Ráðunautur Leslistans: Karitas M. Bjarkadóttir

Leslistinn
5 min readMay 3, 2019

--

Karitas M. Bjarkadóttir er ljóðskáld og hefur verið iðin við kolann að undanförnu: hún gaf nýlega út sína fjórðu bók, o.s.frv. (og þar fram eftir götunum). Ég plataði hana í stutt spjall um bókina, skrifin, lestur, lykt og tungumál draumanna. — Sverrir Norland

Sverrir Norland: Kæra Karitas M. Bjarkardóttir, hjartanlega velkomin í ráðuneyti Leslistans. Ertu nokkuð til í, eða ertu kannski ekki til í, að segja mér aðeins frá nýjustu bókinni þinni?

Karitas M. Bjarkardóttir: o.s.frv. (og þar fram eftir götunum) er fjórða bókin mín í heildina, en sú þriðja og síðasta í því sem ég kalla skammstöfunarröðinni. Hún er líka eina af þessum þremur sem er ekki skrifuð í ástarsorg og einhverskonar uppgjör mitt við hinar tvær. Mér finnst allavega fallegt að hugsa þannig um hana.

Hvað er ljóð í þínum huga (ef eitthvað)?

Ég veit ekki alveg hvað ljóð er í mínum huga. Ég held það sé frekar erfitt að skilgreina það, og í rauninni gæti ég alveg eins sagst vera að gefa út prósa, eða textabók. En ég kalla þau ljóð því mér þykja þau ljóðræn og svo er líka eitthvað svo hátíðlegt að titla sig ljóðskáld.

Hvert er uppáhaldshljóðið þitt á daginn? En á næturþeli? Og hvaða hljóð leiðist þér helst að heyra í morgunsárið (eða hafa kannski öll hljóð eitthvað til síns ágætis)?

Uppáhaldshljóðið mitt á daginn er hljóðið í kaffivélinni minni eða tónlistin sem ég hlusta á, sem er margs konar og mismunandi. Svo er fuglasöngur alltaf voðalega næs, svona á vorin til að vakna við. Hljóðið sem mér leiðist mest á morgnanna en þykir kannski líka vænst um er hljóðið í rakvélinni hans pabba míns sem er oftast það sem ég vakna við.

Áttu þér ljóðskáld, eða aðra höfunda, sem þú heldur upp á, og ef svo er, hvers vegna eru þau í uppáhaldi?

Ég lít mikið upp til allskonar höfunda. Eydísar Blöndal og Fríðu Ísberg, svona sem nútímadæmi en ég les líka mikið af Ástu Sigurðar og Svövu Jakobs. Mér finnst skáldskapur kvenna svo óttalega heillandi, og sæki mestan innblástur þangað.

Já, það er flott að vera ljóðskáld og mjög hátíðlegt, og um að gera að breyta lífinu sem oftast, og á sem fjölbreyttastan hátt, í hátíð.

En hvers vegna skammstöfunarröðin (þ.e. hvers vegna skammstafaðir titlar?).

Það er alveg ótrúlega skemmtileg spurning! Fyrsta ljóðabókin mín a.m.k. (ég hata þetta orðasamband) heitir það einfaldlega af því ég notaði þessa skammstöfun miskunnarlaust á þeim tíma — og fékk á endanum ógeð á henni. Ég samdi svo í kjölfarið eftirfarandi titilljóð:

a.m.k. (ég hata þetta orðasamband)

hver er minnsti kosturinn?

hver ákvarðar hann?

minnsti kosturinn af hverju?

ER ALDREI NEITT NÓG?

Á eftir henni fylgdi svo m.b.kv. — annað orðasamband sem ég varð einstaklega hugfangin af á þeim tíma — svo ég ákvað að loka þríleiknum með einu orðasambandinu til viðbótar.

Ef við gefum okkur að þig langi að skrifa fleiri bækur (sem er auðvitað aldrei víst með nokkurn höfund; stundum er komið nóg og mann langar kannski frekar að rækta grænmeti eða fara á sjó), hvers konar bók væri það þá?

Mig langar alveg ofboðslega mikið að feta í fótspor minnar heittelskuðu Ástu Sigurðardóttur og semja smásagnasafn. En ég fikra mig í áttina. Ætli ég byrji ekki fyrst á einskonar prósa- og örsagnasafni. Það þarf að taka svona hluti í skrefum, eða ég þarf það a.m.k..

Hvaða tungumál, sem þú skilur ekki, finnst þér fallegast?

Franska. Tvímælalaust. Þó svo að ég skilji ritaða frönsku ágætlega á ég enn erfitt með þá töluðu, og hún heillar mig gjörsamlega. Áður en ég dey ætla ég að skilja talaða frönsku — að geta notið ljóðlistar á frönsku er svo draumurinn.

En á hvaða tungumáli, ef nokkru, dreymir þig?

Mig dreymir svona oftast á íslensku bara — en stundum á einhverju bullmáli sem drauma-ég þekki ekki einu sinni. Það er þá oftast staðgengill fyrir eitthvað tungumál í draumnum sem ég skil ekki. Mig dreymir stundum ferðalög, núna síðast var ég stödd í Kína í draumi — og þá var kínverskan bara einhver tilbúningur sem ég bjó til. Það var soldið flippað.

Getur karlmaður breyst í konu þegar hann skrifar, þó ekki sé nema örstutta stund, og öfugt? (Ég leyfi mér — stundum — að vona það.) Geta ljóðskáld jafnvel breyst í fugl?

Það er falleg hugmynd — en ég held ekki. Ég held að enginn geti til fullnustu skilið eitthvað sem viðkomandi hefur ekki upplifað á eigin skinni. Það er hægt að setja sig í spor og ímynda sér, en aldrei verða og þekkja nákvæmlega.

Svekkjandi — en úr misheppnuðum tilraunum verður fegurðin til.

Hvor er betri, lyktin af nýslegnu grasi eða vandaðri prentbók sem maður opnar í fyrsta skipti?

Lyktin af nýslegnu grasi!!! Ég er að vísu með frjókornaofnæmi — en það gerir lyktina bara þeim mun meira spennandi. Mér finnst nefnilega lyktin af gömlum bókum betri en nýprentuðum, svona eins og lyktin af notuðum Rauða kross fötum er betri en þeim sem eru ný.

Haha, veltur það nú samt ekki á því hver átti fötin?

En hér kemur önnur hugleiðing: Ég man alltaf að í Flugum, hinu frábæra ljóða- og smáprósasafni Jóns Thoroddsen, les ljóðmælandi einhvern texta eftir annan höfund og fagnar því sérstaklega að hafa ekki þurft að skrifa textann sjálfur og geta bara notið hans og nært sig á honum, sem lesandi. Ég hugsa oft til þessara orða. (Það eru örugglega fimmtán ár síðan ég las Flugur síðast, en þetta rifjast oft upp fyrir mér.) Hvort heldurðu að sé meiri list — að skrifa eða lesa?

Ég held kannski að það sé ekki sambærilegt. Þetta er smá svona eins og að spurja hvort sé meiri list — að mála eða myndhöggva. Ég held nefnilega að lestur sé vanmetin listgrein sem allt of fáir gera sér grein fyrir því að þeir búi yfir, því hvað er texti ef hann er ekki lesinn? Og hvað er spennandi við texta sem er bara lesinn á eina vegu?

Akkúrat ekki neitt. Og ekkert er sambærilegt, en samt berum við allt saman, ekki rétt?

Í beinu framhaldi af því: Er til sú bók sem þú vildir óska að þú hefðir skrifað? Eða ætti maður kannski alltaf frekar að fagna því þegar aðrir taka sig til og skrifa meistaraverkin fyrir mann (við erum jú öll svo til sama manneskjan og bisum við að skrifa sömu stóru ofurbókina) og okkar er einungis að lesa þær og njóta þeirra?

Þær eru óteljandi! En flestar eru barnabækur, því það er kúnst sem ég held að sé erfitt að tileinka sér rétt. Draumurinn minn — sem ég gleymdi kannski að minnast á áðan — er að skrifa góða barnabók. Astrid Lindgren bækurnar eru mér ofarlega í huga þegar ég les þessa spurningu, hún var svo ótrúlega lunkin í því að flétta saman boðskap, sterkar aðalpersónur og spennandi atburðarásir. Og svo bara allar smásögurnar hennar Ástu. Ég hugsa alltaf með mér: „En hvað ég hefði nú verið sniðug að láta mér detta þennan stíl eða söguþráð í hug!“

Hefðir þú áhuga á að fá vikulegar ábendingar um áhugavert lesefni sendar til þín í pósti? Viltu fylgjast með ábendingum frá fleiri ráðunautum? Skráðu þig á Leslistann í dag!

--

--