Raforkuverðið til Elkem gæti tvöfaldast

Einungis eru um tvö ár þar til raforku­samn­ing­ur járnblendi­verk­smiðju Elkem og Lands­virkj­un­ar rennur út. Við­ræð­ur um end­ur­nýjað­an samn­ing hafa dreg­ist á lang­inn og nú er orð­ið ans­ið stutt eftir af samn­ings­tím­an­um. Til þessa hef­ur lít­ið frést af samn­inga­við­ræð­un­um opin­ber­lega, sem er ólíkt því sem var þeg­ar Norð­ur­ál átti nýverið í sams­konar við­ræð­um við Lands­virk­jun. Í þeim við­ræð­um var ýmsum með­öl­um beitt, líkt og þá­ver­andi yfir­lýs­ing­ar Lands­virkjunar og Norð­uráls báru með sér. Í þess­ari grein verð­ur ekki dval­ið við þá for­tíð, held­ur er hér athygl­inni beint að því álita­efni hvaða orku­verði lík­legt er að Lands­virk­jun stefni að vegna Elkem.

Samningurinn 2010 vegna álversins í Straumsvík sló tóninn

Á undanförnum árum hefur Lands­virkj­un (LV) endur­sam­ið um raf­orku­sölu til tveggja af fjór­um stærstu stór­iðju­fyrir­tækj­un­um. Árið 2010 var end­ur­sam­ið við ál­ver RTA/ÍSAL í Straums­vík. Þar varð verð­hækk­un­in á raf­ork­unni mjög mikil, en hafði orku­verð­ið skv. fyrri samn­ingi verið afar lágt. Nýi samn­ing­ur­inn við Straums­víkurverið er lang­tíma­samn­ing­ur; hann gild­ir til 2036 (er með end­ur­skoð­un­ar­ákvæði um raf­orku­verð­ið sem verð­ur virkt 2024). Orku­verð­ið í þess­um nýja samn­ingi er ekki tengt ál­verði, held­ur helst það í hend­ur við band­aríska neyslu­vísi­tölu (CPI).

Það er verð­hækk­un­in í þess­um nýja samn­ingi frá 2010 sem er grund­vall­ar­ástæða fyrir því hversu fjár­hagsl­eg staða LV er nú sterk. Enda er tal­að um þenn­an samn­ing sem krafta­verk Lands­virkj­unar sök­um þess hversu áhættu­lít­ill hann er og skil­ar góð­um tekj­um. Hitt stór­iðju­fyrir­tæk­ið sem LV hefur end­ur­sam­ið við er Norð­ur­ál, en sá nýi samn­ing­ur tek­ur ekki gildi fyrr en 2019.

Núverandi samningur LV og Elkem er „barns síns tíma“

Forstjóri LV hefur sagt gömlu raforku­samn­ingana við RTA/ÍSAL og Norð­ur­ál, sem um­rædd­ir nýir samn­ing­ar leysa af hólmi, vera „barn síns tíma“. Og vís­ar þar til þess hversu raf­orku­verð­ið í þess­um eldri samn­ing­um var lágt. Gera má ráð fyrir að LV hafi samskonar af­stöðu til samn­ingsins við Elkem, sem er um tutt­ugu ára gamall. Og stefn­i þar að mik­illi hækk­un á raf­orku­verðinu. Eftir stend­ur spurn­ing­in um hvort fyrir­tæk­in, þ.e. LV og Elkem, muni ná sam­an og þá á hvaða nót­um. Hér má minn­ast þess að und­an­far­ið hef­ur ekki geng­ið alltof vel hjá þeim að semja, sbr. ný­ver­ið þeg­ar reynt var að semja um að­gang Elkem að við­bót­ar­orku. Þar mun hafa strand­að á ólík­um verð­hug­mynd­um.

Raforkuverð á samkeppnismörkuðum hefur lækkað

Þegar LV gerði samn­ing­inn við RTA/ÍSAL árið 2010 var margt sem benti til þess að heild­sölu­verð á raf­orku í á helstu sam­keppn­is­mörk­uð­um LV yrði nokk­uð hátt á kom­andi árum. Sem skýr­ir vel af hverju RTA/ÍSAL féllst á að upp­hafs­verð­ið í nýja samn­ingn­um yrði ná­lægt 25 USD/MWst (með flutn­ingi var samn­ings­verð­ið rúm­lega 30 USD/MWst).

Þar með var sleg­inn sá tónn af hálfu LV að raf­orku­verðið í öðrum kom­andi stór­iðju­samn­ing­um sem kæmu til end­ur­nýjun­ar yrði a.m.k. yfir 30 USD/MWst (þeg­ar flutn­ings­kostn­að­ur er inni­fal­inn). Og færi hækk­andi eft­ir því sem banda­rísk neyslu­vísi­tala (CPI) hækkaði. Miðað við hækkun CPI má ætla að raf­orku­verð­ið til Straums­vík­ur með flutn­ingi nálg­ist nú 35 USD/MWst.

En það er athygl­is­vert að síð­an samn­ing­ur­inn sá var gerð­ur árið 2010, hef­ur raf­orku­verð á helstu sam­keppn­is­mörk­uð­um LV m.t.t. stóriðju lækk­að tals­vert. Fyr­ir vik­ið er ekki leng­ur eins aug­ljóst að raf­orku­verð í end­ur­nýj­uð­um samn­ing­um við stór­iðju á Ís­landi verði svo hátt sem Straums­vík­ur­samn­ing­ur­inn gaf tón­inn um.

Óljóst hversu mikilli hækkun nýr samningur við Norðurál skilar

Umrædd lækkun á heild­sölu­mörk­uð­um raf­orku erlend­is síð­an 2010 er senni­lega helsta ástæða þess að sam­ið var á allt öðrum nót­um þegar LV og Norð­ur­ál (Century Alu­min­um) náðu loks sam­an um end­ur­nýj­un raf­orku­samn­ings árið 2016. Nið­ur­stað­an var að not­ast við raf­orku­verð­ á norræna raf­orku­mark­aðn­um sem við­mið­un. Sá samn­ingur á því lítið sam­eig­in­legt með samn­ingnum vegna ál­vers­ins í Straums­vík nema það að verð­teng­ing við álverð fór út.

Stóriðjusvæðið á Grundartanga.

Þessi nýi samn­ing­ur milli Norð­ur­áls og LV frá 2016 gild­ir bara í ör­fá ár; 2019–2023. Ekki er víst hvaða orkuverð verð­ur þá á norræna raf­orku­mark­aðn­um. Engu að síður er senni­legt að LV hafi vænt­ing­ar um að verð­teng­ing­in við norræna mark­að­inn muni skila um eða yfir 100% hækk­un á raf­orku­verð­inu til Norð­ur­áls. Þá er mið­að við það raf­orku­verð sem Norð­ur­ál var að greiða LV árin 2015 og 2016, en þá var orku­verð­ið þar án flutn­ings í ná­grenni við 12 USD/MWst. Hækk­un á raforku­verð­inu um 100% eða rúm­lega það myndi skila orku­verði upp á um 30–35 USD/MWst þeg­ar flutn­ing­ur­inn er tek­inn með.

Elkem kaupir um 8% orkunnar en borgar aðeins um 5% teknanna

Lang­mest af tekj­um LV af raf­orku­sölu­samn­ing­um fyrir­tækis­ins koma frá ál­veri RTA/ÍSAL í Straums­vík; sá við­skipta­vinur skil­ar LV um þriðjungi af tekj­um fyr­ir­tækis­ins vegna raf­orku­sölu­samn­inga þó svo Straums­vík­in kaupi ein­ungis um fjórð­ung af raf­orku­fram­leiðslu LV (sbr. tafl­an hér að of­an). Þá fær LV líka mjög hátt hlut­fall tekna sinna með almennri heild­sölu, þ.e. raf­orku­sölu­ til annarra orku­fyrir­tækja og til Lands­nets.

Salan til Elkem nem­ur ein­ung­is um 8% af raf­orku­sölu LV, þ.e. þegar mið­að er við raf­orku­magn­ið. Þó svo þetta sé ekkert mjög hátt hlutfall þá er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir LV að ná fram aukn­um tekj­um frá Elkem, enda er Elkem núna ein­ungis að skila LV um 5% af tekj­um fyrir­tækis­ins af raf­orku­sölu (þegar flutn­ings­kostn­að­ur er með­tal­inn). Þegar þessi hlut­föll eru bor­in sam­an við hlut­föll­in vegna RTA/ÍSAL (sbr. tafl­an hér að neðan) sést vel hversu hlut­falls­lega lágt raf­orku­verð­ið til Elkem er.

Landsvirkjun vill sennilega meira en 100% verð­hækkun

Líklegt er að LV stefni að því að nýr raf­orku­samn­ing­ur við Elkem muni skila fyrir­tæk­inu tekju­aukn­ingu sem nem­ur um eða yfir 100% m.v. það orku­verð sem Elkem hef­ur ver­ið að greiða LV upp á síð­kast­ið. Sem merkir að tekju­aukn­ing LV vegna Elkem yrði á bil­inu ca. 2–2,5 milljörð­um króna, líkt og sýnt er á graf­inu hér að neð­an.

Slíkt yrði mik­il tekjuaukn­ing þegar haft er í huga að und­an­far­ið hafa tekj­ur LV af raf­orku­sölu­samn­ingnum við Elkem ein­ung­is num­ið ná­lægt 2 milljörð­um króna (tekj­urnar ásamt flutn­ings­kostn­aði). Verð­hækk­un á bil­inu 2–2,5 milljarð­ar króna myndi verða hrein við­bót við hagn­að LV. Og sá aukni hagn­að­ur gæti mest all­ur farið í kær­komna aukn­ingu á arð­greiðsl­um Lands­virkjunar.

Tekjuskipting LV af raforkusölusamningum rekstrarárið 2016.

Tafl­an hér að of­an sýnir tekju­skipt­ingu LV árið 2016. Það ár námu tekj­ur LV vegna raf­orku­sölu­samn­ing­a alls um 42 milljörð­um króna (þá er flutn­ings­kostn­að­ur­inn með­tal­inn þar sem það á við). Nákvæm­ari grein­ing og upp­lýs­ing­ar um skipt­ingu tekna LV og um sér­hvert samn­ings­verð verða ekki birt­ar hér. En eru í boði fyrir við­skipta­vini grein­ar­höf­und­ar, þ.m.t. upp­lýs­ing­ar í við­kom­andi samn­ings­mynt. Einnig eru í boði upp­lýs­ing­ar til mark­aðs­aðila um það hvaða raf­orku­verð orku­fyrir­tæk­in hér hafa ver­ið að bjóða nýj­um við­skipta­vin­um síð­ustu misseri og ár.

[Þessi grein birtist upphaflega á vef Kjarnans]

Ketill Sigurjónsson

Written by

Hér birtast hugleiðingar um hin ýmsu málefni; einkum um orkumál. Höfundur er 2ja barna faðir, bjartsýnn um góða framtíð mannkyns með vísindin að leiðarljósi.

Welcome to a place where words matter. On Medium, smart voices and original ideas take center stage - with no ads in sight. Watch
Follow all the topics you care about, and we’ll deliver the best stories for you to your homepage and inbox. Explore
Get unlimited access to the best stories on Medium — and support writers while you’re at it. Just $5/month. Upgrade