Jólasaga

Eftir Gígju Ketilsdóttur og Ketil Berg Magnússon

Það glitraði á eitthvað þarna í húminu á miðjum Skólavörðustígnum á þessum dimmasta degi ársins. Þegar Áskell kom nær sá hann að þetta var myndavél í hulstri. Einhver virtist hafa misst hana á miðri götunni. Hann tók hana upp og leit í kringum sig. Skyldi eigandinn enn vera í nágrenninu? Það var snemma morguns og fáir á ferli. Einstaka dúðaðir ferðamenn að spóka sig í rólegheitum. Enginn þeirra virtist vera líklegur eigandi myndavélarinnar.

Áskell velti svörtu myndavélahulstrinu í höndum sér og reyndi að átta sig á því hvernig hann gæti fundið eigandann. Hann opnaði það til að sjá hvort þar væri að finna merkingu með nafni eigandans. Þar var engin merkimiði og heldur ekki í litlum vasa á hulstrinu. Áskeli fann að hann varð spenntur þegar hann sá að þetta var eins myndavél og Þóra bekkjasystir hans hefði fengið í tólf ára afmælisgjöf um daginn; Nikon Coolpix. Þetta var vatnsheld myndavél og hentaði vel fyrir íslenskar aðstæður, eins og Þóra hafði sagt. Áskell hafði sett svona vél á jólagjafalistann sinn og var að vonast til að mamma hans og eldri systur myndu slá saman í svona gjöf fyrir hann.

Hvað var til ráða, hugsaði Áskell. Hann gæti farið með myndavélina á löggustöðina, en það tæki tíma og mamma hans hafði sagt honum að flýta sér í Sandholt bakaríið að kaupa súrdeigsbrauð til að taka með í laufabrauðsskurð fjölskyldunnar. Hann gæti líka bara skilið hana eftir á steinhleðslunni við gangstéttina. Þá gæti eigandinn fundið hana þegar hann færi að leita. Hann leit niður Skólavörðustíginn. Eftir smá stund myndu verslanirnar opna og fjöldi fólks kæmi í bæinn til að kaupa jólagjafir. Hversu líklegt var að einhver annar en eigandinn myndi finna myndavélina og hirða hana? Áskell stakk myndavélinni í vasann og hljóp í átt að Sandholti.

Eins og venjulega var troðfullt í bakaríinu þegar hann kom. Hann tók númer og virti fyrir sér fólkið sem þarna stóð. Flestir virtust vera útlendingar. Hann heyrði afgreiðslukonuna tala ensku og par spjalla saman á tungumáli sem hann þekki ekki og benda á smurt brauð í gegnum glerið í uppljómuðu afgreiðsluborðinu. Áskell leit á klukkuna. Þarna voru allir svo rólegir og afslappaðir. Hann yrði seinn heim með brauðið. Áskell ákvað að halla sér að veggnum úti í horni og bíða eftir að röðin kæmi að honum. Hann tók upp myndavélina, kveikti á henni og byrjaði að fletta í myndasafninu. Skyldi eigandinn kannski vera þarna með honum í röðinni. Ætti hann kannski að veifa myndvélinni og segja „Have you lost your camera?“. Hann þorði ekki að gera það, en passaði sig að fela ekki myndavélina þegar hann fletti myndum. Kannski sæi hann eigandann á myndunum eða fengi vísbendingu um hver hann var.

Fyrsta myndin var tekin um borð í flugvél. Brosandi kona sat í gluggasæti og benti á gluggann. Á næstu mynd var sama kona í rútu og Áskell þekkti hraunið og fjöllin sem sáust út um hliðarrúðuna fyrir aftan hana. Þetta var á leiðinni frá Leifsstöð. Svo komu nokkrar myndir í viðbót af konunni með töskur á gangstétt. Alltaf brosandi og stundum hallaði hún undir flatt. Áskell fletti áfram og sá mynd af ungum manni með skegg. Hann var með bakpoka og brosti mjög svipuðu brosi og konan. Þarna voru margar myndir af sama fólkinu hjá fjöllum og fossi, og hver sem greinilega var Geysir. Síðasta sumar hafði Áskell farið með mömmu sinni þegar hún ók tveimur útlenskum vinum sínum í dagsferð. Þau höfðu verið á þessum sömu stöðum. Þetta var Gullni hringurinn. Það var gaman að sjá þessa staði þakta í snjó. Það var sól á myndunum og einhver blár bjarmi yfir öllu. Það var tignalegt að sjá Gullfoss í klakabrynju. Á einni myndinni voru bæði konan og maðurinn. Gullfoss var í bakgrunni. Þau voru greinilega mjög nálægt fossinum. Þau brostu bæði, með jólasveinahúfur á höfðinu og höfðu tekið vettlingana af sér, lyft höndunum í átt að myndavélinni og Áskell sá að þau voru með hringa. Ungi maðurinn var skælbrosandi en unga konan virtist vera meira hissa en brosandi. Næsta mynd var af fjalli og hún var hreyfð.

Áskell leit aftur yfir gestahópinn í röðinni í bakaríinu, enginn þarna inni líktist fólkinu á myndunum. „Númer fjörutíuogníu, Number fortynine“ kallaði afgreiðslukonan. Hann leit á miðann sinn. Það var komið að honum.

Þegar Áskell kom út úr bakaríinu með brauðið í poka var orðið margt um manninn á Laugaveginum. Hann hélt rösklega af stað í átt að Klappastíg en ákvað fljótlega að setjast á gluggasyllu og skoða fleiri myndir. Næstu myndir voru af alls kyns landslagi með unga fólkinu og síðan komu myndir teknar í Reykjavík að kvöldlagi. Myndir teknar inni á hóteli og frá kvöldverði á veitingastað. Ein var tekin af parinu upp eftir Skólavörðuholtinu þar sem maðurinn kraup á hnjánum fyrir framan konuna úti á miðri götu. Þetta var falleg mynd með jólaljósin allt í kring og Hallgrímskirkjuna uppljómaða í bakgrunni. Þetta var síðasta myndin í myndavélinni. Áskell leit á klukkuna. Þau voru þegar orðin of sein í fjölskylduboðið og mamma hans var örugglega orðinn pirruð að bíða svona lengi. Hann reis á fætur og hljóp af stað.

Áskell þaut áfram og smeygði sér framhjá fólkinu á Laugaveginum. Skyndilega gekk maður með barnavagn þvert í veg fyrir hann svo hann þurfti að styðja sig við barnavagninn til að stoppa. Maðurinn leit illilega á hann og hélt áfram. Áskell horfði á eftir manninum fara upp á gangstéttina og allt í einu tók hjartað kipp. Hann kannaðist við þennan glugga og þetta þetta afgreiðsluborð þarna fyrir innan. Hann tók upp myndavélina og fletti fljótt í gegnum myndirnar. Þarna var það. Þetta var hótelið sem fólkið á myndunum hafði verði á. Áskell hljóp inn í móttökuna. Við afgreiðsluborðið var par með ferðatöskur að tala við afgreiðslumanninn. Hann þekkti þau um leið.

Þau voru með sömu húfurnar og í sama hlífðarfatnaðinum. Áskell rétti fram myndavélina og sagði, „excuse me, is this your camera?“. Fólkið leit við og Áskell sá sama brosið á manninum og sama undrunarsvipinn á konunni og hann hafði séð áður. Fólkið kom til hans og hrópaði upp yfir sig á tungumáli sem Áskell þekkti ekki. Þau voru óðamála og glöð. Áskell skildi þau ekki en fannst hann þekkja þau og vita hvernig þeim leið. Afgreiðslumaðurinn var staðinn upp og sagði honum að þau hefðu komið til hans í morgun og spurt hvort einhver leið væri að finna tínda myndavél. Þau væru á leiðinni út á flugvöll eftir dásamlega dvöl á Íslandi, fulla af dýrmætum minningum, en hefðu tínt myndavélinni á leiðinni heim á hótelið í nótt. Afgreiðslumaðurinn hélt áfram að túlka fyrir Áskel og sagði að fólkið vildi þakka honum fyrir. Þetta var besta jólagjöfin sem þau gátu hugsað sér.

Seinna um daginn sat Áskell við borðstofuborðið og skar laufabrauð heima hjá ömmu sinni með allri fjölskyldunni. Þar var mikið skrafað en hann komst loksins að og sagði þeim söguna af myndavélinni. Mamma hans og Agnes systir voru að heyra söguna í annað skipti og hann hann var ekki frá því að hann hefði séð keraljósið glitra í tári sem læddist niður kinnina á Agnesi þegar hann lauk frásögninni.

Jólasagan var samin á Vesturgötunni á aðventunni 2015

Ketill B. Magnússon

Written by

Samfélagsábyrgð, skólamál, stjórnun og rekstur ǀ Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð, HR, Heimili og skóli.

More From Medium

Welcome to a place where words matter. On Medium, smart voices and original ideas take center stage - with no ads in sight. Watch
Follow all the topics you care about, and we’ll deliver the best stories for you to your homepage and inbox. Explore
Get unlimited access to the best stories on Medium — and support writers while you’re at it. Just $5/month. Upgrade