Ráðunautur Leslistans: Brynja Hjálmsdóttir

Leslistinn
8 min readNov 1, 2019

--

Ljósmynd af Brynju: Kjartan Hreinsson

Brynja Hjálmsdóttir gaf nýlega út hjá Unu útgáfuhúsi ljóðabók undir því skemmtilega heiti Okfruman. Ljóðabókin er skemmtileg, frumleg, sár og falleg, og ég sá því ekki annað fært en að taka Brynju í spjall. — Sverrir Norland

Sverrir Norland: Sæl og blessuð, Brynja kær, og hjartanlega velkomin í ráðuneyti Leslistans (ef þú samþykkir boðið!). Ég var að steikja bananapönnukökur og hér er kaffi, fáðu þér á diskinn og í bollann, og þá getur vígsluathöfnin hafist.

Brynja Hjálmsdóttir: Sælinú! Ég þigg boðið.

SN: Hvað er ljóð?

BH: Ljóð geta verið hvað sem er, ljóð þurfa ekki einu sinni að vera texti, þau geta verið gjörð eða hljóð. Ef ég myndi skilgreina ljóð einhvernveginn væri það að ljóð er texta- eða tjáningarform sem gefur mikið af upplýsingum með því að halda aftur af upplýsingum.

SN: Áttu þér einhver eftirlætisskáld sem hafa fylgt þér frá blautu barnsbeini?

BH: Ég á mér mörg eftirlætisskáld, þótt þau séu kannski mörg sem hafa fylgt mér frá blautu barnsbeini. Ég datt frekar seint inn í samtímaljóðlist, bara á seinni árum menntaskóla. Ég var mjög hrifin af bundnum kveðskap þegar ég var lítil og er það enn, þótt ég hnoði sjaldan í vísur. Hilmar Pálsson afi minn varð máske ekki frægur fyrir sínar vísur nema innan takmarkaðrar kreðsu en hann var frábært skáld og hann orti margar vísur fyrir mig. Hér er ein af þeim:

Brynja er góður gestur hér,

geislum fyllist stofan,

með fasi sínu boðskap ber

beint af himnum ofan.

Lipurtáin leikur sér

létt og djörf í spori.

Brosið hennar alveg er

eins og sól á vori.

Steinn Steinarr var risauppgötvun fyrir mig, ég byrjaði að lesa hann þegar ég var í unglingadeild held ég. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvað það var rosalega áhrifamikill lestur að lesa kvæðasafnið hans fyrr en ég pikkaði það aftur upp fyrir svona tveimur árum og varð fyrir KRAFTA-nostalgíu, þú veist, svona nostalgíu sem kýlir þig í magann. Þetta er uppáhaldsbrotið mitt í Tímanum og vatninu:

ég var drjúpandi höfuð

ég var dimmblátt auga

ég var hvít hönd

og líf mitt stóð kyrrt

eins og kringlótt smámynt

sem er reist upp á rönd

meðan tíminn hvarf

eins og tár sem fellur

á hvíta hönd

BLAMM! K-O!

SN: Hver er uppáhaldsbirtan þín? Sólarljós að morgni dags? Dempuð stofulýsing með vetrarrökkur á glugga? Flöktandi kertaskíma í rykföllnu bókasafni? Blindandi sólarljós á hvítri ströndu um hábjartan dag? Eðu ertu kannski meira fyrir myrkrið, fjarveru ljóss?

BH: Ég finn alltaf fyrir smá létti þegar byrjar að myrkva á haustinn, það er betra að fela sig í myrkrinu. En það er líka gaman þegar það er alltaf bjart á sumrin. Ég er hrifin af birtu sem lætur allt breyta um lit, svoleiðis birta heitir skrítin birta.

SN: Hvaða bók hafði síðast langvarandi áhrif á þig? (Og þá meina ég: kraumaði enn sterk í líkamanum nokkrum mánuðum eftir að þú last hana, jafnvel árum?)

BH: Í ár las ég Mómó eftir Michael Ende í fyrsta sinn. Þar er algjörlega ótrúleg bók, hún sat alveg í mér og gerir enn. Ég las hana líka upphátt saman með manninum mínum, þetta er bók sem ég mæli mikið með að lesa upphátt, hvort sem það er fyrir barn eða fullorðinn. Mómó er fullkomin bók, hún hefur allt sem ég fíla, súrreal slagsíðu, grín, spennu. hrylling og áríðandi vangaveltur um tilveruna.

Ég las Grænmetisætuna eftir Han Kang þegar hún fékk Man Booker verðlaunin. Það var alveg mögnuð upplifun, ég las mörg brot úr henni aftur og aftur, ég skildi ekki hvernig var hægt að búa svona til. Það er ein besta bók sem ég hef lesið. Ensku þýðingarnar á bókunum eru umdeildar, sagt er að þær séu ónákvæmar og að þýðandinn taki sér jafnvel skáldaleyfi. En mér eiginlega bara drull, því þetta er svo sjúklegt stöff. Ég svakalegur aðdáandi, hef lesið allar bækurnar hennar sem hafa komið á ensku, The Vegetarian, Human Acts og The White Book, allar stórkostlegar. Hún kom á þarsíðustu bókmenntahátíð og þá fékk ég áritun í bækurnar mínar og var ógurlega lukkuleg með það.

Svo hefur Kurt Vonnegut heiðurssess í mínu hjarta. Cat’s Cradle er besta bókin, af mörgum góðum.

SN: Hvernig semurðu ljóð? (Kannski er ekki hægt að svara þessari spurningu.)

Ég sem ljóð með ýmsum leiðum. Stundum lýstur þeim niður ómeðvitað, bara pomms! — og ljóðið er mætt. Stundum þarf ég að búa þau til mjög meðvitað. Það er kannski aðeins minna sexí pæling, minni mystería í því, en svona er þetta bara, það felst tækni og ritsjórn í ljóðum eins og öllu öðru. Þannig ég nota bara svona blandaða aðferð.

SN: Ævi húðfrumu er tuttugu til fimmtíu dagar, skrifarðu í Okfrumunni. Eru þér frumur almennt mjög hugleiknar? Veistu allt um frumur; ævilengd og svo framvegis? Hvers vegna skrifarðu um þær og hver er sagan að baki tilurð Okfrumunnar?

BH: Ég vildi að ég gæti sagt að ég vissi allt um frumur, að líffræði væri leyniástríða mín. Það er hins vegar ekki tilfellið, ég hef aldrei verið mjög raunvísindahneigð. Ég var hins vegar heilluð af þessu orði, OKFRUMA, alveg frá því ég heyrði það fyrst í líffræðitíma í grunnskóla. Það er svakaleg vigt í orðinu, hvernig það hljómar og hvernig það lítur út, fyrir utan hvað það stendur fyrir svakalega dramatískt fyrirbæri. Þetta er upphafið á nýju lífi, þegar tvær kynfrumur verða að okfrumu, augnablikið þar sem tvennt ólíkt verður eitt nýtt.

Þetta með húðfrumurnar er alveg satt og mér fannst það eiga vel við efni bókarinnar. Ég vil auðvitað að verkið sé opið fyrir lesendur, ég vil ekki njörva það algerlega niður í einhverjar skilgreiningar, en stór þáttur í bókinni fjallar um þessi tilvistarlegu svik: að lífið sé í raun bara gulltrygging á dauða og þar með er þetta einhvernveginn sami hluturinn. Við erum alltaf deyjandi og lifnandi á sama tíma, húðfrumurnar flagna af okkur og nýjar koma í staðinn, alveg eins og ein kynslóð hverfur og önnur kemur í staðinn.

SN: Bærin ilmar eins og sulta, skrifarðu líka. Ertu næm á lykt? Hvaða lykt sækirðu helst í og finnst þér mikilvægt að nýta lyktarskynið í skáldskap? Hvernig mundi Lyktarsafn Brynju Hjálmsdóttur líta út; í hvaða fimm flokka (eða fleiri) mundu sýningarherbergin t.d. skiptast og hvaða lykt tæki fyrst á móti sýningargestum þegar þeir stigju inn í anddyrið? (Hafðu í huga að þú þarft ekki að svara öllum spurningunum; í ráðuneyti Leslistans gilda mjög frjálsar leikreglur.)

BH: Ég er ekkert næmari á lykt en hver annar, þessi tilvitnun úr ljóðinu er nú bara athugun. Stundum lyktar bærinn eins og sulta þegar allir eru svælandi rafsígó með nammibragði.

SN: Ah, ég hef einmitt spáð í það — mér finnst svo fyndið að næstum allir (nema ég kannski) eru hættir að skrifa með blekpenna og byrjaðir að reykja blekpenna í staðinn. Reykja blekpenna með nammilykt.

Einkennandi þemu Okfrumunnar eru lífið og dauðinn — bláupphaf lífsins og endalok þess — og einnig tíminn, framrás (eða hringflug?) tímans. Ertu tregafull manneskja?

BH: Ég held að heiðarlega svarið sé nei. Ég er í það minnsta ekki tregafull svona frá degi til dags, almennt er ég er mjög glaðvær manneskja. Alltaf að gera grín og svona. En ég er samt mjög tilfinningasöm manneskja og ég hef alveg trega-tendensa. Stundum geri ég mér jafnvel óleik með því að magna upp sorgir þegar ég þarf ekki á því að halda. Kannski sit ég bara í strætó eða er að fara út með ruslið og fer allt í einu og hugsa um hvað ég ætti nú til bragðs að taka mér ef þessi eða hinn myndi deyja, maðurinn minn eða foreldrar mínir, fyllist af tárum og hori eins þetta sé búið að gerast í alvörunni og ég sé bara á leið í jarðarförina. Svona get ég gabbað mig. Mig grunar að ég sé ekkert ein um þetta, ég hugsa að flestir leiði hugann að svona löguðu endrum og sinnum. Það er auðvitað ekki heilbrigt að hugsa mikið svona og það gerist ekki endilega oft. Ég komst hins vegar oft í svona tregafullt ástand þegar ég var að skrifa þessa bók, ég lifði mig mjög mikið inn í þetta og þess vegna var stundum sárt að skrifa hana. En það var líka mjög skemmtilegt, þetta er nefnilega líka skemmtibók.

Stór þáttur í bókinni snýst um fjölskyldur og kynslóðir. Íslendingar eru náttúrulega annálaðir fyrir ættfræðiáhuga og ég finn fyrir því að eftir því sem ég eldist hef ég allt í einu mikinn áhuga á svoleiðis. Fer alveg í keng við að ganga inn í þessa steríótýpu en ræð ekkert við það. Nú sekk ég mér í að lesa gamlar gestabækur og skoða myndaalbúm full af dánu fólki sem ég hef aldrei hitt en tengist samt einhverjum böndum. Ég held að þetta fylgi því að fullorðnast, þessi tilfinning fyrir framrás eða hringflugi tímans, að maður sé bara písl í tilverunni. Einhver slæðingur af meðvitund um það sem er liðið og það sem koma skal, sem er samt ekkert hægt að vita eða skilja. Það er bara stórfurðulegt að sitja í stól í stofu og horfa á ljósmynd af löngu horfinni manneskju sem situr í sama stól í sömu stofu. Allt breytist en samt breytist ekki neitt. Voðalega spes.

SN: Ertu að lesa eitthvað gott í augnablikinu? (Bannað að nefna bók úr jólabókaflóðinu.)

BH: (Þarna gerðirðu mér grikk ég náttúrulega á BÓLAKAFI í jólabókaflóðinu.)

Ég er að lesa ýmislegt gott. Það er nýr siður hjá mér að vera með nokkrar í takinu, það skrifast að hluta til á það að ég les bækur á mismunandi miðlum, rafbækur, prentbækur, hljóðbækur, þannig ég er a.m.k. með eina af hverju. Ég er núna að þreifa mig í gegnum Múmínbækurnar, sem er auðvitað einhver besti skáldskapur sem ég hef orðið fyrir. Svo ég er að lesa The Unwomanly Face of War eftir Svetlönu Alexievich. Það er eitthvað annað en ævintýrin í Múmíndal, algjörar hörmungar og viðbjóður. Þetta er frábær bók, ég hef bara aldrei lesið neitt þessu líkt. Þetta er svona mósaíkmynd af viðtölum við konur sem börðust fyrir Sovétríkin í seinni heimstyrjöldinni. Þarna birtist einhver sýn á stríð sem maður hefur aldrei séð áður, við skyggnumst á bak við tjöldin. Oft er fjallað um hvað stríð eru magnþrungin og hræðileg, það er fjallað um orrustur, dauða og ótrúlega sigra. Hér er fjallað um hversdagslífið í stríði, hvað er í matinn, hvernig fólk verður skotið hvort í öðru, hvernig blóðið lekur niður lærin á konunum þegar það er ekki til ein einasta tuska til að setja í nærbuxurnar þegar þær eru á blæðingum. Konunum er líka tíðrætt um hvernig það voru ekki til nein herklæði sem pössuðu á þær, hvernig þær hlunkuðust marga kílómetra á dag í allt of stórum skóm. Þetta er auðvitað kröftug myndlíking, það er ekki gert ráð fyrir réttu plássi fyrir konur þannig að þær verða aðlagast, fylla út í pláss sem passar ekki.

SN: Hvenær sólarhringsins lestu helst? Og hvenær skrifarðu helst?

BH: Ég les á öllum mögulegum tímum sólarhringsins, uppi í rúmi, í kaffipásum, heima og á ferðalagi. Mér finnst best að skrifa fyrri part dags, ég fúnkera í það minnsta illa eftir kl. 22 á kvöldin, þá er ég komin í frí. Ég hef ekki neina fasta skrifrútínu þar sem ég vinn vaktavinnu og dagskráin er frekar ólík eftir dögum. En ég reyni að vinna skapandi vinnu á morgnana og peningavinnu á kvöldin, það hentar ágætlega.

SN: Hvaða spurningu langar þig að fá í lokin?

BH: Hvort myndirðu frekar fá þér húðflúr af Jackie Chan eða Bruce Lee?

SN: Hvort myndirðu frekar fá þér húðflúr af Jackie Chan eða Bruce Lee?

BH: Úff, erfið spurning. Báðir góðir en ég held ég yrði að velja Jackie Chan.

SN: Þá vel ég Bruce Lee. Hampa fjölbreytninni. Takk fyrir spjallið, Brynja!

Viltu lesa viðtöl við fleiri ráðunauta Leslistans og fá Leslistann sendan í innhólfið þitt á annan hvern föstudag? Skráðu þig á Leslistann í dag!

--

--