Minning um Eggert

Þegar ég byrjaði að fá áhuga á málefnum andans og þarmanna (pólitík) reyndi ég strax að tjá hugmyndir mínar um efnið. Það hefur aldrei gengið sérstaklega vel, mér finnst ég allavega fá dræmar viðtökur. Sem er allt í lagi. Sannleikur minn getur Kristur einn sannað að mér dauðum, ekki Dómstóll Götunnar, skipaður lortum og loddurum.

Æ síðan hefur þankagangur minn leitt mig að þeirri niðurstöðu að þegar maður ætli sér að skrifa um eitthvað sé best að segja alls ekkert. Ef ég þarf að tjá mig um málefni er fyrsta hvötin að segja hreint út það sem mér finnst og færa fyrir því rök. Þetta er röng hvöt — hún ætti að vera að segja alls ekkert um efnið. Bara Eggert. Enda hefur eftirlætistjáningarformið mitt ævinlega verið tónlist, því hún er óræðin. Orðin eru svo öfgafull og kjánaleg. Alltof nákvæm. Tónlistin getur verið hvað sem er — þar er fegurðin í auga sjáandans. Ég gæti hafa hugsað um barnabækur Astridar Lindgren þegar ég samdi ákveðið tónverk en heyrandinn minnist vafasamrar kvöldstundar á skemmtistað í Bratislava. Fegurðin er svo mikilfengleg að tvíeining orðanna í hljóðinu er ekki nema sjálfsögð. Hljóðið klýfur málstöðvar heilans og út kemur merkingarlaust þvaður sem á hvergi heima nema í tætara. Þetta gildir um allt sem hrífur mann. Orðin um það eiga heima í tætara. Orð fá ekki fegurð lýst. Orð eru til að smygla sér inn á vafasaman skemmtistað í Bratislava eða segja frá ævintýrum munaðarlausrar stelpu sem á apa og hest. Til þess eru orð ansi góð.

Þar höfum við það. Ég hef núna undið þig, lesandi, eins og blauta tusku yfir niðurfall netheima. Fyrst bjóstu við minningu um mann, svo þóttist ég ekki ætla að skrifa um neitt en endaði á að tala um orðastyggð. Ég held að ég geti gengið sáttur frá þessu verki, sem fjallar ekki um neitt á almennilegan hátt. Mér þætti samt vænt um ef þú gætir sent ritstjórn Vísis þetta — hún er líkleg til að prenta þetta þvaður í bakþönkunum, sem er vitanlega draumur allra blaðrara. Takk.

Like what you read? Give Kjartan Magnússon a round of applause.

From a quick cheer to a standing ovation, clap to show how much you enjoyed this story.