an þar hrekk­ur aft­ur í gang gæti orð­ið vand­lifað fyrir járn­blendi­verk­smiðjur í lönd­um þar sem vinnu­aflið er nokk­uð dýrt og raf­orku­verð­ið að hækka. M.ö.o. þá er fram­tíð járn­blendi­verk­smiðj­unnar hér senni­lega í meiri óvissu en fram­tíð álver­anna. Lík­leg­ast er þó að all­ur þessi iðn­aður verði áfram far­sæl­lega starf­rækt­ur hér áfram, enda ætti LV að vera með á hreinu hvaða raf­orku­verð járn­blendi­verk­smiðjan þolir.

Kína allt um lykjandi og mögulegt að stáltoppnum verði senn náð

Þarna gæti þó skipt miklu að eftir­spurn eftir stáli í Kína kann að vera að nálg­ast há­mark, sbr. ný­legt álit grein­ingar­fyrir­tækis­ins risa­vaxna; Accenture. Þar með myndi hægja á eftir­spurn eftir kísil­járni um allan heim. Þró­un­in yrð­i mögu­lega svip­uð eða jafn­vel harka­legri en í ál­iðn­að­in­um; verð á kís­il­járni yrði síf­ellt háð­ara of­fjár­fest­ing­unni í kín­versk­um kísil­málm­iðn­aði. Og ef kín­versk stjórn­völd myndu lækka tolla á út­flutt kísil­járn myndi kís­il­járn óhjá­kvæmi­lega flæða frá Kína út á heims­mark­að­inn. Með til­heyr­andi verð­falli.

Smygl á kísiljárni er álitið þrýsta verðinu niður.

Slík­ur út­flutn­ing­ur frá Kína hef­ur reynd­ar far­ið vax­andi í formi smygls á kín­versku kísil­járni. Það eitt og sér er kannski ekki mik­ið vanda­mál, en get­ur þó skipt máli; um­rætt smygl hef­ur a.m.k. ein­hver áhrif á verð­mynd­un­ina. Það sem ger­ir svo málið alveg sér­stak­lega athyglis­vert er að norska Elkem er núna í í kín­verskri eigu, eins og áður var nefnt. Það verð­ur því sann­ar­lega fróð­legt að sjá hvaða af­stöðu Elkem hef­ur gagn­vart endur­samn­ingi um raf­orku­kaup frá LV.

Skammtímasamningur líklegastur

Það að ekki hefur verið samið sýnir að Elkem er ekki sátt við verð­hug­mynd­ir LV, hvort sem þar er um að ræða til­tek­ið fast verð eða verð­teng­ingu sem taki mið af raf­orku­verði á norræna raf­orku­mark­aðnum (svip­að eins og í ný­leg­um samn­ingi LV og Norð­ur­áls). Með verð­teng­ingu við norræna mark­að­inn stæðu báðir samn­ings­aðil­anna frammi fyrir mik­illi óvissu um verð­þró­un­ina. Og samkvæmt sér­fræð­ing­um á kísil­járn­mark­aði er tal­ið ólík­legt að Elkem sé til­bú­ið í slíka áhættu. Mögu­lega sé að Elkem að reyna að sann­færa LV um að fá þak á raf­orku­verð­ið; þak sem mið­ist við fram­virka samn­inga á norræna orku­mark­aðnum, enda myndi það draga úr áhættu Elkem af verð­teng­ingu við norræna raf­orku­verðið.

Stóriðjusvæðið á Grundartanga.

Mið­að við það hversu stutt er eftir að samn­ings­tím­an­um virðist skamm­tíma­samn­ing­ur lík­leg­ast­ur. Ef slík­ur samn­ing­ur yrði með teng­ingu við norræna mark­aðs­verð­ið (líkt og gert var milli Norð­ur­áls og LV á síð­asta ári) verða bæði álverið og og járn­blendi­verk­smiðj­an á Grund­ar­tanga kom­in á mjög sveiflu­kennt og ófyrir­sjá­an­legt raf­orku­verð, ótengt af­urða­verði. Gera má ráð fyrir að slík áhætta verði/ yrði til þess að draga nokk­uð úr atvinnu­öryggi á svæð­inu. Sem er eðli­leg­ur fylgi­kvilli þess þegar rekst­ur verð­ur háð­ari skamm­tíma­sveiflum, en ekki óska­staða fyrir eig­end­ur verk­smiðj­anna né fyrir starfs­fólk­ið.