Ráðunautur Leslistans: Kristín Ómarsdóttir

Leslistinn
May 4, 2018 · 7 min read

Kristín Ómarsdóttir er einn leikglaðasti höfundur sinnar kynslóðar, engum lík. Nýjustu útgefnu verk hennar eru Flækingurinn (skáldsaga, 2015) og Köngulær í sýningargluggum (ljóð, 2017). Hún er einnig lunkin í viðtalslistinni sjálf og hefur um nokkurt skeið tekið frábær viðtöl við rithöfunda fyrir Tímarit Máls & menningar, auk þess sem hún er upplesari, teiknari og óþreytandi erindreki bókmenntanna og listarinnar almennt. Í skeytasendingum milli Kristínar og Leslistans segir hún að „grundin [hafi verið] doppótt í morgun af snjó og sólin skín[i] mjög æst hingað inn“. Andstæðurnar eru sterkar því að fulltrúi Leslistans situr á sama tíma í þrjátíu stiga hita í Brooklyn, með sólsting. — SN.

Mikið gleður það mig að þú sitjir í sólskini, Kristín. En hvaða bók eða bækur ertu að lesa þessa dagana í svona fínni birtu?

Takk kærlega fyrir falleg orð um verkin mín og viðtölin. Ég les núna Miðausturlönd eftir Magnús Þorkel Bernharðsson, hún er nýkomin út, og ég var að lesa þrjár nýjar bækur eftir Bjarna Bernharð, tvær ljóðabækur, Maður að moldu og Glerhamur ljóss og skugga og lítið rit um Lsd; ég er búin að lána vini mínum ritið svo ég er ekki með titilinn á hreinu, það er einsog gömlu alþýðuritin sem fjölluðu um berkla og vatnslækningar, þarsem horft er raunsæjum, vísindalegum og varhugaverðum augum á Lsd. Ég tók um daginn Albert Camus tímabil, bækurnar hans aðstoðuðu mig í gegnum veturinn. Fyrir nokkrum árum komu út á íslensku frábært ritgerðarsafn og Útlendingurinn í tvítyngdri útgáfu — algjörlega súperískt að fá þessar bækur hingað. Mjög nýlega las ég skemmtilega bók eftir Claus Beck-Nielsen, Mine møder med de danske forfattere, og jafn nýlega las ég Fórnarleikana eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur og Sakramentið eftir Ólaf Jóhann — skáldsaga Álfrúnar fjallar um fjölskyldu í Reykjavík og spannar langt tímabil og skáldsaga Ólafs um lesbíska franska nunnu og misnotkun í Landakotsskóla; mæli með þessum bókum. Á milli þess sem ég las Álfrúnu og Ólaf Jóhann og svo Claus las ég aftur Punkt á skökkum stað eftir Jakobínu Sigurðardóttur; hún hefur elst undursamlega.

En netsíður, vefmiðla, tímarit? Lestu svoleiðis reglulega og þá jafnvel eitthvað sem þú vilt benda okkur forvitnum og námsfúsum lesendum á?

Á netinu les ég RÚV, visir.is, Stundina og New York Times, ég er áskrifandi að The Paris Review en ég les það sjaldan, afþví ég sé svo margar auglýsingar frá þeim á Twitter. Á tímabilum les ég bara um Ísland, á öðrum tímabilum um allt utan Íslands. Ég les ýmis blogg sem ég nefni ekki, afþví þau eru flest eftir karlmenn, ég finn lítið af vefsíðum eftir konur og ég efast um að bókaskápur Ástu sé Ástu. Eiginlega les ég allan daginn og byrja á fréttamiðlunum. Ég myndi benda forvitnum og námsfúsum á að fara á bókasafnið og ég vil biðja næstu borgarstjórn um að hámarka sektina á söfnunum niður í 1.200 krónur — við búum í lýðræði: bókasöfn eiga að vera ókeypis, líka aðgangurinn að listasöfnunum.

Heyr, heyr! Hvaða hlaðvörp/útvarpsþætti hlustarðu mest á?

Sarpinn hjá Rúv, Radio-lab og ég er með enskt hljóðbókaapp — ég hlusta á bækur og þætti á meðan ég teikna og ég teikna í lotum — gerir þú ekki svipað afþví þú ert alltaf teiknandi, að hlusta á þætti? Ég hef tvisvar tekið kúrsa á netinu í vísindum og bókmenntum og þurfti að skila ritgerðum, mjög gagnlegt.

Jú, ég hlusta mikið á þætti meðan ég teikna og eins núna undanfarið á meðan ég elda og skipti um bleyjur. En segðu mér, hver er uppáhaldsbókin/-bækurnar þínar? Er hægt að eiga sér eitthvað uppáhalds til langtíma eða breytist smekkur manns kannski stöðugt, jafnvel daglega?

Egilssaga. Brekkukotsannáll, Heimsljós, Atómstöðin. Ljóðasafn Ingibjargar Haraldsdóttur. Ljóðasöfn Edithar Södergran, Sigurðar Pálssonar, Þorsteins frá Hamri og Rumi. Dísusaga, Grandavegur 7 og Nætursöngvar eftir Vigdísi Grímsdóttur. Chelsea Girls eftir Eileenu Myles, Blátt blóð eftir Oddnýju Eir. Allar bækur sem koma út á íslensku. Don Kíkóti, Sagan af Lazarusi frá Tormes — ég kann ekki að skrifa titilinn rétt. Stríð og friður, Anna Karenina, Glæpur og refsing. Orlando eftir Virginiu Woolf. Í stuttu máli. Listinn er ótæmandi.

Hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Og hvar? Viltu þá helst vera ein eða innan um aðra?

Liggjandi heima, líka stundum sit ég, og líka finnst mér mjög gott að lesa á kaffihúsum og í kringum fólk í almanna rými, á biðstofum, í strætó, á bókasöfnum, í bókabúðum, ég elska að lesa upphátt bækur með öðrum í heimahúsi. Oft finnst mér gott að lesa eldsnemma á morgnanna, í nóvembermánuði og á vorin, sofna síðan smá áður en maður fer á fætur.

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku? Ertu kannski ennþá full af æsku? Verður maður einhvern tímann fullorðinn?

Kannski Heimsljós þegar ég var fjórtán ára — man vel dagana þegar ég las bókina, í desember, og hvar ég lá — í drapplituðum flauelssófa með fæturna uppí loft, á meðan þeir voru að vaxa. Á hverfanda hveli og Alister McLean-bækurnar þegar ég var þrettán, læknarómanar eftir Frank G. Slaughter og Heljarslóðaorrustan eftir Benedikt Gröndal. Ég ímynda mér að það hafi breytt lífi mínu þegar ég var fimm ára og mamma las fyrir mig Pípuhatt galdramannsins eftir Tove Janson. Þegar ég var unglingur voru frábærar bækur lesnar í útvarpinu, Bróðir minn ljónshjarta og Patrikur og Rut-bækurnar t.d., maður hlustaði bergnuminn á lesturinn liggjandi uppí rúmi — stundum á haus — flestir liggja mikið þegar þeir eru unglingar og þá er æðislegt að hlusta á það sem nú heitir hljóðbók. Við systir mín vorum óðar í bækur eftir Ann Cath-Vestly þegar við vorum litlar og fórum í Norræna húsið og fengum bækurnar að láni á norsku afþví við gátum ekki beðið eftir þýðingunum, ég skil ekki hvernig við fórum að því lesa norsku en það gerðum við — teikningarnar í bókunum voru líka æðislegar, grófar með miklum blýantsstrikum. Öddu-bækurnar voru fyrstu bækurnar sem ég las þegar ég varð læs, ég var ánægð með allar nema sú síðasta olli mér miklum vonbrigðum. Við vorum líka miklir aðdáendur Dóru og Völu-bókanna eftir Ragnheiði Jónsdóttur.

Hver er ofmetnasta bók sem þú hefur lesið? Hver er vanmetnasta bók sem þú hefur lesið?

Er þá ekki einhver hópur sem hefur upphafið bók og einhver hópur sem lítur niður á bók og tilheyrir þannig hegðun kannski heimi sem maður flækist í en vill ekki endilega gera að reglulegu heimili sínu? Þetta hefur eitthvað með snobb að gera og ég er snobbuð og ég fyrirlít mig fyrir það.

Nei, nei, um að gera að snobba svoldið! Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Einu sinni gaf ég í fermingar- og stúdentsgjafir Birting eftir Voltaire útafþví hvað mér fannst bókin skemmtileg (ég hef aldrei fengið viðbrögð við gjöfinni, það er best ég þakki fljótlega manninum sem gaf mér ljóðasafn herstöðvaandstæðinga þegar ég fermdist). Seinna breytti ég gjöfinni í ljóðasafn Gerðar Kristnýjar og til skiptis gef ég líka ljóðasafn Ingibjargar Haraldsdóttur. Ég get nefnt þetta hér afþví þetta er fullorðinssíða.

Hvaða bók viltu lesa næst?

Lys, lys, lys eftir Vilju Tuulia Huotarinen og eftir Madame Nielsen (sem er sami höfundur og Claus Beck-Nielsen) Den endeløse sommer.

Hvaða bók ætti að vera skyldulesning í menntaskóla? En í leikskóla? Er kannski slæmt að gera lestur að skyldu?

Það er skólaskylda í landinu og lestur og móðurmálskennsla eru innifalin í náminu, það verður ekki umflúið. Almennt læsi er grunnstoð lýðræðis. Fólk kemst ekki langt án þess að vera læst og framtíðarlegir möguleikar barnanna aukast við lestur, segja rannsóknir í útlöndum, því er ekki haldið á lofti hér, síðastliðin 20 og x ár hefur móðurmálskennslan verið skert og svo gerðist það í kringum aldamótin að krakkarnir í 9. eða 10. bekk voru látnir lesa íslenska glæpasögu og skrifa um hana kjörbókarritgerð. Kannski var þetta söluátak: og heill árgangur keypti nýjustu íslensku glæpasöguna. (5000 eintök?) Hvort ætli þetta hafi verið árás á fagurbókmenntir eða uppreisn gegn þeim? Og svo já meðfram því: skothellt markaðsátak. Þegar ég var í menntaskóla skrifaði ég kjörbókarritgerð í ensku um Útlendinginn (e. Camus) því pabbi minn átti bókina á ensku og ég fékk leyfi enskukennarans að hlaupa yfir sundið. Ég myndi benda krökkunum á Íslandi að lesa Útlendinginn.

Einræðisherrar byrja oft ferilinn á því að banna bækur og skylda fólk til að lesa aðeins bækurnar sem þeir skrifa og láta skrifa fyrir sig. Lestur er hættulegur einsog hugsanirnar okkar og orðin. Ég vona að það sé ekki markmiðið með að hefta móðurmálskennslu að letja hugsunina.

Hvaða ljóðskáld myndirðu helst vilja fá til að yrkja kvæði um þig? Um hvaða ljóðskáld langar þig helst að skrifa smásögu eða ljóð?

Mig langar ekki að vera í ljóði og mig langar ekki að vera í sögu. Þess vegna ætti ég ekki að setja aðra í ljóð eða sögu (allt sem þú vilt að aðrir menn gjöri yður…) En ég væri til í að skrifa sögu með Nínu Björk, Ingibjörgu Haraldsdóttur og mömmu minni í — Steinn Steinar myndi sitja á Hressó á meðan þær ækju rúntinn á mótorhjólum.

Hvaða höfundur og/eða bók er þér ævinlega eldsneyti til skrifa, innblásturs, lífsgleði? Hefur eitthvert eitt bókmenntaverk jafnvel orðið þér innblástur til að skrifa heila bók, hvort sem þú áttaðir þig á því fyrir skrifin, meðan á þeim stóð eða í endursýn?

Já, Skáldsagan Milla er undir áhrifum frá Raunum Werthers unga eftir Goethe. Og kvikmyndin um Djöflaeyjuna, eftir skáldsögum Einars Kárasonar, kveikti á öðru uppkasti Elskan mín ég dey, ég sá hana í Stjörnubíói og fór heim og byrjaði á nýrri gerð sögunnar. Þjóðsögur hafa oft verið eldsneyti, alls konar forn kveðskapur og náttúruundur.

Hefðir þú áhuga á að fá vikulegar ábendingar um áhugavert lesefni sendar til þín í pósti? Viltu fylgjast með ábendingum frá fleiri ráðunautum? Skráðu þig á Leslistann í dag!

Written by

Vikulegt fréttabréf um áhugavert lesefni. leslistinn.com

Welcome to a place where words matter. On Medium, smart voices and original ideas take center stage - with no ads in sight. Watch
Follow all the topics you care about, and we’ll deliver the best stories for you to your homepage and inbox. Explore
Get unlimited access to the best stories on Medium — and support writers while you’re at it. Just $5/month. Upgrade