Ráðunautur Leslistans: Jón Gnarr
Jón Gnarr hefur skrifað margvísleg verk fyrir bæði leiksvið, sjónvarp og hvíta tjaldið, sent frá sér bækur, flutt uppistand, kennt handritaskrif og prófað að vera borgarstjóri Reykjavíkur. Er þátt fátt eitt talið. Jón var vígður inn í ráðuneyti Leslistans við hátíðlega athöfn nú á dögunum.
Sverrir Norland: Sæll, kæri Jón Gnarr og vertu hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans!
Jón Gnarr: Já góðan daginn og takk fyrir að bjóða mér! Mikill heiður.
SN: Hvaða bók/bækur ertu að lesa þessa dagana?
JG: Ég er núna að lesa Krossgötur, álfatrú, álfabyggðir og bannhelgi á íslandi eftir Bryndísi Björgvins og Svölu Ragnarsdóttur. Svo er ég að lesa/hlusta á How to Change Your Mind eftir Michael Pollan frá Audible.
SN: Huldufólk og LSD — ekki slæm blanda. En á hvaða tímabili lífs þíns lastu mest, heldurðu?
JG: Ég las mest sem barn og unglingur. Það var samblanda af þráhyggju og dægrastyttingu. Ég varð alltaf að hafa eitthvað að lesa. Auðvitað átti ég uppáhalds bækur en ég las líka bara allt sem ég náði í. Eiginlega alveg stórfurðulegt.
SN: En minnst, hvenær lastu minnst?
JG: Ég myndi segja núna. Ég er byrjaður að lesa voða lítið og gjarnan bækur sem ég hef lesið áður. Síðasta skáldsaga sem las var Meistarinn og Margaríta. Ég hef margoft lesið hana áður.
SN: Hvernig hafa lestrarvenjur þínar breyst í áranna rás?
JG: Ég hef færst meira frá skáldskap og yfir í fræðirit. Á efri árum hef ég fengið meiri áhuga fyrir íslandssögu.
SN: Hver er skrítnasta bókin sem fylgt hefur þér lengi, haft mikil áhrif á þig og mætti öðlast meira brautargengi meðal annarra lesenda og/eða hugsandi vera?
JG: Bókin um veginn.
SN: Finnst þér íslenska vera fallegt tungumál? Hentar hún vel sem burðareiningar í skáldskap eða aðra vitræna tjáningu?
JG: Úfff. Ehhh…. Sko. Íslenskan finnst mér einstaklega fallegt tungumál og mér finnst vænt um hana einsog lifandi veru. Hún er einsog búin til fyrir skáldskap. En þegar kemur að vitrænni tjáningu þá liggur styrkur hennar tvímælalaust í mónólóg en veikleiki í díalóg. Hún er gjarnan gildishlaðin í eðli sínu og karllæg.
Nú vil ég alls ekki hljóma einsog einhver taugaveikluð kerling en þetta finnst mér oft. (Þetta er það sem á ensku er kallað sarcasm, og kallað er kaldhæðni á íslensku en er í raun orð yfir íróníu, sem er annað.) Íslenskan hefur oft verið mér flólkin í gríni því Íslendingar eru bókstafstrúarfólk. Einnig finnst mér oft mikill skortur á góðum hugtökum á íslensku, sérstaklega þegar kemur að heimspekilegum umræðum. Mér finnst orðið menning ofsalega vont orð og siðmenning hálfu verra.
SN: Já, nú? Hvers vegna?
JG: Sko, kúltúr og sivilisjasjón eru tveir ólíkir hlutir. Mér finnst orðið kúltúr hafa svo fallega og djúpvitra merkingu, að rækta og næra svo hlutir vaxi og stækki.
SN: Að kúltívera… Já, það er fallegt.
JG: Orðið „menning“ er ekki í neinum tengslum við þá hugsun. Það er boring og vísar bara í „það sem mennirnir gera“ sem mér finnst einstaklega óljóðrænt. Sivilisjasjón er hugtak yfir borgar- eða borgarasamfélag með tilvísun í þann infrastrúktúr í mannheimum sem verður til við borgarskipulag. Að nota hið lélega „menning·en klína „sið“ fyrir framan finnst mér handabakarvinnubrögð.
SN: Siðmenning er líka óheppilegt orð því það bendir til þess að annar kúltur en sá sem tilheyrir „siðmenningunni“ sé ekki eins siðaður — þó að augljóslega séu oft miklu fleiri og ríkari siðvenjur og hefðir í eldri menningu en þeirri sem við þekkjum í dag.
Það sem mér finnst hins vegar gott við hið gagnsæja orð „siðmenning“ er áminningin um að á meðal manna í siðuðu samfélagi gilda vissir siðir — kurteisisvenjur, viðmið um hvernig við nálgumst hvert annað og eigum samskipti. Tilhneigingin á síðustu áratugum (segjum, mínu æviskeiði) hefur hins vegar verið í þá átt að ýta okkur frá siðum og staðbundinni menningu og í átt að útþynntri, alþjóðlegri neysluhegðun sem hefur engan sérstakan snertiflöt við nærumhverfi okkar eða sjálfsvirðingu. Allir kaupa pepsí og horfa á Netflix. Ég tók eftir því í lest um daginn að ungt fólk sem sat í sömu röð og ég og eins á móti mér, við sama borð, hvorki leit á mig né heilsaði mér þegar það settist; það var með heyrnartól og horfði bókstaflega, á meðan það gekk inn í lestina og um gangana, á sjónvarpsefni. Algjör andlega fjarvera. Það finnst mér ekki vera siðmenning. Mér finnst vera siðmenning að bjóða öðrum góðum dag og viðurkenna nærveru annarra og tilvist þeirra, í lestum, búðum og svo framvegis; siðmenningin gerir kröfur til hegðunar okkar, hún er ekki aðeins borgarskipulag, grjótið undir fótum okkar, regluvirkið.
En afsakaðu þvaðrið í mér. Hvaða orð önnur finnast þér vera afleit, Jón?
JG: Það er reyndar alveg fullt af öðrum orðum í íslensku sem ég hef andstyggð á. „Afmæli“ er eitt. Þegar þú skoðar orðið þá er hugsunin í því neikvæð, það er verið að mæla af þeim tíma sem þú átt. Ég nota “fæðingardagur” í staðinn. Það er gleðilegt enda notað í flestum öðrum tungumálum þannig; við gleðjumst saman yfir deginum sem þú fæddist á!
Nöfn vikudaganna eru svo efni í heila ritgerð. Hverskonar leiðindalið nefnir dagana sína þriðju- miðju- og fimmtudag. Næstum öll götunöfn á Íslandi eru líka alveg hræðileg. Það var hér einu sinni góð nafnahefð en henni hefur kerfisbundið verið útrýmt af skömm fyrir sögunni. Á eftir fyrstu jarðýtunni sem fór um landið og ýtti öllum kotbýlunum fram í sjó gekk sveit vaskra manna og bjó til ný nöfn yfir allt sem ýtan hafði eytt. Og þetta voru ekki neitt sérstaklega kreatífir kallar. Svona fóru þeir til dæmis með Hlíðarhúsastíginn, sem var nefndur eftir húsunum sem stóðu í hlíðinni og átti sér sögu og tilfinningalega tengingu. Þegar öllu hafði verið eytt var leiðin endurskírð og þar sem gata þótti flottari en stígur hefur þessi leið æ síðan verið kölluð Vesturgata. Hversu heimskulegt er það að kalla götu eftir höfuðátt? Svoleiðis gerir bara heimskingi sem hefur engan sans fyrir neinu. Gata sem liggur í vestur liggur þaraðauki sjálfkrafa í austur líka. Þannig að hún ætti eiginlega að heita tveimur nöfnum í sitthvorum endanum.
SN: [Hlær.]
JG: Annað dæmi er Klambratún sem hét eftir bænum Klömbrum sem þar stóð. Það þótti ekki fínt og samræmdist ekki heimssýn þessara heimsku manna þannig að nafninu var breytt í Miklatún. Þetta voru stórhuga menn. Ef ég fengi alvald á Íslandi í einn dag þá myndi ég breyta þessu öllu aftur til hins fyrra.
SN: Ég segi reyndar oftast Klambratún. Fíla það betur. Skrítnara orð.
JG: Tungumál er fyrir mér einsog að kubba með LEGO. Og það vantar fullt af kubbum [í íslenskuna] og stundum finnst mér kubbarnir sem eru í boði, ekki alveg nógu góðir.
SN: Já, legó er svolítið góð samlíking. Ég átti ósköpin öll af legói sem barn og foreldrar mínir varðveittu þessi leikföng eins og heilagan fjársjóð í geymslu eða þangað til fyrir um það bil ári eða tveimur, að þau tóku sig til og fóru í allsherjarhreingerningu og hentu því öllu. Þau hentu öllu legóinu mínu! Einmitt þegar ég hafði sjálfur eignast barn sem var að komast á legóaldurinn og veit svo auðvitað fátt skemmtilegra en að leika sér með legó. Það eru aðeins örfáir kubbar eftir — og þá fyrst fer að reyna á hugarflugið. Ég þarf að hafa mig allan við til að byggja skínandi kastala, flóknar borgir, fjöll og firnindi, skip og eldflaugar, úr þessum örfáu kubbum. En það tekst oftast, þökk sé snilld tveggja ára samherjans. Hömlurnar geta reynst okkur frjóar og gallarnir einnig. Þannig hugsa ég stundum um íslenskuna.
En þá langar mig að spyrja þig: Hefurðu áhuga á öðru fólki, Jón? Telurðu jafnvel lífsnauðsynlegt fyrir rithöfunda/annan listamann, eigi hann að þrífast á sínu sviði, að búa yfir hressilegum áhuga á öðru fólki?
JG: Já ég hef alltaf haft áhuga á fólki. Ég hef alveg sérstakt dálæti á sérvitringum og fólki sem þykir leiðinlegt, einhverra hluta vegna. Mér finnst bara óskaplega vænt um fólk. Ég veit ekki hvort það er nauðsynlegt listamanni að vera gefin(n) fyrir fólk. Mér finnst Wittgenstein alveg æðislegur. Hann var einmitt svona leiðindapúki og furðufugl og hafði ekkert dálæti á mannskepnunni en tókst samt vel upp í sínu verki.
SN: Já, ástæða þess að ég spurði hér að ofan er sú að ég hef stundum heyrt aðra rithöfunda hálfpartinn hreykja sér af því að þeir séu „svo ótrúlega forvitnir um annað fólk“ og þá fyllist ég stundum dálítilli öfund því þetta gildir ekki um mig nema að afar takmörkuðu leyti; raunar kenni ég hjá mér vissrar tilhneigingar til að haga lífi mínu svo að ég komist hjá því að uppfræðast óhóflega um kynlífsvenjur nágranna minna.
Heldurðu að stundum geti jafnvel gagnast höfundum að minnka áhuga sinn á fólki og opna fyrir móttökuskilyrði sín gagnvart öðrum sviðum jarðlífsins?
JG: Ég hef þá sýn að lífið sé eitt og allar lífverur mismunandi birtingamyndir af því. Það er öllum listamönnum hollt að átta sig á samhengi hlutanna. Ég er alveg heillaður af hundum og úlfum og þessum nýju pælingum um að hundurinn hafi umgengist okkur svo lengi að hann hafi hreinlega haft áhrif á það hvernig við þróuðumst sem dýrategund.
SN: Það held ég að sé rétt. Ég mæli með Beyond Words eftir Carl Safina í þessu samhengi — frábær kaflinn þar um úlfana.
Afsakaðu svo hvað næsta spurning er löng og þvæld:
Það gætir vissrar tilhneigingar hjá fólki til að sniðganga verk rithöfunda/annarra listamanna sem verða skyndilega uppvísir að vafasamri hegðun — og bendir stundum til þess að bókmenntasmekkur snúist í síminnkandi mæli um einstaklingsbundna nautn, þ.e. lestur á texta (óháð því hver skrifaði hann) og sé frekar opinber tjáning viðkomandi (þ.e. lesandans) á því hvers konar manneskja hann/hún er og hvers konar samfélagi hún vilji búa í. Fattarðu hvað ég meina?
Dæmi: Ég er staddur í Danmörku á gömlu herrasetri sem breytt hefur verið í vinnuaðstöðu fyrir rithöfunda og sumir hinna kvenhöfundanna — talsvert eldri en ég, og ýmist danskar eða sænskar konur— segja að á áttunda áratugnum hafi allir sólbaðað sig berir að ofan en nú sé slíkt alveg bannað. Einu sinni hafði það, að þeirra sögn, frekar kynferðislegar konótasjónir að fela brjóstin á sér — búa til mystík, jafnvel rafmagnaða spennu — en í dag sé víðast hvar alveg bannað að sýna á sér brjóstin.
Ég held að þetta stafi hugsanlega af þverrandi ímyndunarafli okkar? Kláminu og skjáhverfunni og sjálfhverfunni og svo framvegis (án þess að ég nenni að fara frekar út í þá sálma) — þeim ofurbókstaflega heimi sem við lifum í. Stöðugu fréttastreymi „staðreynda“ og „frétta“ í símana okkar. Við vantreystum skáldskapnum (sem kemur meðal annars fram í vaxandi vinsældum skáldævisagna á kostnað skáldsagna) og höfum ekki hugarflug til að átta okkur á því að brjóst eru bara brjóst.
Það þarf að fela ljótar skoðanir og sífellt óttast aðra og blokkera þá. Hætta að hlusta á tónlistarmanninn sem sagði eitthvað rasískt. Hætta að lesa rithöfundinn sem reyndist vera perri. Hætta að horfa á kvikmyndir eftir leikstjórann sem hámar í sig kjöt á hverjum degi. Ekki bendla sig við neitt nema það sem er dauðhreinsað og samþykkt.
En þarf ekki einmitt að veita listaverkum vafasams fólks líka gaum? Er listin ekki það — könnun á því tryllingslega innra með okkur, því hættulega og dímóníska? List er óp, sársauki, vanlíðan, ekki einungis móralskur leiðarvísir handa fyrirmyndarborgurum sem drekka frábært kaffi. Auðvitað er ósanngjarnt og ömurlegt hversu margir viðbjóðslegir karlar hafa haft greitt aðgengi að fjármunum til að framleiða endalaust af listaverkum á meðan aðrir, einkum konur og fólk úr minnihlutahópum, hafa setið úti í kuldanum — en það setur stundum að mér ugg þegar ég skynja að neysla á listrænni vöru hefur breyst í einhvers konar persónubundna tjáningu. Eitthvað til að deila með öðrum á netinu.
Hvað finnst þér um þetta, höfum við enn heilasellurnar, hugarflugið og hjartagæskuna í að meðtaka listaverk? Verk sem krefjast þess af lesandanum/áhorfandanum að hann geti verið þúsund manneskjur í senn og sett sig í spor ótal fólks, jafnt dýrlingsins sem skrímslisins?
JG: Fyrir mér er þetta fyrst og fremst spurning um jafnvægi. Ég hef leitast við í mínum verkum að vera ögrandi gagnvart eldri kynslóðum og tekist það ágætlega, hreyfa við og hrista uppí öllu þessu gamla og staðnaða en í síðasta verki mínu, leikritinu Súper, fékk ég helst neikvæða gagnrýni frá yngra fólki sem fannst ég ekki alveg nógu PC [innskot Leslistans: þ.e. „pólítískt kórréttur“]. Mér fannst ekkert af þeirri gagnrýni vera réttmæt heldur frekar tilraun til rétthugsunar í anda amerísku woke-hreyfingarinnar, sem er í raun hugtak sem fyrirfinnst ekki í okkar tungu. Hefði þessi gagnrýni komið frá mér eldra fólki hefði ég bara skemmt mér yfir því en þetta bögglaðist soldið fyrir mér.
Ég sagði á Facebook um daginn, varðandi andúð margra Íslendinga á fólki frá Póllandi, að þar sem pólverjar væru yfirleitt af sama kynþætti og við þá væri það ekki rasismi, heldur senófóbía eða útlendingaandúð. Ef þér er illa við fólk sem kemur frá Póllandi þá ertu ekki rasisti, en þú ert afturámóti fáviti. Mér fannst ég bara helvíti sniðugur. En þá sendi mér athugasemd vinur minn, sem er svartur Íslendingur, og honum fannst smá skrítið að ég talaði svona og benti mér réttilega á að við íslendingar erum ekki öll af sama kynþætti. Þetta fannst mér réttmæt og góð gagnrýni sem ég hef reynt að læra af. Skilurðu hvað ég meina?
Franz Kafka sagði að listin ætti að vera ísöxin sem heggur í freðið hafið í vitund okkar og ég er sammála því. Við Vesturlandabúar erum forréttindahópur heimsins. Sumir auðvitað meira en aðrir en við sem þjóð erum undir verndarvæng Bandaríkjanna og ein af stofnþjóðum NATÓ. Ég held að aðrar dýrategundir sjái okkur með svipuðum augum og við sjáum Alien skrýmslin en það er yfirleitt ekki það sem við sjálf sjáum þegar við horfum í spegilinn.
Það er ákveðin tilhneiging, sérstaklega hjá ungu og vinstrisinnuðu fólki, til að kjósa að sjá sig ekki sem hluta af þessum forréttindahópi heldur reyna að benda á einhverja aðra. Það er að ákveðnu leyti ungæðingsháttur og öðrum þræði hræsni. Það er líka soldil tilhneiging til að handgelda karlmenn og þá sérstaklega miðaldra menn fyrir afglöp og syndir karlaveldisins. Það er á ákveðinn hátt réttmætt en það hefur líka þá afleiðingu að þeir sem meðtaka þetta og taka þetta nærri sér, draga sig í hlé á meðan þeir sem gera það ekki vaða uppi.
Ég hætti í stjórnmálum og hef ákveðið að skipta mér ekkert af pólitískum hreyfingum að hluta vegna þessa. Mig langar ekki að verða enn einn miðaldra kallinn í pólitík. Þetta er einsog Bertrand Russell sagði: The whole problem with the world is that fools and fanatics are always so certain of themselves, and wiser people so full of doubts.
SN: Ég get engri hugsandi manneskju sleppt án þess að minnast á hamfarahlýnun jarðar og afstöðu viðkomandi til hennar. Hefur það sem er að gerast á jörðinni — og sú staðreynd að ungt fólk í dag getur ekki lengur hugsað um framtíðina á sama hátt og einhver af þinni kynslóð líklega gat og gerði — áhrif á hvernig þú hugsar og t.d. nálgast sköpunarstarfið og hagar daglegu lífi þínu?
JG: Ég ólst upp við kjarnorkuógnina og kalda stríðið sem var alltaf alveg við að fara að tortíma öllu þannig að við vorum alls ekki áhyggjulaus. En þær manngerðu og stigvaxandi loftslagsbreytingar sem nú ganga yfir jörðina eru mesta ógn sem við sem tegund höfum staðið frammi fyrir og mestu hamfarir sem við höfum upplifað bíða okkar. Ég verð eiginlega bara þunglyndur af því að hugsa og tala um þetta. Ég held að við séum komin yfir „the tipping point“, eða veltipunktinn, einsog ég kalla það.
Ég kenndi einn kúrs við Háskólann í Houston í handritaskrifum fyrir sjónvarp. Við skrifuðum út fyrsta þátt og grind af sjónvarpsþáttum sem gerast í Houston þegar stór fellibylur er við að ganga þar á land. Árið eftir kom svo Harvey.
SN: Sannspárgildi skáldskaparins. Kærar þakkir fyrir spjallið, Jón.
Viltu lesa viðtöl við fleiri ráðunauta Leslistans og fá Leslistann sendan í innhólfið þitt á hverjum föstudegi? Skráðu þig á Leslistann í dag!