Ráðunautur Leslistans: Bragi Ólafsson

Leslistinn
Aug 24, 2018 · 12 min read
Image for post
Image for post

Bragi Ólafsson hefur sent frá sér margar bækur — ljóð, smásögur, skáldsögur — og heldur úti bloggsíðu sem var að vakna úr dvala. En bækur hans og bloggsíða verða ekki hér til umfjöllunar (nema kannski óbeint) því Leslistanum lék hugur á að vita hvort Bragi léti ekki við það sitja að skrifa eigin bækur heldur læsi einnig verk annarra höfunda.

Sverrir Norland: Sæll og blessaður, Bragi, og hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans! Þú þarft ekki að fara úr skónum, en strýkur kannski af þeim á dyramottunni. Mér datt svo í hug að þér myndi líka vel sætið þarna í miðjunni, þar er skugg- og hljóðsælt og enginn trekkur. Ef þú vilt meira kaffi — eða te eða límónaði, jafnvel bjór — þá lyftirðu bara upp litla fingri. En hvernig er það, lestu einnig bækur?

Bragi Ólafsson: Einnig? Ég les fleiri bækur en ég skrifa. Um leið og ég segi það geri ég mér grein fyrir að ég hef aldrei lesið mínar eigin bækur á sama hátt og bækur eftir aðra. Nema hugsanlega þegar ég tók saman safn af eigin smásögum fyrir tveimur árum. Þá reyndi ég að lesa sögurnar eins og ég hefði ekki hugmynd um hver skrifaði þær.

Og tókst það?

Nei.

Jæja. Ef það er þér einhver huggun, þá tókst mér það hins vegar– það er að lesa umrætt smásagnaúrval þitt eins og ég hefði ekki skrifað það. En hvaða bók/bækur ertu helst að lesa þessa dagana?

Samhliða öðrum er ég að lesa bók sem kallast Holy S*it, eftir bókmenntafræðing sem heitir Melissa Mohr. Þetta er einstaklega upplífgandi og fræðandi bók um sögu blótsyrða, bölvs og formælinga, aðallega í enskri tungu og latínu, allt frá Rómarveldi til okkar daga, með viðkomu í Biblíunni, Shakespeare og James Joyce. Líklega er þetta dónalegasta bók sem ég hef lesið. Meðal hinna bókanna sem liggja við hliðina á Holy S*it (eða undir henni í bunkanum) eru The Way Home, safn prósa eftir Oulipo-höfundinn Harry Matthews; Dauði harmleiksins eftir George Steiner; Journey to the End of the Night eftir Louis-Ferdinand Céline (sem hefur dregist allt of lengi að lesa); tvær bækur um Luis Buñuel (minningar Jeanne Rucar, eiginkonu Buñuels; og ritgerðir eftir Victor Fuentes, Frá súrrealisma til terrorisma). Undanfarna mánuði og ár hef ég lesið talsvert af bókum um ákveðið tímabil í sögu popptónlistar, í tengslum við skáldsöguna sem ég er að skrifa. Það er freistandi að segja aðeins frá því, hvaða tímabil þetta er, og hverjir koma þar helst við sögu, en mér finnst ég verða að eiga það inni. Ég verð samt að geta einnar bókar úr þessum bunka, því hún er alveg sérstaklega skemmtileg og fræðandi: Future Days eftir David Stubbs. Svo er ég að lesa aftur The Driver´s Seat eftir Muriel Spark (Muriel er í miklu uppáhaldi), og tvær ævisögur liggja á náttborðinu: Beautiful Shadow, um Patriciu Highsmith, og Room to Dream, sem David Lynch skrifaði um sjálfan sig ásamt Kristine McKenna. Titillinn á bókinni um Patriciu Highsmith er ansi vel til fundinn. Ég var að horfa á í fyrrakvöld myndina sem var gerð eftir fyrstu bók Highsmith um Tom Ripley, Plein soleil — virkilega fín mynd — og þá kom sér vel að vera með ævisögu hennar á náttborðinu. Í henni er til dæmis fjallað um áhrif Oscars Wilde og J. K. Huysmans á Patriciu Highsmith, nokkuð sem mér hefði ekki dottið í hug að væri raunin, en liggur líklega ljóst fyrir þegar manni er sagt það. Það gleður mig alltaf mjög mikið þegar hinn stórkostlegi höfundur Huysmans er nefndur í samhengi við nútímabókmenntir. Það gerðist til dæmis með eftirminnilegum hætti í síðustu bók Michels Houellebecq, Undirgefni. En svo má ekki gleyma því að nefna nýjustu bók Magnúsar Sigurðssonar, Tregahandbókina, sem kom út fyrr á árinu; hún hefur verið uppi á borðum síðan hún kom út — ótrúlega fín bók, örugglega bók ársins, eins og Hermann Stefánsson vill meina. En auðvitað er árið ekki liðið. Kannski kemur út einhver önnur bók sem Hermann, eða bara einhver annar, vill meina að sé bók ársins. Fyrr á árinu las ég til dæmis bók sem í mínum huga var bók ársins, á meðan ég las hana, þótt hún hefði komið út fyrir einu eða tveimur árum. Solar Bones, eftir Írann Mike McCormack. Það virkar oft ekki vel þegar bókum er líkt við eitthvað annað en þær eru, en þessi bók, Solar Bones, er í mínum huga ein af mjög fáum skáldsögum sem standa undir því að vera kallaðar prósaljóð.

Lestu einnig netsíður, vefmiðla, tímarit? Jafnvel dagblöð? Ekki hika við að senda okkur ábendingar!

Jafnvel dagblöð? Ég les öll dagblöð sem ég kemst í. Að minnsta kosti fletti ég þeim. Sé ég staddur í lest eða rútu, og einhver hefur skilið eftir dagblað í auðu sæti, þá er það dagblað lesefni mitt næstu mínúturnar. Á sama hátt, ef boðið er upp á dagblað í móttöku hótels, þá er ég náunginn sem fer með það upp á herbergi. Eina blaðið sem ég er áskrifandi að, fyrir utan Stundina, er Times Literary Supplement. Svo les ég Grapevine þegar það verður á vegi mínum. Og nú þegar ég hef nýlega hitt og talað við ritstjóra Bændablaðsins, þá liggur beint við að ég grípi það blað með mér næst þegar ég fer í kjörbúðina. Ég fletti mikið upp á bókmenntatímaritum á netinu, og alls konar tónlistarumfjöllun, en gleymi jafnóðum hvað þeir miðlar heita. Hér er eitt sem ég kíki stundum á. Og annað. Svo auðvitað Guardian-vefurinn, New York Times, El País og önnur dagblöð.

Á hvaða tungumáli lestu helst?

Á ensku, íslensku og spænsku. Aðeins í frönsku, ef ég þarf. Ég lærði heilmikla frönsku, en asnaðist ekki til að halda henni almennilega við (sem er eiginlega það sem ég sé mest eftir í lífinu, fyrir utan að hafa ekki lært rússnesku). Ég nota orðabækur fyrir öll tungumálin.

Hvaða útvarpsþætti/hlaðvörp — ef nokkur — hlustarðu mest á?

Eini útvarpsþátturinn sem ég hlusta reglulega á er Morgunútvarp Ríkisútvarpsins. Ég nota líka hlaðvarp Ríkisútvarpsins. Og hlusta á BBC (ríkisútvarp Breta) þegar ég keyri bíl.

Áttu þér eftirlætisbók- eða höfund?

Það er svo tilviljunarkennt hvað manni finnst hverju sinni, hvaða bók eða höfundur kemur upp í hugann. Ég myndi til dæmis vilja nefna Samvisku Zenos eftir Italo Svevo, þá dásamlegu bók, Raunir Gilberts Pinfold eftir Evelyn Waugh, Pedro Páramo eftir Juan Rulfo, Steintré eða Suðurgluggann eftir Gyrði Elíasson; en ég held að sú bók sem kemur oftast upp í hugann sé Skógarhögg eftir Thomas Bernhard (Holzfällen á frummálinu, Woodcutters á ensku). Fyrir utan að vera einhver fyndnasta skáldsaga sem ég hef lesið, þá er sjónarhorn og frásögn höfundarins með þeim hætti að mér finnst ég sjálfur nánast daglega sitja í þeim sama stól og hann gerir á meðan hann segir söguna, hinum svokallaða eyrnaslapastól, og horfa þaðan á heiminn með sömu augum og Thomas Bernhard. Hver bók þessa höfundar líkt og inniheldur allar hinar eftir hann, og þannig má ef til vill segja að allt hans verk, jafnvel æviminningar hans, sé ein bók.

Sú bók eftir Thomas Bernhard sem situr sterkast í mér — og mér fannst raunar allólík hinum — er sjálfsævisagan hans, sem ég las á ensku undir titlinum Gathering Evidence í eyðimörk í Texas (sem gerði upplifunina ennþá þungbærari). Það fannst mér alveg mögnuð bók — reiðin, endurtekningarnar, illskan, hörmungarnar sem hann upplifði og svo síðast en ekki síst misheppnaði gamli rithöfundurinn með teppið á herðunum (afi hans), allt ógleymanlegt. Ég vona að ég þurfi aldrei að lesa þessa bók aftur; ég kæmist ekki lifandi frá því. En hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Og hvar? Viltu þá helst vera einn eða innan um aðra? Hefurðu sofnað yfir bók í freyðibaði eða öðrum viðlíka lífshættulegum aðstæðum? Hvenær sólarhringsins er best að lesa? Í hvers kyns hugarástandi? Úthvíldur eða lúinn? Saddur eða svangur? (Þú þarft alls ekki að svara öllum spurningunum.)

Allt jafn gott: sitjandi, liggjandi og standandi. Hvar sem er, þannig lagað. En helst ekki innan um aðra, ef „aðrir“ eru að tala, og sérstaklega ekki ef þeir eru að lesa yfir öxlina á mér. Ég hef mjög oft sofnað yfir bók, en ekki í freyðibaði. Að sofna yfir, eða inn í bók, er eflaust eitt af því besta sem maður gerir í lífinu, trúi maður því að bókin fari með manni inn í svefninn — hin góða bók, það er að segja. En það er ábyggilega ekki rétt.

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku?

Litlu fiskarnir (nú man ég ekki nafnið á höfundinum — Erik eitthvað); og Jakob ærlegur eftir Frederick Marryat. Svo myndi ég nefna Sigurð Fáfnisbana, bókina sem var búin til upp úr þýsku bíómyndinni, og Prins Valiant-bækurnar, sem ég keypti flestar í Bókinni við Skólavörðustíg. En áhrif þeirra bóka hafa eflaust dvínað allverulega frá því ég las þær fyrst. Enda er ekkert fjallað um sjálfsíkviknun í Sigurði Fáfnisbana og Prins Valiant, eins og gert er í Jakobi ærlegum. (Ég skil reyndar ekki af hverju er ekki meira fjallað um sjálfsíkviknum í skáldskap yfirhöfuð, og hvers vegna ég er ekki sjálfur búinn að því. Þetta hefur kannski verið afgreitt endanlega í Jakobi ærlegum.) Áhrif Sígildu sagna-blaðanna (Hamlets, Moby Dick, Stikilsberja-Finns, osfrv.) hafa án efa verið talsverð líka. En svo er alltaf spurning hvenær æsku manns lýkur — ég treysti mér ekki til að nefna þær bækur sem gætu legið á þeim mörkum. Annars þyrfti ég helst að fara niður í geymslu til að rifja upp allt þetta. (Ég fer niður í geymslu, og kem upp aftur.) Ég finn ekki bækurnar. Sem er skrítið, því ég veit að þær eru í geymslunni. Mig langaði einmitt svo mikið til að rifja upp fyrstu setninguna í Litlu fiskunum, sem er eitthvað á þá leið að þegar óhreint vatn er soðið, þá myndast hroði á yfirborðinu. Sagan gerist í fátækrahverfi á Ítalíu.

Kannski bækurnar séu orðnar feimnar og mannfælnar eftir langa búsetu í geymslunni (þær földu sig fyrir þér). Vildirðu stundum óska þess að manneskjur væru eins og bækur: hægt að opna þær eftir vild og hentisemi og svo loka þeim aftur þegar þær byrja að fara í taugarnar á manni?

Ég hef ekki ímyndunarafl til að svara svona flókinni spurningu. Það fyrsta sem kemur upp í hugann eru textalínur eftir David Bowie; og þegar ég rýni aðeins í þær (sem ég hafði hingað til bara hlustað á, ekki lesið) finnst mér eins og svarið við spurningunni sé falið í þessum línum: I can see you as a corpse / hanging from a beam / I can read you like a book / I can feel you falling / I hear you moaning in your room.

Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Þær bækur sem ég vildi hafa gefið sem flestum (en hef ekki gert ennþá) eru Skógarhögg eftir Thomas Bernhard, og Lævirkinn (á ensku Skylark) eftir ungverska höfundinn Dezsö Kosztolányi. Sú bók er einhver fallegasta — og furðulegasta — lýsing á sambandi foreldra og barns sem ég hef lesið. En líklega hef ég oftast gefið fólki hinar og þessar útgáfur af leikritum Harolds Pinter. Hvernig ég kynntist fiskunum eftir Ota Pavel, í þýðingu Gyrðis Elíassonar, er bók sem ég hef gefið og mælt með. Og Steinsteypa eftir Thomas Bernhard, í þýðingu Hjálmars Sveinssonar. Og líka íslenskar þýðingar á smásögum Gogols. Annars vildi ég að smásagan Fíllinn eftir hinn pólska Slawomir Mrozek væri til í íslenskri bók, þá myndi ég gefa þá bók í afmælisgjafir.

Telurðu að mannkynið lifi nú afar blómlegt menningarskeið eða ríkir lægð, mikil lægð, í vitsmunalífi tegundarinnar? Er þetta þreytandi spurning?

Sjálf spurningin er ekki þreytandi. Ég verð samt óskaplega þreyttur þegar ég reyni að svara henni. Kannski vegna þess að maður þarf að vera ansi gamall til að hafa þá yfirsýn sem svarið við henni krefst.

Finnst þér þú þurfa að klára bækur?

Nei. Því ef ég segði já, þá væri ég líklega hættur að láta mér detta í hug að byrja á bók. Um daginn las ég tvo þriðju úr nýrri Pulitzerverðlaunaskáldsögu, Less eftir Bandaríkjamanninn Andrew Sean Greer. Yfirleitt finnst mér ótækt að leggja frá mér bók þegar ég er kominn svo langt, en líklega hafði Pulitzerstimpillinn á kápunni þau áhrif að ég leyfði mér að segja þetta gott. Enski rithöfundurinn Tim Parks, sem hefur skrifað mikið um bækur annarra, segir að því fleiri vondar bækur sem maður les, þeim mun færri verði góðu bækurnar sem maður byrjar á. Í sömu grein segir hann frá bréfi sem hann fékk frá öðrum rithöfundi, sem hafði verið að lesa eina af bókum Tims, þá lengstu þeirra, og langaði til að tjá ánægju sína með bókina. Tim var skiljanlega upp með sér yfir að fá hrós, og var um það bil að fara að „stinga þessari fjöður í hattinn sinn“, eins og hann orðar það, þegar hann las niðurlag bréfsins, en þar segir bréfritarinn frá því að hann hafi ekki lokið við bókina; hann hafi hætt þegar hann átti 50 blaðsíður eftir; honum hafi fundist bókin vera búin þá. Tim játar að hafa látið þetta angra sig, og fyllst efasemdum — hefði hann átt að hafa bókina 50 blaðsíðum styttri? — en eftir svolitla umhugsun ákvað hann að taka gott og gilt það sem bréfritarinn sagði honum, að hann hefði verið hæstánægður þegar 50 blaðsíður voru eftir af bókinni; honum fannst hann bara ekki þurfa að lesa meira. Mér finnst þetta mjög umhugsunarvert. Og fyrst ég nefndi áðan verðlaunabækur, þá las ég rúmlega helming af bók George Saunders, Lincoln in the Bardo, sem fékk Bookerverðlaunin, áður en ég skilaði henni aftur á safnið. Þetta er algerlega frábær texti, mjög sterkt andrúmsloft; en eins og pennavini Tim Parks, þá fannst mér ég hafa fengið nóg. Bókin lifir mjög sterkt í mér, þótt ég hafi ekki klárað hana.

Ég las einnig þessa grein eftir Tim Parks! Gott ef hún birtist ekki upprunalega í The New York Review of Books og síðar í ritgerðasafni eftir hann? En segðu mér, Bragi, hvers konar bók langar þig að skrifa næst?

Ég veit hvaða bók ég er að skrifa í augnablikinu. Og um leið og segi það, þá geri ég mér grein fyrir að ég hef kannski ekki hugmynd um hvernig bók þetta er. Hún hefur að minnsta kosti reynst mér svolítið erfið, mögulega vegna þess að hún er á ákveðinn hátt sjálfsævisöguleg — á ská. Á sama hátt og maður þarf reglulega að hvíla sig á sjálfum sér hef ég þurft að leggja þetta handrit frá mér oftar en einu sinni, og byrja á öðrum verkefnum. Og þau verkefni halda lífi í þessari bók sem ég var að tala um. En eins og ég sagði frá áðan hef ég verið að lesa svolítið af bókum um popptónlist í tengslum við þetta handrit. Líka bækur um blaðamennsku, sósíalisma og sovéskan geimfara.

Það líst mér vel á. Og svo að lokum, hvaða bók hyggstu lesa næst?

Um daginn sagði ég vini mínum (í tölvupósti) að ég væri að gíra mig upp í að lesa allan Proust, meðal annars með því að lesa bækur um Proust og bókina hans, t.d. eina virkilega skemmtilega og fræðandi, eftir mann að nafni Patrick Alexander. Ég mæli sérstaklega með þeirri bók; hún beinir athyglinni ekki síst að húmornum í texta Prousts. En um leið og ég hafði sent póstinn til vinar míns mundi ég eftir að hafa sagt þetta við hann áður, fyrir tveimur eða þremur árum, einmitt í tölvupósti, að ég ætlaði mér að fara í gegnum allan Proust. Þannig að. En þetta er samt á dagskrá. Ég finn að það byggir mann upp að hafa dagskrá, jafnvel þótt það geti dregið mann niður að ná ekki að fara eftir henni að fullu. Annars býst ég við að næsta bók sem ég les verði ævisaga Johns Kennedy Toole, höfundar hinnar stórkostlegu bókar A Confederacy of Dunces. Ævisagan heitir Butterflies in the Typewriter, ég er að bíða eftir henni í póstinum. Og talandi um póstinn. Eða Póstinn öllu heldur (með stóru P-i, hinn einkarekna, áður ríkisfyrirtækið). Fyrir nokkrum vikum pantaði ég mér geisladisk frá Englandi. Hann kostaði eitthvað á bilinu 4 til 5 pund. En þegar geisladiskurinn kom til landsins sendu þeir á Póstinum mér tölvupóst þess efnis að ég þyrfti að útvega þeim reikning fyrir sendingunni. Sem ég gerði. Nokkrum dögum síðar kom annar póstur frá þeim: Gæti ég sent þeim reikning fyrir sendingunni? Ég gerði það — aftur — og benti þeim á í leiðinni að þeir mættu opna pakkann, til að sjá á meðfylgjandi reikningi hvað þetta kostaði allt saman. (Kannski ástæða til að nefna að sendingarkostnaðurinn sem bættist við verð bókarinnar var innan við tvö pund.) Þegar þriðja beiðnin um reikning vegna sendingarinnar barst mér í tölvupósti ákvað ég að láta svolitla orðsendingu fylgja reikningnum. Ég sagði þeim á Póstinum að ef þetta dygði ekki til að sendingin yrði afgreidd, þá mættu þeir eiga geisladiskinn. Og enn hef ég ekki fengið hann í hendurnar. Ég hef ekki hugmynd um hvar hann er niðurkominn núna, hvort hann var sendur aftur til Englands, eða hvort þeir á Póstinum hefðu þegið boð mitt um að nota diskinn sjálfir. Ég er aftur á móti nokkuð viss um að þessi stirðu viðskipti mín við Póstinn hafi haft áhrif á það sem ég ímynda mér að hafi gerst fyrir næstu sendingu sem mér barst frá Englandi, bók sem ég pantaði mér sérstaklega sem afmælisgjöf. Ég fékk nefnilega tilkynningu um að ná í þann pakka á pósthúsið — engin beiðni um reikning að þessu sinni — en þegar ég fékk pakkann í hendurnar reyndist hann vera gegnblautur, og bókin ónýt. Það er stundum sagt að maður viti ekki hvað maður eigi að segja eða hugsa, ekki síst þegar maður hneykslast á einhverju, eða veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið; en ég veit nákvæmlega hvað ég hugsaði þegar ég opnaði pakkann með blautu bókinni. Nú verð ég bara að vona að Fiðrildabókin skili sér óblaut.

Hefðir þú áhuga á að fá vikulegar ábendingar um áhugavert lesefni sendar til þín í pósti? Viltu fylgjast með ábendingum frá fleiri ráðunautum? Skráðu þig á Leslistann í dag!

Welcome to a place where words matter. On Medium, smart voices and original ideas take center stage - with no ads in sight. Watch

Follow all the topics you care about, and we’ll deliver the best stories for you to your homepage and inbox. Explore

Get unlimited access to the best stories on Medium — and support writers while you’re at it. Just $5/month. Upgrade

Get the Medium app

A button that says 'Download on the App Store', and if clicked it will lead you to the iOS App store
A button that says 'Get it on, Google Play', and if clicked it will lead you to the Google Play store