Ráðunautur Leslistans: Arngrímur Vídalín

Image for post
Image for post

Sverrir Norland: Komdu hjartanlega sæll, kæri Arngrímur, velkominn í ráðuneyti Leslistans — þ.e. ef þú þekkist boðið — og innilegar hamingjuóskir með nýju skáldsöguna þína, Gráskinnu.

Undir áhrifum hvers konar bókmennta varstu þegar þú skrifaðir hana? Eða kom innblásturinn annars staðar frá, úr öðrum listgreinum eða jafnvel bara að himni ofan?

Arngrímur Vídalín: Sæll og blessaður og bestu þakkir, ég þigg boðið með þökkum.

Ég hef sennilegast verið undir mestum áhrifum frá miðaldabókmenntum ýmiss konar, altént í upphafi. Ég las töluvert af lærdómsritum um landafræði og skrímslislegar þjóðir, meðal annarra texta. Kannski ekki margir sem vita það en svoleiðis textar voru og eru ennþá til á forníslensku. Síðar í ferlinu dvaldi ég í Nýja Englandi og leyfði drungalegri sögunni þar að umlykja mig í um hálft ár. Ég var með nornafárið nokkurn veginn á heilanum allan tímann, las til að mynda A Modest Enquiry Into the Nature of Witchcraft, sem er vitnisburður prestsins Johns Hale frá fyrstu hendi af málunum í Salem. Mig hefur langað til að þýða bókina allar götur síðan. Þá dvaldi ég heilt misseri í Póllandi og að svo miklu leyti sem borg getur verið texti þá lúslas ég Katowice og Kraków á þeim tíma.

Nú, ég hafði náttúrlega eins og allir lesið minn skerf af Lovecraft. Einhvers staðar í miðju ferlinu að skrifa Gráskinnu var mér gefin The New Annotated H.P. Lovecraft sem er feiknarmikið rit. Ég held að tengsl þarna á milli séu tilfallandi því ég var löngu byrjaður á bókinni, en ef til vill ná áhrifin lengra aftur, þegar ég sem táningur las í fyrsta skipti um hina vofveiflegu Necronomicon. Gráskinnan mín er ekki síður bölvuð bók og þar byggi ég í senn á íslenskum þjóðsögum og mínum eigin hugmyndum um hvernig raunveruleg galdraskræða myndi vera. Þá gluggaði ég í bók í Harvard sem bundin var inn í manneskju, Des destinées de l’ame eftir Arsene Houssaye, en það var raunar einkum til að undirbyggja lýsingu mína á Gráskinnu — sem síðan varð öllu ógeðfelldari en sú bók.

Frankenstein hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og ég gat auðvitað ekki annað en vísað í Galdra-Loft fyrst ég var kominn á þessar slóðir. Einn yfirlesari minn vildi líkja Gráskinnu við Doktor Faustus og kannski er eitthvað til í því. Þetta er þannig lagað gömul saga og ný, þessi sem ég í kjarnann vildi segja. En leiðin þangað endaði á því að verða miklu meiri og dramatískari saga en ég í upphafi átti von á. Þannig vill það verða þegar persónurnar taka völdin af höfundinum.

SN: Hljómar allt saman virkilega spennandi og vekur áhuga — ég hlakka til að lesa bókina.

Sjálfur hef ég aldrei lesið Lovecraft — ég bara get það ekki; hvers konar hranaskapur er að slengja því fram að allir hafi lesið hann?! — en reyndar las ég nýlega stuttu bókina hans Michels Houllebecq um nefndan höfund, Contre le monde, contre la vie. (Svo frábær titill! — mótfallinn heiminum, mótfallinn lífinu.) Sú var fín, þekkirðu hana?

AV: Ég sá það náttúrlega um leið og ég hafði svarað að þetta var óþarfa alhæfing: auðvitað hafa langt því frá allir lesið Lovecraft. Ég get nefnt fjölmarga ættingja og vini sem hafa aldrei snert við bókum hans, og síðan aðra sem einfaldlega gera það ekki af viðbjóði á skoðunum höfundarins, sem stundum stela senunni í sögum hans þegar hann leyfir sér hinar andstyggilegustu lýsingar á fólki sem honum þótti óæðra sér — tala ekki um tengslin milli þess og sumra „úrkynjaðra“ skrímslanna sem hann lýsir. En hann skrifaði inn í vissan tíma og það gleymist stundum að kynþáttahyggja og kynbótastefna þótti hinn fínasti pappír í Bandaríkjunum þar til þeim laust saman við Hitler og félaga. Þá fyrst fór fólk að sjá að sér. En þetta var útúrdúr. Ég las, og les, Lovecraft — en auðvitað hafa það ekki allir, af ýmsum ástæðum.

Ég hef heyrt um bók Houellebecqs um Lovecraft en ekki lesið hana. Mér skilst að hún hafi vakið töluvert umtal meðal þeirra sem helst telja sig sérfróða um verk hans og að viðbrögðin séu misjöfn, eins og gerist þegar fólk hefur byggt allan sinn feril á verkum eins manns og þykist vita allt betur en síðasti spraðabassinn sem mætti í partíið. Ég hlakka til að lesa bókina þegar ég kemst í það.

SN: Og þá aftur á beinu brautina og lóðbeint að stöðluðu fyrsta skrefi í vígsluathöfninni í ráðuneyti Leslistans:

Ertu að lesa eitthvað skemmtilegt þessa dagana, og ef svo er — hvað? Og hvers vegna? Af hverju les maður? Og hvernig veit maður hvað á að lesa?

AV: Þessa dagana les ég ýmislegt í skorpum — mestmegnis þá texta og greinar sem ég kenni þá og þá vikuna að vísu, sem eru ósköpin öll af þjóðsögum og Íslendingasögum um þessar mundir, en einnig sitthvað til hliðar við. Ég las nýverið Þröskuldur hússins er þjöl eftir Arnfríði Jónatansdóttur, sem ég skal viðurkenna strax að ég hafði ekki áður heyrt um, og fann strax að hún þarf að komast betur inn í þá bókmenntasögu sem kennd er í skólum. Um leið held ég að það yrði nokkuð krefjandi að kenna hana, en það er líka það sem er skemmtilegast að kenna. Í sumar fór ég á frekar lélega uppfærslu á Manntafli eftir Zweig á Listahátíð (sem fyrrum leigusali minn í Bandaríkjunum flutti sem einleik), og það varð mér hvatning til að loksins lesa smásöguna. Einnig nýlega The Lies That Bind: Rethinking Identity eftir heimspekinginn Kwame Anthony Appiah, stórfróðleg bók þar sem hann tekst á við sjálfsmyndir á breiðum grundvelli og meðal annars leggur að velli hugtakið „vestræn menning“. Að minnsta kosti lét ég sannfærast. Hana hlustuðum við konan mín á saman sem hljóðbók á Audible, lesin af höfundinum. Allt sundrast eftir Chinua Achebe í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur sem Angústúra gaf út. Leigjandinn eftir Svövu Jakobs auk nokkurra smásagna hennar. Ég vildi að ég gæti lagt í púkkið eitthvað sorp sem ég hef nýverið lesið því hið illa þarf sinn stað á náttborðinu líka, en ég man ekki eftir neinu. Hef verið mjög heppinn með lesefni að undanförnu.

Ég sem kenni lestur og greiningu bókmennta velti þessu stundum fyrir mér: af hverju? Til hvers lesum við? Raunar er svar nemenda grátlega oft á þá leið að þau einmitt geri það ekki. En þetta er kannski eins og að velta fyrir sér hvað sé menning, og svarið getur verið: allt. Hvað er ekki menning? Til hvers lesum við ekki? Mér finnst það ekki síst vera þetta andlega samband sem við komumst í við annað fólk, á allt öðrum stað, jafnvel á allt öðrum tíma, fólk sem hugsar ekki endilega eins og við og hefur sitt eigið gildismat. Hinn svonefndi „fyrsti málfræðingur“ sem vildi samræma íslenskt stafróf á tólftu öld gæti í dag verið vanmetinn íslenskukennari í einhverjum framhaldsskóla. Ég kemst í tengsl við þetta sammannlega gegnum bækur, við aldirnar sem eru liðnar og við hliðar samtímans sem ég hafði ekki áttað mig á. Þetta sem Þórbergur kallaði „nið aldanna“, sem hann fann meðal annars með því að lesa hús. Mest les ég til að fræðast. Það er hægt að fræðast á öllum tegundum texta, líka textum sem eru falskir og illa unnir. Allir textar segja okkur eitthvað um þann sem skrifaði, um hvar hann skrifaði, um samfélagið. Sumt af því ratar svo inn í það sem ég sjálfur skrifa og þannig heldur hringekja hugsunar og hugsanalesturs áfram. En ég er ekki betri en svo í að átta mig á því hvað ég vil lesa að ég hætti oft í miðjum klíðum. Ef ég finn að ég í raun vil ekki lesa eitthvað, þá hætti ég. Þá get ég fundið eitthvað annað í staðinn og fer yfirleitt eftir hvatvísinni í þeim efnum. Ég er frekar hvatvís lesandi og stekk stundum á nýja bók í miðju kafi í annarri. Ekki gott mál. Og þó?

Hvaða listamaður, sem er í uppáhaldi hjá þér og ekki er rithöfundur, vildirðu óska að hefði verið rithöfundur því að viðkomandi hefði bókað sett saman svo ómótstæðileg skáldverk eða ljóð?

AV: Úff, þetta er svona spurning sem mér finnst ég varla getað svarað. Ef ég tæki Tom Waits sem dæmi þá kemst ég samt alltaf á endanum að þeirri niðurstöðu að hann segi sínar sögur einmitt best um þann miðil sem hann valdi sér. Þannig að mín er freistað að nefna þann sem myndlýsti Flateyjarbók, nánar tiltekið þann sem gerði myndina af Ólafi Noregskonungi að vega margýgi. Það er listamaður sem eflaust hefði getað miðlað ýmsu gegnum texta. Ef út í það er farið væri ekki síður fróðlegt að lesa texta eftir fyrsta mannfólkið sem tækileg vitni eru um, þau sem gerðu hinar fallegu hellismyndir sem við enn dáumst að.

SN: Hvaða rithöfundur fer í taugarnar á þér — og er þar með ekki í uppáhaldi — en hefur samt eitthvað svo ómótstæðilegt og einkennilegt aðdráttarafl á þig og þú lest því engu að síður, þér til óþurftar og pirrings?

AV: Gyrðir Elíasson. Hann skrifar vel — ekki eins vel og margir segja, en vel engu að síður. Sumt af því sem hann skrifar eru algjörar perlur en svo nær hann mér stundum á hælkrók svo ég veit varla hvaðan á mig stendur veðrið. Ég hef verið að líta aftur í þessar bækur um einsömlu listamennina sem kalla mætti þríleik. Á þessa þriðju eftir, Sorgarmarsinn, og hlakka til að lesa hana á einhvern hátt sem ég kann ekki að skýra. Stundum velti ég fyrir mér hvort Gyrðir sé að gera grín að lesandanum, þetta eru allt einhver grámóskuleg jarðtóna leiðindi miðaldra karla sem verja dögum sínum í frónkexát, kaffidrykkju og daður við áfengisfíkn meðan þeir reyna að skapa — og tekst auðvitað ekki að skapa neitt, hálfpartinn vanaðir í sinni sjálfskipuðu útlegð frá samfélaginu. Þetta verður nánast yfirdrifið eintónað og aðalpersónan verður álíka fjarlæg lesandanum og hún er öðrum persónum bókanna, ef um aðrar persónur er að ræða á annað borð. Þetta vekur áhuga minn á hátt sem ég kann ekki að skýra og þetta lýsir ágætlega þessu einverulífi listamannsins, en ég get ekki sagt að mér þyki þetta beinlínis skemmtilegt. Skemmtilegt er náttúrlega ekki rétta orðið einu sinni. Þetta eru bækur sem angra mig. En ég held líka að þær eigi að gera það. Og ég fæ ekki annað af mér en að lesa þær. Þannig að ef þetta er djók þá skal ég viðurkenna að það er alveg á minn kostnað. Kannski er það bara ég sem lesandi sem fer í taugarnar á sjálfum mér, frekar en höfundurinn? Svona fer Gyrðir með mig. Ef hann kemur að finna mig í fjöru fyrir þessi orð þá spyr ég hann út í þetta áður en hann leggur mig að velli.

SN: Í hvers konar veðri finnst þér best að lesa? Hvaða drykkur hentar best með ljóðlist? Hvaða snarl hentar best með fræðitextum og geturðu lesið skáldsögur meðan þú borðar?

AV: Mér finnst eins og mér ætti að þykja best að lesa í yl og hlýju með panamahatt og drykk með regnhlíf, en ég les aldrei með mikilli athygli nema í norðangarra og viðbjóðsveðri, helst ef afturgöngurnar og skafrenninginn leggur upp eftir öllum rúðum. Ég á betur með einbeitingu ef allt er vitlaust fyrir utan. Og raunar er einmitt best að lesa ljóð við slík skilyrði. Þá fer alveg eftir ljóðlistinni sjálfri hvað hentar best með henni, það er engin patentlausn þar. Sum ljóð krefjast þess að vera drukkin með þurru rauðvíni en önnur eru kaffiljóð. Ég veit ekki hvort ég gæti búið til drykkjarseðil fyrir mín eigin ljóð: koníak hér, Coors Light þar. Sennilega er best að lesa þau bara með tebolla eins og maður sé með hálsbólgu, vitandi að þetta líður hjá. En bestu ljóðin eru þannig að maður rankar við sér löngu eftir á og hefur hvorki fengið vott né þurrt. Áttar sig síðan á því að mann hefur fennt inni.

Um fræðitexta gilda allt önnur lögmál. Með fræðitextum, fjalli þeir á annað borð um bókmenntir, skyldi maður ætíð graðga í sig ostum af aðskiljanlegasta tagi. Það er að minnsta kosti það sem ég geri og því hef ég því miður engin ráð fyrir fólk sem kann ekki að meta osta. Það þarf alveg pínu bödjett í fræðalestur ef maður ætlar að njóta þess. Margir háskólanemar fá sér helst kaffi og kvíða með fræðunum, skrimtandi á námslánum og allt það, en það þarf að vera í algjöru hófi ef maður ætlar sér ekki að snappa. Fræðalestur er líka yndislestur. Ég les tuttugufalt meira af því á ári hverju en af skáldverkum svo mér verður að finnast það. Og fræðiskrif mega vel vera skemmtileg — enda eru þau það oft. Fræðigrein sem smá ostbiti eða graflaxsneið getur ekki gert bærilegri er kannski ekki þess verð að hún sé lesin.

Ef út í það er farið hittir spurningin mig nokkuð nærri, því frá unga aldri tamdi ég mér að skófla í mig þrem-fjórum skálum af morgunkorni yfir Andrésblöðum og þaðan hef ég stóran hluta míns orðaforða. Svo ég var kominn í góða æfingu með að borða í sífellu yfir bókum, skáldritum og öðrum, þegar á unga aldri. Svo stækkaði ég um nokkur númer og fann að ég þyrfti að hætta þessu. Mikil dásemd sem það var að borða og lesa á sama tíma. Ég mun sakna þess.

SN: Áttu þér eftirlætisorð?

AV: Eftirlætisorðin mín tvö ríma meira að segja: súrmúll og hemúll. Ég er sitt lítið af hvoru, annars geðgóður bara.

SN: Sérðu orð fyrir þér í litum eða ertu haldin einhvers konar svipaðri frískandi og áhugaverðri brenglun milli skynfæra? (Hjá mér hafa orð, og raunar bókstafir ólíka liti — sem er „hæfileiki“ sem hefur akkúrat 0% praktískt gildi.)

AV: Orð hafa áferð og ég get tengt liti og lykt við aðskiljanlegustu hluti. Mér finnst eins og þetta sé stoðtæki fyrir minnisfúnksjónir fremur en nokkuð annað, þetta eru tengingar sem hjálpa mér að muna. En ég er alveg fjarri því að vera eins og Bubbi Morthens hefur lýst, að skilningur hans á tónlist sé litatengdur. Ég finn engan skilning í þessu, aðeins tilfallandi tengsl sem hjálpa mér að staðsetja hluti. Hefurðu tekið eftir því að Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín er eins á litinn og Árnagarður, hvít og dökkgræn? Ekkert gæti verið meira viðeigandi. Þegar ég sinni mínum fræðum þykja mér þau vera þannig á litinn. Fegurri litir gætu ekki táknað eina fræðigrein.

SN: Hvaða spurningu langar þig að fá næst?

AV: Eru bókmenntir skotspónn hugans, það sem gerir okkur mennsk?

SN: Sú spurning sem þú vildir fá næst, hvert er svarið við henni?

AV: Hvurslags eiginlega spurning er þetta? Það er ekki hægt að svara þessu.

SN: Nei, það er ekki hægt. En hvers vegna heillar að skrifa um galdra? Sækja skáldskapurinn og kuklið jafnvel í sömu æð?

AV: Ég eiginlega veit það ekki. Ef ég á að segja eins og er hef ég aldrei verið sérlega áhugasamur um galdra. Mestan áhuga hef ég á hugmyndum fólks um galdra og hvernig trú fólks á þá raungerist í hegðun þess. Ég hef mun meiri áhuga á félagssögunni en fyrirbærinu sjálfu. Þess vegna finnst mér til dæmis gaman að lesa galdrabækur og velta fyrir mér hvort höfundar þeirra hafi trúað því að táknin sem þeir settu á blað hefðu raunverulegan mátt (útheimti það ekki að hreinlega fremja galdurinn að skrifa hann svona niður?). Og þessi ógeðslegu nornamál í Ameríku og Evrópu, þetta hafði allt raunverulegar afleiðingar og áðurnefndur John Hale gerði sér grein fyrir því að málin fóru úr böndunum, að fólk var tekið af lífi ekki fyrir eigin sök — þó að hann tryði því raunar að sökin væri skrattans, sem hefði stýrt gjörðum fólks. En þetta sækir vissulega í sömu æð. Að skálda er að kukla, að skapa líf úr engu og eyða lífi — ég tel samt að ég hafi sem höfundur ekki beina stjórn á því. Fólk bara deyr, það er þannig sem þetta gengur fyrir sig, líka skáldað fólk. Sögur af fólki sem vill endurheimta glötuð líf með galdri eða vísindum — Galdra-Loftur eða Victor Frankenstein — þær eru sagðar af fólki sem kallar fram líf þessara persóna með því einu að hugsa og segja söguna. Það þarf ekki Gráskinnu til að galdra. Yfirnáttúrlegasta kraftinn, máttinn til að færa frásagnir í orð á pappír, hann öðlumst við strax á fyrstu árum skólagöngunnar. Og ef við óttumst þessa óhjákvæmilegu feigð þá er ekkert betra tæki til að fást við hana en í gegnum texta. Sérhver bók er galdrabók ef við leggjum þann skilning í málin. Ég kann vel við þá hugmynd. Kannski ekki síst af því hún felur í sér að ég sé í raun höfundur galdrabókarinnar Gráskinnu.

Vikulegt fréttabréf um áhugavert lesefni. leslistinn.com

Get the Medium app

A button that says 'Download on the App Store', and if clicked it will lead you to the iOS App store
A button that says 'Get it on, Google Play', and if clicked it will lead you to the Google Play store