Líf óskast leigt ódýrt (má vera á landsbyggðinni)

Á einhverjum tímapunkti hætta skattar að vera “gjaldið sem maður greiðir fyrir siðmenningu” (sem er vitanlega holdgerving óraplágunnar í nútímasamfélagi) og verða að leigu.

Þegar lífið er svo ofsalega háð tiktúrum ríkisins hlýtur þetta að teljast réttnefni á sköttum: lífsleiga. Nýjast í fréttum er að Þjóðskrá afgreiðir nú endurnýjun vegabréfa á 17 dögum í stað 9 og fyrir 12.300 kr. Einnig er hægt að fá hraðmeðferð fyrir aðeins 24.000 kr. Það getur ekki talist mikið. Vegabréfið er eins og lífslánsskírteini. Með vegabréfinu sýni ég öðrum ríkjum að líf mitt sé þegar á leigu og í eigu annars lénsherra sem er svo stór í sér að hann er með samninga við helstu lénsherra heimsins um frjáls ferðalög fyrir mig. Góðmennskan lekur af þessum vandaða herra. Ef ég gleymi skírteininu á ég ekki annarra kosta völ en að leita í sendiráðið mitt. Þar vinnur gott fólk — einnig með líf sín á leigu — boðið og búið til að aðstoða mig við að sanna eignarhald lífs míns. Annars gerist eitthvað Slæmt, hið stóra Bóbó.

Erfitt er fyrir mann eins og mig að setja sig í spor valdhafans, lénsherrans. Sá góði Herra situr í moldarkastala (því hann er víst mjög hógvær og vel menntaður) í miðbænum og dikterar leiðir til að pynta mig fyrir óhlýðni og féflétta mig fyrir lífsviljann. Nýjasta hugmyndin er að selja órannsakaða neftóbaksdollu með hrossataði á 3000 kr., sem getur nú ekki talist mikið. Ég nota ekki einu sinni tóbak en samt er þetta mér kvöl, fyrir hönd allra þeirra góðu manna sem ég þekki og nota tóbak til að skafa burt grámann úr leigðri tilverunni.

Samt er nú hægt að lifa án tóbaksins. Maður gæti til dæmis óskað eftir leyfi til skotvopnaeignar og svo kvóta til veiða á dýrum Krists í Guðsgrænni náttúrunni, sem Herrann er búinn að kasta eign á eins og allt annað. Hann er með sérstaka nefnd í eignir Krists: Óbyggðanefnd. Ég sá einu sinni meðlim nefndarinnar fara á fund hennar og hef æ síðan velt fyrir mér hvers vegna Guðsmaður af hans sort er með horn á hausnum? Það er margt skrítið í kýrhausnum. Ætli maður endi ekki á að horfa á sjálfstilvísandi Ríkisútvarpið röfla um grútleiðinlegu 50 árin sem það hefur markvisst reynt að murka alla vitsmuni og ástríðu úr lífsleigjendunum. Og halda minningu Jónasar frá Hriflu í heiðri.

One clap, two clap, three clap, forty?

By clapping more or less, you can signal to us which stories really stand out.