Friðrik Halldór Ingi

Einn af æskudraumunum var að verða flugmaður. Og auðvitað kannaði ég hvort þetta væri rétti draumurinn fyrir mig. Fararskjótinn var oftast Friðrik Halldór Ingi; TF-FHI. Cessna 152.

Ég lærði að fljúga á Cessnunum hans Helga heitins Jónssonar. Þó með aðra flugkennara. Tók reyndar bóklega hlutann hjá Flugtaki. Þetta var veturinn 1985–86. Útskriftarveturinn í MH.

Það var talsvert ævintýri að læra að fljúga. Þrátt fyrir áratuga skólagöngu, lögfræðipróf, MBA, pungapróf, skellinöðrupróf og bílpróf, finnst mér ég eiginlega bara hafa tekið eitt alvörupróf. Sem er sólóprófið!

Það er afskaplega sérkennileg tilfinning að ýta bensíngjöfinni í botn og halda í loftið einn síns liðs. Í fyrsta sinn. Og svo sveima einn um loftin blá. Og lenda flugvélinni án nokkurs möguleika á aðstoð. Maður er einn um borð. Sannkallað alvörupróf. Sem líklega er vont að falla á.

Sólóprófið átti sér eiginlega engan aðdraganda. Þetta var hefðbundinn flugtími og endaði á nokkrum snertilendingum. Á braut 01. Samkvæmt gömlu log-bókinni, sem ég fann nýverið, var þetta þriðjudaginn 6. maí 1986.

Útskriftargrín í MH, vorið 1986. Stærðfræði, flug og Bowie voru í uppáhaldi.

Eftir síðustu lendinguna keyrði ég vélina inn á stæði og ætlaði að fara að drepa á hreyflinum. Þá spurði kennarinn allt í einu upp úr þurru, hvort ég vildi ekki bara skella mér í sóló? Og vinkaði bless. Ég ók af stað og fór aftur í loftið — einn. Tók fáeinar snertilendingar uns kom að lokalendingu. “Halldór Ingi -þetta er lokalending”. Og flugumferðarstjórarnir létu sem ekkert væri. Þó svo þeir hljóti að hafa séð hversu svakaleg ein snertilendingin var. Þegar ég fór aftur í loftið eins og korktappi sem skýst úr kampavinsflösku, ennþá með flapsana niðri í 30 gráðum! Það var all svakalegt.

Sólóprófið var í höfn. Þar eru bara tveir möguleikar á einkunn. Núll eða tíu!

Reyndar varð flugið ekki það sem ég lagði fyrir mig í lífinu. Til þess var flugáhuginn ekki nægilega mikill. En þetta var bráðskemmtilegt. Sérstaklega eru mér minnisstæðar nokkrar snjóavikur snemma árs 1986. Var þá stundum talsvert verk að moka frá flugskýlinu, svo draga mætti relluna út á ísilagt planið. Svo var sett í gang og ýmsar kúnstir æfðar — oftast yfir Kapelluhrauni eða Hólmsheiði.

Stundum var skotist suður á Miðnesheiði og nokkrar snertilendingar teknar á Keflavíkurflugvelli. Maður hafði reyndar á tilfinningunni að flugumferðarstjórarnir í flugturninum á Vellinum hefðu gaman af þessum heimsóknum. Líklega ágæt tilbreyting á fremur dauflegum dögum, meðan beðið var eftir síðustu Flugleiðavélunum frá Ameríku. Því þetta var jú löngu áður en Ísland varð ferðmannaparadís og Keflavíkurflugvöllur þá meðal syfjuðustu alþjóðaflugvalla í veröldinni.

F-15 yfir Íslandi 1986.

Það var svolítið skrítin tilfinning að skríða þarna inn á “Halldóri Inga” eftir farþegaþotu frá Flugleiðum eða einni öskrandi F15 frá hernum. Þá gat Cessnan henst hressilega til í ókyrrðinni eftir þotuna. Og brautirnar í Keflavík voru eitthvað svo fáránlega langar fyrir litlu Cessnuna — maður hefði næstum getað lent þvert á braut!

Svo varð stundum mikið kapphlaup — eða öllu heldur kappflug — við éljabakkana a leið aftur til Reykjavikurflugvallar. Þá gat munað mjóu, enda vélin eins og lauf í hvirfilbyl ef hún lenti inní slíku éli. En alltaf gekk þetta farsællega og aldrei lenti ég í neinum bilunum né óhöppum í flugnáminu hjá þeim Helga og Jytte.

Helgi var jafnan tilbúinn með komment á lendinguna, þegar maður renndi flugvélinni inná planið við flugskólann, austur undir Öskjuhlíðinni. Svo sem hvort maður hefði verið að “reyna að klippa ofan af grenitrjánum”. Ef maður hafði komið helst til lágt yfir hlíðina á leið inn á braut 31. Og kímdi.

Henti svo bananakassa og appelsínum inní Mitsubishi-vélina og flaug til Kulusuk. Já — hann Helgi Jónsson var afskaplega eftirminnilegur karakter. En mér þótti stundum svolítið kuldalegt að horfa á eftir vélinni hans til Grænlands; fannst vanta að kallinn væri í hlýjum og góðum, gamaldags flugmannajakka! Sjálfur átti maður auðvitað einn slíkan. Enda dreymdi mann þá um framtíðarævintýri á sjóflugvélum í Alaska.

Alfreð Elíasson

Flugmannajakkinn minn var næstum jafn flottur og hjá Alfreð Elíassyni. Sem hefur alltaf verið flughetjan mín, kannski mest vegna þess að gömlu sleðarnir frá Geysisferðinni sögulegu á Vatnajökul 1951, lágu alltaf vestan við Klaustur. Grotnuðu þar niður í mosanum, skammt frá Systrastapa. Manni var a.m.k. sagt að þetta væru sleðar úr þeirri miklu ævintýraferð. Þegar Alfreð og félagar grófu upp amerísku skíðaflugvélina á Bárðarbungu og flugu henni burt af jöklinum. Það þótti mér alltaf heillandi saga.

Svo breyttust flugmannsdraumarnir. Sem er kannski miður. Það hefði örugglega verið gaman að fljúga sjóflugvélum í Alaska. Það gerði ég reyndar löngu síðar — með stráksa mínum — en bara sem farþegar. Sem var reyndar barrasta mjög skemmtilegt!

Í óbyggðum Alaska haustið 2013. Á bjarndýraslóðum.

[Þessi grein birtist upphaflega á bloggvef Mogunblaðsins árið 2009 og birtist nú hér örlítið breytt].