Fjögur hjól

Ég get ekki útskýrt ástríðu mína, hún er bara. Ég ólst upp í kringum bíla, á mínu heimili hefur alltaf verið einn flottur bíll, í það minnsta. Fleiri í dag. Föðurættin mín er á bólakafi í bílum, nær allir bræður föður míns hafa komið að rekstri bílaleiga og öll systkinin þurftu að læra á erfiða bíla í uppeldinu.

Flest myndum við skilgreina erfiðan bíl sem svo: bíll sem bilar. En fyrir 50 árum var erfiður bíll Land Rover…eða enn verra, GAZ. Þ.e.a.s. sóvéskur freðmýrarvagn. Sjáið fyrir ykkur rennandi blauta ryðhrúgu með vitamáttlausa, pínulitla díselvél, níðþunga gírstöng og enn þyngra stýri. Eiginlega bara hestvagn. Bíllinn minn er eins og geimskip miðað við þetta rusl. Málið er nú samt að maður lærir best að umgangast bíla af því að umgangast lélega bíla. Maður lærir að bera virðingu fyrir bílnum því hann er viðkvæmur og gæti launað manni óvildina, rétt eins og góður hestur. Þetta gildir um alla bíla. Áhrifin eru bara tímabærari sé bíllinn gamall og slitinn.

einhversstaðar á suðurlandi eða paradís

Japönsk skilvirkni

Frá 1991 hefur alltaf verið a.m.k. 1 japanskur pallbíll á heimilinu. Frá 1993 átti faðir minn Toyota Hilux með 2.4L díselvél (ath. ekki turbo! ef þú skilur ekki hvað talan þýðir, smelltu hér) og ferðaðist á honum 388.000 kílómetra áður en hann seldi bílinn fyrir gott verð 2014. Það er einu sinni til tunglsins. Hann bilaði aldrei. Ég meina það. Auðvitað þurfti að skipta um bremsur, tímareim, slitfleti í drifkerfi og annað slíkt sem slitnar einfaldlega með tíma. Pabbi sótti mig í skólann á þessum bíl þegar ég var lítill og ör krakki. Þessi bíll er þannig að sama hvar ég er/verð, þá mun ég alltaf þekkja hljóðið. Sérstaklega þegar hann startar. Pabbi harðbannaði mér að slökkva á miðstöðinni — hún kynni að fara ekki aftur í gang. Hmmm. Áhugavert fyrir tæknisinnaðan snáða, eins langt og það nær (á þeim tíma náði þetta aðallega til óseðjanlegrar löngunar minnar til að rífa allan skapaðan hlut í sundur).

Svo keypti pabbi Mercedes Benz. Þá breyttist eiginlega allt. Hann átti Benz fyrir 40 árum síðan, nokkuð flottan, m.v. sögurnar. Í kringum 2000 keypti hann gulllitaðan SEL420. S-ið stendur fyrir sonder sem þýðir sérstakur á þýsku. L-ið stendur fyrir lengdan bíl. E-ið er bara þarna til að fylla upp í. Þessi týpa hefur frá 1973 verið dýrasti og flottasti fólksbíllinn sem Benz framleiðir, notaður af þjóðhöfðingjum, viðskiptajöfrum og öðrum greifum. Starfsmenn verksmiðjunnar í Sindelfingen gáfu vinnu sína til að smíða rauðan svona handa Nelson Mandela þegar honum var sleppt úr fangelsi.

Nelson heilsar lýðnum eftir þægilega bílferð.

Áhrif þessa bíls á mig eru og verða varandi.

Þennan bíl átti faðir minn til 2003 eða 4, þegar honum var stolið af blindfullum manni sem velti honum 9 veltur, steig út úr bílnum og var ómeiddur, þrátt fyrir beltisleysi. Bíllinn var gjörónýtur, ein hurðin að aftan var heil, annað ekki. Pabbi keypti fljótlega annan. Sá var grár, ekki lengdur en með sömu 4.2L V8 vélina sem hinn hafði, 1988 árgerð. Þarna var ég 9 ára eða svo. Ég man ekki nákvæm ártöl. Ég var allavega of ungur til að njóta svona bíls sem einhvers annars en bara flotts bíls. Bílaáhugi minn var aðallega út af 2 Fast 2 Furious, sem ég horfði oft á. Þetta heillaði mig sko. Í dag finnst mér þetta frekar kjánaleg mynd, en ég horfði á 7. myndina um daginn og hef sjaldan skemmt mér jafnvel — einmitt vegna þess hve léleg myndin var.

Spólum nú fram til 2011. September. Ég varð 16 ára. Ég hafði beðið með óbærilegri óþreyju í þrjú ár eftir æfingaakstrinum. Svo kom hann og allt breyttist. Pabbi keypti annan Benz 2006, enda hrifinn. Sá var 1993 árgerð 300D (3.0L dísel-línuvél). Sá er ekinn 280.000 km í dag. Slíkir bílar eru frægir fyrir að endast eilíft. Farðu til mið-austurlanda eða Afríku og annarhver leigubíll er af þessari gerð eða eldri. Að baki þessum bíl býr svo falleg hugsjón. Ég æfði mig á hann. Ekki kraftmikill, með mjög þunga olíugjöf og hæga sjálfskiptingu. Ég fór að keyra pabba í allskonar erindum, við hvert tækifæri sem gafst. Síðan fékk ég prófið 16. október 2012 og byrjaði fyrstu vikuna á því að fljúga til Akureyrar til að sækja pallbíl sem pabbi hafði keypt. Ég lenti klukkan 4, kom á bílasöluna kl. 4:30 til að sækja pappíra og bílasalinn keyrði mig á dekkjaverkstæðið kl. 5. Þar beið hann á nýjum nagladekkjum. Akureyri er bölvað frostvíti á veturna. Ég held að frostið hafi verið 5 stig eða svo og hálka á öllum götum á Akureyri (og svo skemmtilega vill til að þær halla eiginlega allar). Ég var mjög stressaður, átti fyrir mér för um Víkurskarðið í myrkri. Svo sá ég að það var ekkert ljós á hraðamælinum. Ég varð að nota snúningsmælinn til að vita á hvaða hraða ég var. Þetta gekk allt vel. Mitsubishi gerir vel við sína góðu pallbíla. Við eigum nokkra svona í dag. Allir magnaðir.

Fyrsta árið með bílpróf var pabbi svo góður að lána mér oftast bíl. Þau forréttindi búa fæstir við, en svona geta menn þegar fleiri bílar eru en fólk á heimilinu. Ég var ýmist á Mitsubishi L200 (2.5L turbodiesel, 4x4)….eða stóra Benzanum. Þessi vetur meitlaði í steininn ástríðu mína fyrir bílum og hóf hana upp á æðra stig. Bílar voru ekki lengur flottir, þeir voru sturlaðir. Ég fann tilfinningar sem ég hafði fyrst fundið á fjórhjóli og vélsleða. Svo fann ég tilfinningar sem ég hafði aldrei fundið áður. Ég man eftir að ég hlakkaði til hvers einasta dags sem ég hafði Benzann. Að setjast inn í hann og fara af stað var mér þvílík unun. Ég minnist þess að keyra niður brekkuna á Bústaðavegi hjá slökkvistöðinni, skælbrosandi og hlæjandi af gleði.

Hinn eini sanni, á fallegum degi í júlí 2013.

Þarna var stóri Benzinn keyrður 180 þúsund kílómetra. Hann hafði lent í einhverju, ég man ekki hverju, sem leiddi til þess að undirlyfturnar bönkuðu stanslaust. Nú veistu ekkert um hvað ég er að tala, en ímyndaðu þér að bíll sem á að hljóma eins og farþegaþota fari að hljóma eins og gömul rella með hringmótor. Jamm. Tikk tikk tikk tikk tikk. Ekki flott. Ekki þýskt. Svo var háspennukeflið eitthvað dapurt. Einn morguninn fór hann ekki í gang því úti var rakt. Svo reykti hann kaldur og bara tveir hátalarar virkuðu (takmarkað). Einn morguninn kom hrikalegt hljóð á milli gíra í sjálfskiptingunni, hljóð eins og í vélsög. Ég tók strætó þann morguninn. Svo kom ég heim og allt var í fína lagi. Þessi bíll var með eiginleika manns, í það minnsta hests. Hann hafði skapgerð og sál. Við áttum yndislegt samstarf og góð samskipti. Sama hve gamall S-class er, þá fylgir honum alltaf dýrð. Þess naut ég líka. Ég vissi það ekki þá, nema kannski í undirmeðvitundinni, en fagurfræði skiptir meira máli en allt annað. Bíllinn endurspeglar karakter þinn. Jájá, þegið þið, lattelepjandi lopatreflar sem takið strætó. Munið hvað Thatcher sagði: Maður sem tekur strætó eftir 25 ára aldur er ónytjungur. Meira um þetta síðar. Förum ekki fram úr okkur. Hehe.

Ef ég ætti að líkja stóra Benzanum saman við annað farartæki kemur skriðdreki helst til hugar. Þú hefur aldrei nokkurntímann keyrt farartæki sem er líkt þessu nema þú hafir keyrt svona bíl eða skriðdreka. Ég hef keyrt hundruði tegunda bíla; lúxusbíla, pöpulsbíla, dráttarvélar, vélsleða, fjórhjól, sexhjól, trukka, meira að segja rafbíla. Ekkert líkist þessum bíl. Öryggistilfinningin er óviðjafnanleg. Bíllinn er hannaður svo heildstætt til að láta þér líða eins og þú sért mikilvægasti maður á jarðríki. Ég ímynda mér að Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands sem heldur evrópskum jaðarríkjum í heljargreipum, líði svona þegar hann situr í sínum eigin S-class. Krafturinn var ágætur, 224 hestöfl og slatti af togi, en ég beitti honum aldrei öfgafullt. Gamall bíll á inni þá virðingu að vera ekki stanslaust þeytt af stað eins og hverjum öðrum smábíl. Fegurðin felst í að fljóta af stað og njóta þess að sjá og finna vélina ryðja þyngdaraflinu fyrirhafnarlaust úr vegi. Svona stór vél getur ýmislegt. Fyrir venjulegan innanbæjarakstur fór hún ekki yfir 1700 snúninga. Þetta er reyndar orðið vinsælt í dag, 35 árum eftir að Benz byrjaði á því, nema að núna eru allir helvítis máttlausu smábílarnir með milljón gíra látnir húka í efsta gír á 40 km/h. Bíllinn minn fer ekki yfir 1500 snúninga, liggi mönnum ekki á. Benzinn var bara með fjóra gíra og var fljótur að skipta sér niður þegar mönnum lá á!

Ég gæti talað endalaust um þennan bíl. Við seldum hann 2014. Hann átti ekki langt eftir og þurfti að komast í hendur handlaginna manna sem gætu mögulega komið honum í lag, en til þess þurfti gagngera vélarviðgerð sem hefði kostað okkur milljón. Svo voru ryðblettir af saltinu á Seltjarnarnesi. Ég mun alltaf sakna hans og þreyja þrotlausa lífsbaráttu þangað til ég kem svona bíl aftur í fjölskylduna — annaðhvort kaupi ég hann sjálfur eða beiti áróðri til þess að aðrir geri það. Í dag eigum við 2001 árgerð S320. Hann er ágætur en jafnast ekki á við forföður sinn. Hann bilar meira enda troðfullur af tölvurusli sem gerir ekki annað en að gjörsneyða hann af sál og tilfinningum. Tölvur hjálpa við fjölmargt en línur af kóða geta ekki haft sömu tilfinningar og mekanískur búnaður og hliðræn stýrikerfi. Þetta er efni í sérfærslu.

Breyttir tímar

Eftir sat litli Benzinn með stóru, máttlausu díselvélina og Hiluxinn. Og svo bílaleiguflotinn, en við reynum að hlífa honum við daglegri vetrarnotkun í Reykjavík. Sumarið 2014 hafði pabbi þó haft á orði að ég þyrfti að eignast bíl. Um það ríkti samstaða á heimilinu, rúntþörf mín var plága fyrir veski föður míns og ósjálfstæðið pirraði mig æ meira. Við skoðuðum ýmsa bíla. Ég íhugaði 2004 árgerð Benz E200 K. Mér fannst hann eyða of miklu miðað við afl (13L/100km, 164hp). Við skoðuðum gamlan Benz C200. Ég hafði mikinn áhuga á 1990 árgerð Benz 190E með 2.6L bensínvél og beinskiptingu.

Litli Benzinn, 300D.

Einn ágætisdag í nóvember 2014 var ég á bílasölu á Höfða að skoða mig um, eins og menn gera. Ég sá fallegt grill í fjarska. Blátt húdd…svínsnasirnar þekktu. Grimmileg ljós. Þessi bíll greip athygli mína undir eins. Mér finnst hann hafa verið þarna fyrir mig. Þetta var blár BMW. Ég hafði heyrt um BMW, en kom úr Benz-fjölskyldu. Hafði samt alltaf áhuga. Menn sögðu mér að BMW væri grimmilegri útgáfa af Benz, meiri áhersla á tilfinningar og kraft en þægindi og þögn. Áhugi getur fljótt leitt unga menn í gönur…

Ég prufukeyrði bílinn og var heillaður. Þetta var engu líkt. Ég hef enn ekki keyrt bíl sem er líkur honum. Skriðdrekalegur. Þægur. En stutt í blóðugar tennur. Dyggur varðhundur sem hlýðir þungum bensínfæti án efasemda. Þægilegur fjölskyldubíll á daginn, stórhættuleg driftmaskína á kvöldin, hundelt af löggunni. Þennan bíl eignaðist ég 7. nóvember 2014 eftir mikið harðfylgi. Þá keyrður 136.500 km, eins og nýr að utan og innan og greinilega vel viðhaldið. Vélin er 3.0L 6-strokka línuvél, 231 hestafl. Ég hef keyrt hann 20.000 km síðan ég eignaðist hann. Við förum allt saman. Ég hef rekið BMW með 3.0L vél í 15 mánuði og gengur vel! Geri aðrir betur!

Síðan ég eignaðist hann hef ég endurskoðað eignarhaldið reglulega í ljósi eyðslu. Allajafna eyðir hann 14–15L/100km innanbæjar. Á slæmum degi, 16, á versta degi, 18. Þetta eru talsverðir peningar. Ég eyði háum fjárhæðum í að reka bíl sem ég gæti notað í allskonar aðra hluti, væri ég hið hefðbundna ungmenni. Ég kemst bara alltaf að þeirri niðurstöðu að þessi eyðsla sé þess virði. Ég fæ ótrúleg þægindi, munað, kraft, frelsi fyrir þennan pening. Svona bíll kostar nýr 12 milljónir — og ég á svona bíl! Ég! get gert hvað sem ég vil með hann! Leyfi veður. Semsagt ekki margt á þessum árstíma. En hvað er gaman við að eiga bíl sem er fínn (ég er í kvennó) við flestar aðstæður en aldrei geggjaður? Hamingja í lífinu fæst í hæðum og þeim fylgja alltaf lægðir. Lífið er skemmtilegt vegna þess að það er ekki línulegt. Ef við flytum öll á vegnu meðaltali hamingjunnar værum við óhamingjusöm. Ég átta mig á því að ég er þræll e.k. hugmyndafræðilegra hlekkja. Ég gengst sjálfviljugur undir þjáningu til að finna.

Óstjórn

Að eiga BMW er stundum þjáning, sjálfsskoðun, sársaukafull íhugun, en aðallega adrenalín og hjartsláttur. Að vissu leyti lífstíll, því lögreglan elskar unga menn á BMW með radarvara. Og miðaldra menn með hvítt duft í skottinu og xenon-ljósin. En þessi bifreið er mín útrás.

Örsjaldan er ég heppinn í umferðinni og næ einhvernveginn að græða á skrítnu vægi umferðar og heppni í ljósastýringu — ég næ fram ótrúlegri skilvirkni sem ég næði ekki ef ég hefði ekki þessa 231 öskrandi, viljugu hesta undir fætinum á mér. Þau augnablik eru mitt nirvana, eins kjánalega og það hljómar. Hjartsláttur og blóðþrýstingur rýkur upp og ég get ekki stillt mig um hlátur, jafnvel gleðiöskur.

Stirling Moss, einn frægasti ökuþór allra tíma, sem á óslegið met frá 1957 sagði:

“If everything seems under control, you’re just not going fast enough.”

Adrenalín er hormónið sem heilinn seytir út í blóðrásina þegar taugakerfið skynjar aðvífandi hættu. Það eykur blóðflæði um vöðvana og hækkar hjartslátt og blóðþrýsting. Þegar maður tekur áhættu til að ná fram ákveðnu markmiði hvatar það þetta hormón beint. Þegar maður er fyllilega við stjórn gætir áhrifa þessa ekki. En þegar maður tekur séns, þegar maður gefur bílnum stjórnina og líf sitt, í eitt andartak sem maður andar ekki af eftirvæntingu, þá streymir það. Þessi blanda leysir úr læðingi það sem gerir bestu kappakstursmenn í heimi: að geta víkkað eigin mörk í samstarfi við maskínu sem er ekki síður vönduð en rýmisgreind ökumannsins. Nú hljóma ég eins og brjálæðingur, skiljanlega. Þessir litlu sénsar sem ég hef tekið á mínum fólksbíl eru smávægilegir miðað við það sem Moss átti við. Ég er viðvaningur. Ég veit það.

Besti vinur minn
Show your support

Clapping shows how much you appreciated Kjartan Magnússon’s story.